Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:34:11 (1730)

2003-11-17 16:34:11# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þegar lagt er mat á stöðu nýsköpunar á Íslandi er nauðsynlegt að horfa til fjölmargra þátta. Veigamestu atriðin eru framlög til þróunar- og rannsóknamála, menntastig og almennt nýsköpunarstarf. Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar á Íslandi eru nú rúmlega 3% af vergri landsframleiðslu, en þetta er sú vísbending sem hvað algengast er að nota þegar borin er saman fjárfesting landa í rannsóknum og þróun. Aðeins Svíþjóð og Finnland hafa verið fyrir ofan okkur hvað þetta snertir og Ísland var þriðja ríkið á EES-svæðinu sem náði þessu hlutfalli. Þriðja ríkið.

Í nýlegri skýrslu World Economic Forum kemur fram að Ísland er í 8. sæti þegar metin er samkeppnishæfni ríkja, þetta hefur komið fram hér í umræðunni, en þetta er ótrúlega hagstæð niðurstaða. Ótrúlega hagstæð fyrir okkar litla ríki sem keppir á listanum við ríki á borð við Noreg, Japan, Bretland og Þýskaland og skýtur öllum þessum ríkjum ref fyrir rass. Í sérstakri upplýsinga- og tæknivísitölu World Economic Forum er Ísland í fyrsta sæti þeirra 102 ríkja sem skipa lista stofnunarinnar. Þegar kemur að nýsköpun er Ísland hins vegar í 21. sæti. Iðntæknistofnun tók á sínum tíma skýrslu World Economic Forum frá því í fyrra til skoðunar og þar kom fram að ein helsta ástæða þess að Ísland er ekki ofar en raun ber vitni á lista stofnunarinnar yfir nýsköpun er það mat þeirra að nokkuð hafi skort á að fjöldi þeirra sem ganga í háskóla og framhaldsskóla sé sambærilegur við það sem gerist annars staðar í samanburðarríkjunum.

Af þessari ástæðu þykir mér rétt að koma því á framfæri að samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef af heimasíðu menntmrn. sýna tölur frá Hagstofu Íslands að mikil aukning hefur orðið í fjölda háskólastúdenta á undanförnum árum. Árið 1990 var fjöldi stúdenta við nám á Íslandi 5.296, árið 2001 var fjöldinn 11.883 og 13.884 árið 2002.

Að lokum þykir mér ástæða til að geta þess að sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að atvinnufyrirtæki leggja nú í æ ríkari mæli fram fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfs og hlutur þeirra fer því vaxandi, jafnframt sem heildarfjármagnið er að aukast, en það hefur þrefaldast til rannsókna- og þróunarstarfs frá 1997.

Virðulegi forseti. Staða nýsköpunar á Íslandi er góð og við erum til fyrirmyndar í alþjóðasamfélaginu.