Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:05:53 (1739)

2003-11-17 17:05:53# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég verð alltaf jafnhissa þegar hæstv. viðskrh. mælir fyrir þessu frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem hefur verið árviss atburður undanfarin ár. Hæstv. ráðherra tekur hér fjórar mínútur, ef ég hef skilið þetta rétt, til þess að mæla fyrir frv., en frv. fylgir ítarleg greinargerð og er alls um 74 síður. Hér er ekki einungis verið að gera grein fyrir fjármálaumsvifum Fjármálaeftirlits á næsta ári og nauðsynlegum breytingum til þess að Fjármálaeftirlitið hafi tekjur til að standa undir starfsemi sinni heldur er, eins og ráðherrann hæstv. sagði hér í stikkorðum, Fjármálaeftirlitið að gera grein fyrir skýrslu til viðskrh. um umfangsmikla starfsemi sína, auk þess sem eftirlitsskyldir aðilar gera ýmsar athugasemdir varðandi umfang Fjármálaeftirlitsins því það eru þeir sem þurfa að standa undir kostnaði við eftirlitið. Mér finnst hæstv. ráðherra sýna bæði þinginu mikla vanvirðingu og Fjármálaeftirlitinu með því að fara ekki yfir helstu efnisatriði sem fram koma í greinargerð, ítarlegri greinargerð frá Fjármálaeftirlitinu sérstaklega, vegna þess að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er ákaflega þýðingarmikið og brýnt í allri okkar fjármálastarfsemi. Hlutverk þess er að takmarka hættuna á áföllum á fjármálamarkaðnum, eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar fylgi lögum og reglum á fjármálamarkaði og koma í veg fyrir innherjasvik og markaðsmisnotkun. Og það eru ýmsar alvarlegar athugasemdir, að mínu mati, hæstv. forseti, gerðar í þessari skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem full ástæða hefði verið til af hálfu hæstv. ráðherra að ræða hér ítarlega og kynna sjónarmið sín á.

Þess vegna gagnrýni ég það enn og aftur að ráðherrann skuli ekki sjá ástæðu til þess að gera frv. og greinargerð sem við hér ræðum hærra undir höfði en hún sýndi hér áðan, hæstv. ráðherra, með málflutningi sínum.

Ég hef nokkar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra. Ég tel ekki ástæðu til að dvelja lengi við þær athugasemdir sem hafa komið fram frá eftirlitsskyldum aðilum en þar kemur fram hefðbundin gagnrýni þeirra á umfang Fjármálaeftirlitsins og kostnaðinn sem því fylgir. Ég hef ekki talið ástæðu til að taka undir þá gagnrýni sem eftirlitsskyldu aðilarnir setja fram á kostnað við eftirlitið. Þau verkefni sem Fjármálaeftirlitið hefur fengið ár frá ári eru sífellt að vaxa í takt við flóknari umsýslu á fjármálamarkaði, fjölgun verkefna og lög frá Alþingi sem setja fleiri og fleiri skyldur á eftirlitið. Ég hef ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir sérstaklega við þennan þátt í frv.

Ég vil bæta því við, virðulegi forseti, að í þessari skýrslu fylgir það sem t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði á árinu 2001 varðandi athugun sína á fjármálastöðugleika á Íslandi og síðan á árinu 2003. Þar kom fram að á árinu 2001 lagði sjóðurinn til ýmsar breytingar á löggjöf og eftirliti til að bregðast við veikleikum á fjármálamarkaði og í eftirliti með honum, m.a. lagði sjóðurinn til verulega stækkun á Fjármálaeftirlitinu. Þetta hefur auðvitað verið í takt við þá þróun sem hefur verið frá systurstofnunum Fjármálaeftirlitsins víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Þetta var á árinu 2001. Síðan kemur hér fram að sendinefnd frá Aþjóðagjaldeyrissjóðnum sótti Ísland heim í apríl 2003 til að fylgja eftir athugun á fjármálastöðugleika sem gerð var á árinu 2001. Niðurstöður staðfestu að ójafnvægi sem greindist í skýrslunni frá 2001 væri horfið og að meira jafnvægis gætti nú í áhættufjármálageira, m.a. fyrir tilstuðlan fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerða.

Hjá Fjármálaeftirlitinu kemur líka fram að þeir telja upp ýmsa þætti sem hafa bæst við í starfsemi Fjármálaeftirlitsins og telja nauðsynlegt. Orðrétt segir hér í þessari skýrslu, með leyfi forseta, að:

,,Stjórnvöld þurfi að vera reiðubúin að endurskoða stærð Fjármálaeftirlitsins þar sem starf þess við að koma nýjum lögum í framkvæmd megi ekki koma niður á kjarnaeftirliti.``

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem fer varlega oft þegar um er að ræða aukin útgjöld og umsvif tekur þá undir það að vel eigi að búa að Fjármálaeftirliti í samræmi við þau verkefni sem það hefur haft með höndum. Auðvitað tek ég undir það að auðvitað eigi að gæta aðhalds og hagkvæmni í öllu því sem snýr að opinberum stofnunum, ekki síður Fjármálaeftirlitinu en öðru, en maður verður að horfa til þeirra verkefna sem Fjármálaeftirlitið hefur með höndum þegar verið er að líta til rekstrarumfangs stofnunarinnar.

Ég vil þá víkja að því, virðulegi forseti, að Fjármálaeftirlitið hefur nýlega sett fram hugleiðingar um gegnsæi starfsemi Fjármálaeftirlitsins og spyr hvort ástæða sé til að rýmka heimildir þess til að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðum í einstaka málum. Í umræðuskjali sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið út um þetta mál segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið fjallar hins vegar ekki opinberlega um einstök mál eða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila, nema mælt sé fyrir um upplýsingaveitingu í lögum. Eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur eiga því ekki aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær séu birtar af öðrum aðilum en Fjármálaefirlitinu.

Fjármálaeftirlitið sætir oft gagnrýni vegna þessa síðastnefnda. Nefnt hefur verið að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og niðurstöðum séu lítil og aðgerðir þess í einstökum málum stuðli ekki nægilega að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild. Sérstaklega hefur verið bent á að mikilvægt sé fyrir hagsmuni verðbréfamarkaðar að gegnsæi ríki í afdrifum mála sem upp komi.``

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir þetta og mér finnst mjög gott að Fjármálaeftirlitið skuli setja fram hugleiðingar um að það þurfi að auka gegnsæi í starfsemi þess og greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðum í einstaka málum sem þeir hafa ekki gert hingað til af því að þeir eru bundnir ákveðinni þagnarskyldu með lögum. Þeir leggja raunverulega til að þetta mál verði skoðað af fullri alvöru en segja hér, með leyfi forseta:

,,Taka ber fram að breytingar á núgildandi fyrirkomulagi eru ekki á forræði Fjármálaeftirlitsins, þar sem aukin upplýsingamiðlun um niðurstöður þess í einstökum málum er háð breytingum á lögum.``

Þess vegna beini ég orðum mínum til hæstv. viðskrh. og spyr um álit hennar á þessari breytingu á upplýsingaskyldu Fjármálaeftirlitsins sem það sjálft setur hér fram til þess að auka gegnsæi og tryggja meira aðhald og eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum eins og hægt er með því að hafa meira gegnsæi ríkjandi og þær skyldur á Fjármálaeftirlitinu að greina frá og birta niðurstöður í einstökum málum. Þar sem hér er um löggjafaratriði að ræða hlýtur hæstv. viðskrh. að hafa skoðun á því hvort hér beri að auka gegnsæið. Og ég vísa til þess þegar ég beini spurningu minni til hæstv. viðskrh. að hér stendur í því skjali sem Fjármálaeftirlitið hefur sent fram um þetta mál, með leyfi forseta:

[17:15]

,,Jafnframt er kveðið sérstaklega á um að tryggja þurfi eftirlitsaðilum heimild til að greina opinberlega frá beitingu stjórnsýsluviðurlaga.``

Þetta er sem sagt í nýlegri tilskipun Evrópusambandsins. Þar er kveðið sérstaklega á um að tryggja þurfi eftirlitsaðilum heimild til þess að greina opinberlega frá beitingu stjórnsýsluviðurlaga.

Ég tel því ástæðu til þess þegar við ræðum um starfsemi Fjármálaeftirlitsins að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hún telji að það sé rétt að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að greina frá niðurstöðum í einstaka málum.

Virðulegi forseti. Með reglubundnum hætti kemur upp umræða um tryggingafélögin og þau háu iðgjöld bifreiðatrygginga sem bifreiðaeigendur hafa þurft að búa við á umliðnum árum. Það er ekki langt síðan við vorum hér í þinginu í umræðu einmitt um há iðgjöld bifreiðatrygginga sem hafa hækkað mjög mikið á umliðnum árum og um 80--90% á stuttum tíma. Ég hef sett fram gagnrýni á Fjármálaeftirlitið vegna þessa og talið að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir því af hverju það telji ekki ástæðu til þess að grípa til neinna aðgerða gegn tryggingafélögunum. Við höfum séð bótasjóði tryggingafélaganna blása út á sama tíma og iðgjöldin hafa hækkað. Það er auðvitað ástæða til þess að skoða það sérstaklega varðandi bótasjóðina. Við hljótum að skoða það m.a. í ljósi þeirra reglna sem gilda um skattlagningu bótasjóðanna. Ég tel að þeim verði að breyta þannig að óuppgerð tjón liggi ekki árum saman í sjóðunum og þannig geti tryggingafélögin legið með gífurlega mikið af óskattlögðum fjármunum í sinni vörslu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það þurfi ekki að taka bótasjóðina til sérstakrar skoðunar, fyrirkomulag þeirra, og hvernig þeir hafa blásið út á sama tíma og iðgjöldin hafa verið að hækka.

Ég spyr ráðherrann sérstaklega um það hvort það sé eðlilegt, þetta tvíþætta hlutverk sem Fjármálaeftirlitið hefur með höndum, þ.e. annars vegar að hafa eftirlit með að iðgjöld standi undir skuldbindingum sínum sem snýr að tryggingafélögunum, og hin hliðin sem snýr að neytendum, að hafa eftirlit með að iðgjöld séu hófleg gagnvart neytendum.

Það getur verið að verksvið Fjármálaeftirlitsins stangist þarna á og það er spurning hvort það þurfi að kljúfa þetta upp með einhverjum hætti, að þetta sé ekki hvort tveggja á höndum Fjármálaeftirlitsins, a.m.k. miðað við þá reynslu sem við höfum, þá umræðu sem við höfum gengið í gegnum hér í þessum þingsal, án þess að Fjármálaeftirlitið beiti sér með einum eða öðrum hætti gagnvart neytendum að mér finnst, virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera skoðunarinnar virði hvort kljúfa eigi upp þessa tvo verkþætti sem Fjármálaeftirlitið hefur annars vegar gagnvart tryggingafélögunum og hins vegar gagnvart neytendunum. Ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Undir þessu umræðuefni, þar sem við ræðum hér um Fjármálaeftirlitið, hefði verið fengur í því ef hæstv. ráðherra hefði séð ástæðu til þess að ræða eitthvað um þá þróun sem hefur verið á bankamarkaðnum, þegar bankastofnanir fara í æ ríkara mæli út í fjárfestingar í atvinnulífinu og eigendur bankastofnana orðnir umsvifamiklir í rekstri á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Menn hafa áhyggjur af því að þetta valdi hagsmunaárekstrum og hefði verið eðlilegt að kalla eftir því við þessa umræðu að fá álit hæstv. viðskrh. á þessari þróun.

Virðulegi forseti. Ég hef eina fyrirspurn til viðbótar til hæstv. ráðherra, sem við ræddum reyndar aðeins á síðasta þingi, það snertir upplýsingaskyldu um starfskjör stjórnenda. En Kauphöllin hefur sett slíkar reglur fyrir fyrirtæki sem eru skráð hjá Kauphöllinni. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hefur Fjármálaeftirlitið sett reglur um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða, um starfskjör stjórnenda sambærileg þeim sem Kauphöll Íslands hefur sett um skráð félög Kauphallar? Ég minnist þess að þetta hafi komið til tals í umræðu á síðasta þingi og ég innti hæstv. ráðherra eftir þessu þá. Hæstv. ráðherra tók vel undir það, ef ég man rétt, að eðlilegt væri að slíkar reglur yrðu settar. Ég hef ekki orðið þess vör að þær hafi séð dagsins ljós. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Eru einhverjar slíkar reglur í undirbúningi? Hefur hæstv. ráðherra vitneskju um það? Er hæstv. ráðherra tilbúinn til þess, ef slíkar reglur eru ekki í undirbúningi, að beina tilmælum, og ég undirstrika tilmælum, til Fjármálaeftirlitsins um að slíkar reglur verði settar?

Í skýrslunni sem við ræðum er töluvert fjallað um lífeyrissjóðina og það koma ýmsar athugasemdir fram hjá Fjármálaeftirlitinu varðandi starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég viðurkenni það, virðulegi forseti, að ég hef haft af því töluverðar áhyggjur að ekki sé nægjanlegt eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðanna, m.a. hugsanlegum hagsmunaárekstrum hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna. Maður veltir fyrir sér hvaða reglur gilda um setu stjórnarmanna og stjórnenda lífeyrissjóða í stjórnum fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í, ef stjórnarmenn eða stjórnendur eiga sæti í stjórn þess fyrirtækis og eiga sjálfir hlut í því eða eiga annarra hagsmuna að gæta í viðkomandi fyrirtæki. Ég er alls ekki klár á því hvernig á þessum málum er tekið t.d. af hálfu Fjármálaeftirlitsins, hvort gagnsæi og eftirlit sé þar nægilega mikið til þess að maður hafi svona sæmilega tilfinningu fyrir því að ekki sé um að ræða hagsmunaárekstra varðandi starf stjórnenda og starfsmanna lífeyrissjóðanna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það.

Lífeyrismarkaðurinn fær töluvert rúm í skýrslu Fjármálaeftirlitsins til hæstv. viðskrh. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Nokkur brögð hafa verið að því að ársreikningar og fjárfestingarstefnur lífeyrissjóðanna hafi ekki verið í samræmi við reglur sem um þau gilda og hafa margvíslegar athugasemdir verið gerðar við sjóðina í þessu sambandi og úrbóta krafist.

Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu hafið viðamiklar athuganir á starfsemi þriggja lífeyrissjóða. Tveimur þeirra lauk með athugasemdum og kröfum um úrbætur en einni er ólokið. Í einu tilviki afhenti Fjármálaeftirlitið efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra niðurstöður og gögn vegna athugunar.``

Síðan segir varðandi lífeyrissjóðina:

,,Talsvert hefur verið um réttindaskerðingar, ýmist í formi lækkunar margföldunarstuðla eða breytingar á greiðslutímabilum lífeyris.``

Það er ýmislegt annað sem kemur fram í þessari skýrslu sem ég sé að ég hef ekki tíma til þess að ræða. Hér er farið yfir hvernig tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna er í árslok 2002. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að sú mynd sem þar er dregin upp veldur nokkrum áhyggjum. Þar kemur fram að tryggingafræðileg staða hjá lífeyrissjóðunum í árslok 2002 hafi verið jákvæð hjá 11 lífeyrissjóðum, halli á bilinu 0,1--5% hjá níu lífeyrissjóðum, hjá 18 lífeyrissjóðum var halli á bilinu 5,1--10% og hjá fjórum var halli meira en 10%.

Þessar tölur segja okkur að það er ástæða til þess að hafa þarna áhyggjur og maður verður auðvitað að treysta því að Fjármálaeftirlitið standi vel gæsluna og vörðinn um það að lífeyrissjóðirnir eigi fyrir sínum skuldbindingum. Það er hart til þess að vita að halli á lífeyrissjóðunum, hverjum sem þar er um að kenna, óvarleg fjárfesting lífeyrissjóðanna eða hvað það er, þurfi að bitna með harkalegum hætti á réttindum fólksins. Af því er ástæða til þess að hafa áhyggjur og er bent á ýmislegt fleira varðandi lífeyrissjóðina sem ég hef ekki tíma til að ræða hér þar sem tíma mínum er lokið. En ég ítreka þær fyrirspurnir sem ég hef lagt til hæstv. viðskrh. og vænti þess að hún svari þeim í síðari ræðu sinni.