Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:16:10 (1750)

2003-11-17 18:16:10# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Í Sovétríkjunum hinum látnu tíðkaðist að styrkja alls konar starfsemi fram og til baka sem varð til þess að allt atvinnulíf var gjörsamlega óarðbært. Hér erum við að horfa á eina slíka styrkveitingu sem gerir það að verkum að það sem er skynsamlegt í eðli sínu er ekki lengur skynsamlegt, t.d. að virkja jarðhita, einangra hús, nota aðra orkugjafa o.s.frv. Þetta er einmitt dæmi um það að styrkir geta leitt til óarðbærra ráðstafana einstaklinga og svo er hér verið að gera ráðstafanir á móti, frú forseti, þ.e. komið er með styrki á móti styrkjunum til að gera aftur skynsamlegt það sem styrkirnir voru búnir að gera óskynsamlegt en er í eðli sínu þjóðhagslega hagkvæmt og skynsamlegt. Hringavitleysan bítur því í skottið á sjálfri sér. (Gripið fram í.)

Ég legg til og spyr hæstv. ráðherra: Er ekki hægt að hugsa sér aðra útfærslu á þessum styrkjum? Til dæmis að borga fólki hreinlega fyrir að búa á stöðunum, borga bara hverjum einstaklingi ákveðna upphæð og síðan geti hann einangrað húsið sitt ef hann kærir sig um, borgað dýra olíu ef hann kærir sig um, (Gripið fram í.) borgað dýrt rafmagn ef hann kærir sig um. Að hann sé ekki neyddur til að ná í styrkinn með því að kaupa raforkuhitun, en þannig er það í dag. Og þá þurfum við ekki að vera að styrkja skynsamlegar ráðstafanir vegna þess að búið er að gera þær óskynsamlegar.