Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:25:40 (1756)

2003-11-17 18:25:40# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo samkvæmt þessu svari að sérstakt átak til jarðhitaleitar á köldum svæðum verður fjármagnað með því að lækka niðurgreiðslur um 5%, að bændur og búalið sem hafa fengið langmest af slíkri niðurgreiðslu ásamt þeim örfáu sveitarfélögum þar sem rafhitun er, munu borga þennan brúsa. Eins og hæstv. iðnrh. sagði, er þetta spurning um pólitík og áherslur, það er rétt, það er staðfest, og þetta er spurning um ábyrga efnahagsstjórn, það er rétt og það er staðfest. Það er þess vegna sem hæstv. iðnrh. getur greinilega ekki sótt þennan pening í ríkissjóð í þetta nýja verkefni heldur þarf að klípa það af niðurgreiðslunum sem hefur verið áralöng barátta fyrir að ná upp í þá upphæð sem hún er komin í. Minni ég á tillögur byggðanefndar forsrh., sem var þverpólitísk nefnd, í aðdraganda kjördæmabreytingar þar sem var verið að leggja það til og var þverpólitísk samstaða um það að hækka þessa niðurgreiðsluupphæð.

En það á sem sagt að fara að klípa af þeim í nafni þess að spurning er um pólitík, áherslur og ábyrga efnahagsstjórn, að þá munu þeir sem hafa fengið niðurgreiðslur vegna allt of hárra orkugjalda og hás kostnaðar við hitun húsnæðis síns borga brúsann. Þessu er ég andvígur.

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja um, virðulegur forseti, vegna þess að hér er verið að ræða um niðurgreiðslu á rafhitun: Í nál. iðnn. fyrir einu eða tveimur árum við fjárlagagerð lagði iðnn. til að þessu yrði breytt þannig að það væri ekki eingögnu rafhitun sem væri niðurgreiðsluhæf heldur líka húshitun með hitaveitum þar sem þær eru mjög dýrar. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. út í það hvort hún vilji beita sér fyrir því að þetta verði gert og hvort hún sé sammála þeirri hugmynd að fólk á rándýrum hitaveitusvæðum, sem eru nokkur, eigi líka rétt á niðurgreiðslu.