Einkaleyfi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:55:05 (1735)

2003-11-17 16:55:05# 130. lþ. 28.3 fundur 303. mál: #A einkaleyfi# (EES-reglur, líftækni) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hæstv. iðnrh. hefur flutt er um breytingu á lögum um einkaleyfi þar sem ekki er að finna sérákvæði er varðar uppfinningar á sviði líftækni. Eins og kemur fram í athugasemdum með frv. er fjallað um það að ekki er unnt að öðlast einkaleyfi fyrir plöntu- og dýraafbrigðum eða aðferðum við að framleiða plöntur eða dýr sem eru aðallega líffræðilegar. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er þetta tilskipun nr. 98/44 frá Evrópusambandinu, um lögvernd uppfinninga í líftækni, sem fjallar um einkaleyfishæfi, umfang verndar á þessu sviði og nauðungarleyfi sem varðar varðveislu líffræðilegs efnis, eins og fram kemur í frv.

Út af fyrir sig er þetta mál vafalaust hið merkasta mál og þarft að setja í löggjöf. Það er dálítið táknrænt að hæstv. iðnrh. skuli nú vera að fylgja hér eftir einni ákveðinni tilskipun Evrópusambandsins í framhaldi af umræðu sem átti sér stað fyrr í dag. Það er nú svo að hæstv. iðnrh. hefur tekið að sér að fylgja hér eftir ýmsum tilskipunum Evrópusambandsins og færa þær inn í íslensk lög og ekkert nema gott eitt um það að segja, en hafa ætti hæstv. ráðherra í huga að fótgönguliðar Evrópusambandsins sitja nú margir hverjir á ráðherrabekk í dag.

Eins og hér kemur fram líka hefur við gerð frv. verið lögð áhersla á grundvallarvinnu norræna vinnuhópsins sem starfaði 1998--1999 og markmið þessarar tilskipunar, eins og hér kemur fram, er að samræma ákvæði aðildarríkja Evrópusambandsins og nú aðildarríkja EES-samningsins varðandi þetta einkaleyfishæfi.

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í hv. iðnn. sem ráðherra hefur vísað þessu máli til, þá finnst mér ekki ástæða til að orðlengja þetta frekar. Þetta kemur til vinnu í iðnn. og verður sent út til umsagnar væntanlega eins og lög gera ráð fyrir. En ég tók eftir því í lokin að þar sem þetta væri EES-tilskipun þá þyrfti að klára þetta mál fyrir jól. Þess vegna verð ég að geta þess, virðulegi forseti, að það hefði nú verið betra að málið hefði komið fyrr því þess má vænta að mörg frumvörp frá ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn muni birtast og verði vísað til nefndar í aðdraganda nefndadaga, en óneitanlega verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég hefði viljað að þetta mál, sem er dálítið yfirgripsmikið og þarf vafalaust að skoða mjög vel, hefði mátt koma fyrr inn.