Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:41:23 (1733)

2003-11-17 16:41:23# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. vera nokkuð fljótur á sér að afskrifa mig sem ráðherra sem fer með þennan málaflokk. Raunin er sú að ég er nokkuð stolt yfir því sem ég hef náð fram í minni tíð sem iðn.- og viðskh. og þá er ég sérstaklega að tala um þá stoð sem iðnrn. fékk með lögunum um vísinda- og tækniráð þar sem í fyrsta skipti er tekið tillit til atvinnulífsins í tengslum við vísindarannsóknir á Íslandi, að þær þurfi að leiða af sér störf og arðbær fyrirtæki. Þetta er mikils virði, það vil ég leyfa mér að fullyrða. Og Tækniþróunarsjóður er engin skyndilausn, þetta er framtíðarlausn. Hann fær 200 milljónir miðað við fjárlagafrv. á næsta ári og sú fjárhæð fer hækkandi eins og ég kom að áðan.

Það má tala um Nýsköpunarmiðstöðina, hún er líka framtíðarlausn. Og hún hefur með að gera margt sem skiptir máli, eins og frumkvöðlafræðslu, gerð viðskiptaáætlana og fleira. Það er líka nýjung. Það því er ýmislegt sem hefur verið gert sem horfir til bóta vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að það þurfti að taka á málum.

Spurt er um Nýsköpunarsjóð og það er eðlilegt að það sé gert. Ég hef áhyggjur af honum og hann hefur ekki getað stundað þá starfsemi sem honum ber í raun lögum samkvæmt vegna þess að hann hefur verið að tapa fjármunum. Við höfum fundað um það málefni með fulltrúum sjóðsins og með fulltrúum vörsluaðila framtakssjóðanna, sem skiptir líka máli, og það er unnið að framtíðarlausn í þeim efnum.

Ég vil líka leyfa mér að nefna þá fjármuni sem ákveðið var að veita til atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni, til sprotafyrirtækja, 800 millj. sem Byggðastofnun hefur verið að vinna úr og er nú þegar búið að úthluta fjármagni einmitt til fyrirtækja sem eru í þessum nýju greinum. Nefna má líftækni sem á geysilega framtíð fyrir sér. Og vetnið, er það ekki nýsköpun? Við Íslendingar erum fremstir á sviði vetnis. Og lögin sem sett voru um tímabundinn stuðning vegna kvikmyndagerðar. Og fleira mætti nefna. Það er hægt að nefna margt en það er um að gera að halda áfram að standa sig og ég mun leggja mig fram um það.