Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:02:00 (1738)

2003-11-17 17:02:00# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem er 304. mál þingsins á þskj. 349.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í lögunum var gjaldi sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að gjaldið uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þyrfti álagningarhlutföll í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn.

Frv. þetta er flutt í því skyni að breyta álagningarhlutföllum 5. gr. laganna. Í frv. er miðað við að kostnaður af starfsemi Fjármálaeftirlitsins verði 288,7 millj. kr. á árinu 2004 sem er 8,5% hækkun frá þessu ári. Nýlegar lagabreytingar hafa haft í för með sér aukið umfang í starfsemi eftirlitsins. Væntanlegar breytingar á eiginfjárreglum, Basel-reglur, og nýjar tilskipanir og tilmæli evrópskra fjármálaeftirlita um verðbréfaviðskipti hafa einnig kallað á mikinn undirbúning. Væntingar standa til þess að þetta aukna umfang sé tímabundið. Gert er ráð fyrir að ársverkum fjölgi um 1,5 á næsta ári en stefnt er að því að fjölga ekki fastráðnum starfsmönnum.

Eftirlitsskyldir aðilar hafa farið fram á að ríkið greiði hluta kostnaðarins við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Rökin eru þau að Fjármálaeftirlitið taki þátt í mótun reglna sem eðlilegt sé að ríkið greiði. Viðskrn. hefur hafnað þessari kröfu. Í athugasemdum með frv. eru upplýsingar um fjármögnun fjármálaeftirlita innan EES. Þar kemur fram að það fyrirkomulag sem hér tíðkast er hið langalgengasta innan EES enda er mótun og samræming reglna eðlilegur þáttur í opinberu fjármálaeftirliti samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum.

Hæstv. forseti. Í fskj. III með þessu frv. er að finna skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um starfsemi eftirlitsins. Í 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er kveðið á um að ráðherra skuli leggja slíka skýrslu fyrir Alþingi. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, þ.e. lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar. Þá er greint frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.

Í skýrslunni er einnig umfjöllun um nýjustu athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu. Niðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gefa til kynna að Fjármálaeftirlitið og sú umgjörð sem fjármálafyrirtækjum er nú búin standist í heild samanburð við það besta sem gerist. Sú niðurstaða er mikilvæg fyrir samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.