Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:59:17 (1744)

2003-11-17 17:59:17# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. þm. kom inn á, gagnsæið sem við erum að velta fyrir okkur og reglur sem hugsanlega yrðu settar af hálfu Fjármálaeftirlitsins í því skyni, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan. Ég tel sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins mikilvægt og er ekki tilbúin til að beina til Fjármálaeftirlitsins tilmælum af einu eða öðru tagi. Ég tel það í rauninni ekki vera mitt hlutverk. Við hljótum að geta verið sammála um, ég og hv. þm., að tryggja þetta sjálfstæði og að viðkomandi ráðherra sé ekki með puttana í því sem þar er unnið.

Í sambandi við þá skýrslu sem ég nefndi að væri væntanleg frá Fjármálaeftirlitinu um bótasjóðina vil ég segja að hún snýr að vátryggingafélögunum og er gagn sem þau fá í hendur. Ef ég skildi hv. þm. rétt, að hún væri að tala um að sú skýrsla eða þær skýrslur yrðu ræddar hér á Alþingi, þá er Alþingi í sjálfu sér ekkert óviðkomandi og alltaf hægt að taka upp slík mál. En það yrði ekki með þeim hætti að skýrslurnar bærust þinginu beint heldur í tengslum við umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu.