Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:56:54 (1743)

2003-11-17 17:56:54# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó hún hafi ekki svarað öllum þeim fyrirspurnum sem ég beindi til hennar.

Ég fagna því, þótt ráðherra hafi ekki tekið sterkt til orða, að fram kom í máli hennar að hún teldi æskilegt að meira gagnsæi yrði í Fjármálaeftirlitinu, sérstaklega varðandi verðbréfamarkaðinn eins og hæstv. ráðherra tiltók. Þar erum við að ræða um að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að greina frá niðurstöðum í einstaka málum. Mér finnst hæstv. ráðherra fara nokkuð þröngt í málið vegna þess að mér finnst þetta einnig eiga við um lífeyrissjóðina og tryggingafélögin. Vera má að önnur sjónarmið gildi um bankana þar sem það gæti valdið, eins og menn segja reyndar hjá Fjármálaeftirlitinu sjálfu í skýrslu, vandræðum ef gefið væri til kynna að erfiðleikar væru hjá bönkum. Slíkar niðurstöður gætu, ef þær yrðu gerðar opinberar, leitt til að stór hópur innstæðueigenda krefðist tafarlaust úttektar á innstæðum sínum. Ég skil auðvitað þessi sjónarmið en tel þó að þetta eigi að gilda, gegnsæi og rýmkun á þessum heimildum, a.m.k. varðandi verðbréfamarkaðinn, lífeyrissjóðina og tryggingafélögin.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því lagabreytingu þarf til, hvort ekki megi þá treysta því að hún fylgi þessu máli eftir.

Varðandi lífeyrissjóðina og tryggingafélögin vil ég segja, herra forseti, að mér fundust svör hæstv. ráðherra rýr. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því nú er von á skýrslu, hvort ekki megi treysta því að ráðherra haldi þannig á málum að þessi skýrsla verði tekin til umræðu um leið og hún kemur fyrir þingið.

Varðandi reglur um starfskjör stjórnenda lífeyrissjóðanna þá veit ég auðvitað um sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins en ráðherrann hlýtur að hafa á því skoðun hvort beina eigi tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að þeir setji sér slíkar reglur.