Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:08:54 (1749)

2003-11-17 18:08:54# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Eins og kunnugt er voru framangreind lög samþykkt á Alþingi, á 128. löggjafarþingi, hinn 8. maí 2002. Lög þessi eru að meginstofni til lögfesting á framkvæmd niðurgreiðslna til rafhitunar íbúðarhúsnæðis sem gilt hafði um langa hríð og um reglur sem í gildi voru varðandi styrkveitingar ríkisins til nýrra hitaveitna.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða stofnstyrki til nýrra hitaveitna. Jafnframt er lagt til að lögin nái einnig til jarðhitaleitar á köldum svæðum. Rétt er að leggja áherslu á að ekki er verið að hrófla við því fyrirkomulagi sem nú er, að heildarfjárhæð sem varið er til þessa málaflokks verði ákveðin í fjárlögum á hverju ári.

Í 1. gr. er fjallað um breytingar á 12. gr. laga nr. 78/2002. Í greininni er mælt fyrir um hækkun á hámarki stofnstyrkja til hitaveitna þannig að í stað þess að miða hámark stofnstyrks við fimm ára upphæð niðurgreiðslna er lagt til að miðað verði við átta ára niðurgreiðsluupphæð að hámarki. Skal þá miðað við meðalnotkun rafhitunar undanfarin fimm ár þar á undan. Þessi breyting er lögð til vegna þess að æskilegt er talið að stuðla að aukinni nýtingu jarðvarma til húshitunar eins víða um land og hagkvæmt þykir. Stefna stjórnvalda hefur verið að stuðla að aukinni útbreiðslu hitaveitna um landið og er frv. þetta frekari útfærsla á þeirri stefnu.

Frá árinu 1998 hefur verið veittur stofnstyrkur til nýrra hitaveitna er hafa komið í stað rafhitunar íbúðarhúsnæðis sem miðast hefur við fimm ára niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar, eins og fyrr segir. Komið hefur í ljós að á ákveðnum stöðum þar sem könnuð hefur verið hagkvæmni þess að koma á laggirnar hitaveitu hefur hin fyrirhugaða veita ekki verið samkeppnisfær við niðurgreidda rafhitun. Hins vegar er líklegt að allmörg byggðarlög er nú njóta rafhitunar telji sér hagkvæmt að ráðast í gerð hitaveitu ef stofnstyrkur muni hækka frá því sem nú er. Því er hér lagt til að stofnstyrkur til nýrra hitaveitna eða stækkunar núverandi veitna verði miðaður við átta ára tímabil á niðurgreiðslu ríkisins á rafhitun.

Menn eru sammála um að niðurgreiða þurfi rafhitun á þeim stöðum sem ekki eiga kost á jarðvarma til húshitunar en einnig er ljóst að niðurgreiðslur til húshitunar mega ekki standa í vegi fyrir þróun og uppbyggingu nýrra hitaveitna. Þó að þessi hækkaða styrkupphæð til nýrra hitaveitna leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs í upphafi leiðir þessi breyting til þess að draga mun úr heildarkostnaði ríkisins við niðurgreiðslur til húshitunar þegar til lengri tíma er litið. Í greininni felst að hin hækkaða viðmiðun frá fimm árum upp í átta ár tekur einungis til hitaveitna sem taka til starfa eftir að lög þessi taka gildi. Um það hvenær hitaveita telst hafa tekið til starfa eða stækkun hennar verið tekin í gagnið ræður úrslitum hvenær notendur hennar eru tengdir og byrja að njóta þjónustu hitaveitunnar.

Greininni er einnig breytt á þann veg að heimilt er að greiða stofnstyrki til nýrra hitaveitna hjá aðilum er búa við olíuhitað húsnæði. Þessi breyting er nauðsynleg til þess að gæta jafnræðis milli þeirra aðila er hita með rafmagni og þeirra sem hita með olíu.

Hæstv. forseti. Í 2. gr. er fjallað um nýja 16. gr. laganna, um jarðhitaleit á köldum svæðum. Á árinu 1998 var komið á laggirnar á vegum iðnrn. sérstöku átaki til jarðhitaleitar á svokölluðum köldum svæðum þar sem rafmagn eða olía hafði verið notuð til húshitunar. Aðilar að jarðhitaleitarátakinu hafa verið iðnrn., Byggðastofnun og Orkusjóður. Hins vegar hefur engin sérstök fjárveiting verið á fjárlögum til þessa verkefnis og því er talið eðlilegt að marka þessu verkefni sérstakan tekjustofn.

Með markvissu átaki við jarðhitaleit á síðustu 20 árum hefur tekist að finna jarðhitakerfi á um 30 stöðum víða um land þar sem enginn jarðhiti var á yfirborði. Þetta hafa verið tiltölulega ódýrar rannsóknir sem hafa byggst á því að á undanförnum árum hefur tækni til borana og jarðhitaleitar fleygt mjög fram og kostnaður farið hlutfallslega lækkandi. Hins vegar er kostnaður við borun á rannsóknarholum á köldum svæðum mjög hár þar eð mun dýpra þarf að bora á slíkum svæðum. Með jarðhitaleitarátakinu hefur enn tekist að auka hlutdeild hitaveitna í húshitun á landsbyggðinni, en talið er að víða sé unnt að afla jarðhita fyrir þéttbýli sem ekki býr við hitaveitu í dag. Til þess þarf hins vegar dýpri boranir og frekari og kostnaðarsamari rannsóknir umfram það sem almennt hefur verið reynslan hingað til.

Jarðhitaleitarátakinu er ætlað að verða hvati og upphaf að nýtingu jarðhitans ef leit leiðir í ljós að hagkvæmt þykir að nýta hitann. Það beinist einkum að frumstigum leitar, en sveitarfélögum og orkufyrirtækjum er ætlað að taka við verkefnunum finnist jarðhiti sem hagkvæmt er að nýta. Vinna á vegum jarðhitaleitarátaks hefur einkum beinst að þéttbýlisstöðum og þeim svæðum þar sem veikleikar kunna að vera nú eða í framtíðinni í dreifingu á raforku til hitunar húsa.

Þá er rétt að benda á að komi til þess að af hitaveituframkvæmd verður er heimilt skv. 12. gr. laga nr. 78/2002 að draga frá stofnstyrk vegna rafhitunargreiðslu ríkisins til hinnar nýju hitaveitu þannig að í þeim tilvikum endurgreiðist sú fjárhæð sem veitt hefur verið til jarðhitaleitarinnar.

Hæstv. forseti. Með frv. er í raun lagt til að lögum nr. 78/2002 er Alþingi setti á síðasta ári verði breytt í þeim tilgangi að efla og auka jarðhitaleit og nýtingu jarðhitans hér á landi til húshitunar. Þær breytingar er felast í frv. eru í sjálfu sér eðlilegar í ljósi þeirrar reynslu og þróunar er orðið hefur í uppbyggingu hitaveitna og jarðhitaleitar hér á landi á undanförnum áratugum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.