Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:47:00 (1742)

2003-11-17 17:47:00# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það kom mér svo sem ekki á óvart að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fyndi að því við mig að ég skyldi ekki halda lengri ræðu af þessu tilefni. Það hefur hún gert áður. Það má alveg velta því fyrir sér hvort hún hafi á réttu að standa hvað það varðar. Frv. er með fylgiskjölum mikið að vöxtum og gefur tilefni til mikillar umræðu. En það liggur fyrir og hv. þingmenn geta nýtt sér þau gögn eins og þeim þykir eðlilegt og brugðist við því sem þar kemur fram.

Mig langar til að koma inn á nokkur atriði í þessari umræðu. Ég tek undir það með hv. þingmönnum að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er mjög mikilvægt. Þar hefur verið brugðist við ábendingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Síðasta einkunn sem fékkst var mjög jákvæð fyrir eftirlitið. En upp hefur komið umræða sem var vakin á ársfundinum um hvort ástæða sé til að breyta lögum, gera starfsemina gagnsærri en hún hefur verið með lagabreytingu. Það sem um er að ræða er að til umfjöllunar er umræðuskjal um þetta efni. Mér finnst málið nokkuð vandmeðfarið vegna þess að það að breyta lögunum, breyta þessum vinnubrögðum, hefur bæði kosti og galla. Ég get þó sagt að mér þætti koma til greina og jafnvel æskilegt að hafa meira gagnsæi varðandi verðbréfamarkaðinn. Það tel ég a.m.k. vel þess virði að skoða nánar og við munum gera það í ráðuneytinu. Ég ítreka að það þarf lagabreytingu til að svo geti orðið.

Það eru heimildir í lögum til að leggja á stjórnvaldssektir. En varðandi það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi í tengslum við tilskipun frá Evrópusambandinu þá er í þeirri tilskipun verið að tryggja enn frekar slíkar heimildir, gera þær ríkari en þær eru í dag. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því sem þaðan kemur.

Bótasjóðir voru nefndir til sögunnar. Við höfum nýlega farið í gegnum þá umræðu á hv. Alþingi í utandagskrárumræðu. Mér er kunnugt um að væntanleg er skýrsla frá eftirlitinu um vátryggingaskuldir eða það sem kallað hefur verið bótasjóðir. Ég hef svo sem ekkert meira um það að segja. Þetta tvíþætta hlutverk sem hv. þm. nefndi er ekki á sama hátt á Íslandi, það hlutverk sem við felum Fjármálaeftirlitinu í þessu sambandi, og almennt gerist. Það á bæði að fylgjast með því að iðgjöld séu hófleg og hins vegar rekstrargrundvelli fyrirtækjanna. Segja má að í því fyrirkomulagi sem hér ríkir sé ríkari áhersla lögð á neytendavernd en almennt er. Það hlýtur að teljast af hinu góða.

Varðandi það að bankarnir fjárfesti í atvinnulífinu, sem hefur einnig komið til umræðu utan dagskrár, má segja að samkvæmt lögum geta fjármálafyrirtæki ekki verið kjölfestufjárfestar í öðrum atvinnufyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum. Þetta er alveg skýrt. Þegar fjármálafyrirtæki fjárfestir í annars konar fyrirtæki þá getur það ekki verið annað en tímabundið. Það þarf að vera rík ástæða til þess, annaðhvort vegna umbreytingastarfs í viðkomandi fyrirtæki eða þess að fjármálafyrirtæki eignast hlut í atvinnufyrirtæki á þeim forsendum að það ætli sér í fjárhagslega endurskipulagningu. Þessi löggjöf er í samræmi við það sem tíðkast hjá Evrópuþjóðum og almennt í heiminum, í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég er ekki tilbúin að fallast á að æskilegt sé að við breytum þeim lögum sem hér gilda í þá átt að gera ómögulegt fyrir fjármálafyrirtæki að vera bæði viðskiptabankar og fjárfestingarbankar.

Hv. þm. kom síðan inn á starfskjör stjórnenda lífeyrissjóða, upplýsingagjöf í því sambandi og hvort rétt væri að setja um það reglur. Ég hef ekki upplýsingar um hvort Fjármálaeftirlitið er að vinna að slíkri reglugerð. Það er kannski til staðfestingar á því hversu sjálfstætt Fjármálaeftirlitið er, hversu sjálfstætt það starfar. Ég hef ekki upplýsingar um það sem þar er unnið og á ekki að hafa þær. Þrátt fyrir að eftirlitið heyri undir viðskrn. þá starfar það algjörlega sjálfstætt.

Þar kem ég að því sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem að einhverju leyti efaðist um að Fjármálaeftirlitið hefði fullt sjálfstæði gagnvart ráðuneytinu og eftirlitsskyldum aðilum. Ég vil halda því fram að svo sé og að það stjórnskipulag sem þar ríkir sé sterkt. Í raun má segja að umræðan sem fer fram núna færi ekki fram ef Fjármálaeftirlitið væri rétt eins og hver önnur stofnun á fjárlögum ríkisins. Umræðan fer fram vegna þess að svo er ekki. Það þarf lög til að hægt sé að leggja á þá skatta sem eftirlitsskyldir aðilar þurfa að bera til að reka stofnunina.

Ég vil nefna fleira sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, m.a. varðandi fækkun í Kauphöll. Hann taldi það áhyggjuefni en þetta er í samræmi við alþjóðlega þróun. Þar eru þó 55 fyrirtæki skráð núna, ef ég man rétt, og voru yfir 70 þegar flest voru. Þetta er í raun þróun sem átt hefur sér stað víðar en ég held að henni sé hrundið hvað varðar Ísland og frekar megi búast við fjölgun á næstunni. Ég vil einnig geta þess að Færeyingar hafa áhuga á að skrá fyrirtæki í Kauphöll Íslands og mér finnst mjög skemmtilegt að svo skuli vera. Það verður sérstaklega skemmtilegt fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Hann hefur verið svo vinsæll í Færeyjum að það er verið að tala um að stoppa hann upp þar. Hann er því miður ekki í salnum til þess að bregðast við því. En það væri vissulega athyglisvert ef því yrði.

Síðan gætum við farið út í fákeppniseinkenni og talað um þau mál. Þau eru til staðar á markaðnum. En það er vandlifað, ef svo má að orði komast, á frjálsum markaði án þess að þar eigi sér stað hlutir sem einhverjir kunna að vera ósáttir við. Ég er hins vegar ekki tilbúin að samþykkja hér og nú að vinna skuli aðra skýrslu af hálfu Samkeppnisstofnunar um þetta efni strax. Það kom frá þeim vönduð skýrsla fyrir tveimur árum og kostaði mikla peninga að vinna hana. Ég held að það sé ástæða til að gefa henni svolítið meiri tíma þó auðvitað hafi orðið ákveðin þróun og breyting á markaðnum síðan hún kom út.

Þetta er það sem ég vildi segja í sambandi við það sem fram hefur komið. Ég ítreka að verkefni og hlutverk Fjármálaeftirlitsins er mjög mikilvægt. Ég tel að þar hafi verið unnið vel og alþjóðlegar skýrslur og úttektir sýna það. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort ástæða er til þess að þetta starf sé gagnsærra en það er í dag, ekki síst vegna eftirlitsins sjálfs, að fólk viti meira um hvað er gert. Ég held að það sé ástæða til að gefa þeirri umræðu svolítinn tíma og kveð ekki skýrt upp úr með það á þessari stundu hvað rétt sé. Ég tel mikilvægt að umræða um það fari fram.