Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:27:51 (1757)

2003-11-17 18:27:51# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vandlifað. Fundið var að því við mig af hálfu þess sem kom hér í andsvar á undan hv. þm. að þetta væri allt of hátt og að áliti hv. þm. Kristjáns L. Möllers er þetta allt of lágt. En ég vil ítreka það að ekki er verið að tala um að lækka niðurgreiðslurnar til hvers og eins. Verið er að tala um að ákveðið svigrúm sé innan þeirrar fjárupphæðar sem er í frv. til að mæta þessu mikilvæga hlutverki.

Hvað varðar það að fara að greiða niður húshitun þar sem hitað er upp með hitaveitum, dýrum hitaveitum, þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um að gera það. Og ég óttast að við gætum lent úti í feni ef við byrjuðum á því. Ég tel því að sú upphæð, eins og hún hefur verið núna á síðasta ári til niðurgreiðslu á rafupphitun, sé mjög vel viðunandi og miðað við það að ég er nú að flytja þetta frv. þá er það vegna þess að hitaveitur, þar sem er hagkvæmt að fara út í slíkar framkvæmdir, eru ekki samkeppnishæfar við niðurgreidda rafmagnið, það er bara þannig. Þetta eru því í raun viðbrögð við því.