Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:03:29 (1746)

2003-11-17 18:03:29# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil líka bæta því við að lífeyrissjóðirnir heyra undir hæstv. fjmrh. svo að ég haldi áfram að koma mér undan, eins og hv. þm. vill örugglega kalla það. En það er þannig og þetta veit hv. þm. mjög vel.

Ég lét þau orð falla hér í fyrra að ég teldi rétt að af hálfu Fjármálaeftirlitsins yrðu settar reglur þannig að sú skoðun liggur fyrir. En það er þetta með afskipti af Fjármálaeftirlitinu sem við erum kannski ekki alveg sammála um, ég og hv. þm. Þó hélt ég að svo væri. Ég legg mikla áherslu á þetta sjálfstæði og auðvitað fylgist Fjármálaeftirlitið með allri umræðu sem fer fram um Fjármálaeftirlitið. Það þurfa því ekkert að vera nein formleg tilmæli. En þegar ég hef talið og sagt opinberlega að ég telji að áhugavert sé og rétt að setja slíkar reglur þá er það sagt þannig að mér finnst að við hljótum að eiga að geta verið sammála um að Fjármálaeftirlitið taki það alvarlega sem sagt er á hv. Alþingi, ekki bara það sem ég segi heldur örugglega líka það sem hv. þm. segir, sem hefur sýnt mikinn áhuga á Fjármálaeftirlitinu alveg frá upphafi. Ég vil þakka henni fyrir þann stuðning sem mér finnst að hún hafi sýnt í sambandi við þá starfsemi sem þar fer fram.