Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:51:43 (1761)

2003-11-17 18:51:43# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Stór hluti andsvars hæstv. iðnrh. er ekki svaraverður (Iðnrh.: Nei.) um yfirboð og þykjast allt geta. Maður hefur áður heyrt þennan tón í framsóknarmönnum. Svo er talað um að flokkssystkini mín hverfi úr salnum. Hér tel ég einn, tvo, þrjá þingmenn Samfylkingarinnar sitja í salnum (Gripið fram í.) þegar ég lít yfir salinn. Ég tel þrjá. Við erum fjögur. (Gripið fram í: Og hvað eru margir framsóknarmenn?) Þá hef ég talninguna á framsóknarmönnum. (HBl: Það eru fimm sjálfstæðismenn í ...) Hvar eru framsóknarmenn? Hvar eru framsóknarmenn í þessari umræðu? (Gripið fram í.) Einn framsóknarmaður, ráðherra sem fyrtist við ef við hana er talað og benti á atriði sem betur mættu fara í þessu. Framsóknarmenn hafa yfirleitt farið á handahlaupum út úr þessum sal þegar verið er að ræða byggðamál vegna þess að þeir margir hverjir skammast sín fyrir byggðamálastefnu núv. ríkisstjórnar með iðnrh. í broddi fylkingar, hundskammast sín fyrir hana.

Ég bendi hæstv. iðnrh. á að lesa álitsgerðir frá Samfylkingunni, landsfundasamþykktir og annað, um að jafna skuli flutningskostnað, um niðurgreiðslu á rafhitun, húshitun, um jöfnun námskostnaðar og annað. Það er því rangt sem ráðherrann heldur hér fram en þjónar kannski þeim tilgangi að reyna að draga athygli frá þeim vesaldómi að reyna ekki að ná nýjum peningum inn í þennan sjóð sem ég gerði umtalsefni og hárrétt er að stofna. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra var í hliðarsal áðan í símanum. Þetta er nákvæmlega sama og með markaðsátak til atvinnumála. Í hvað er það notað núna? Sú upphæð sem varið er í markaðsátak til atvinnumála á þessu ári verður lækkuð á næsta ári um ákveðna upphæð, 6--7 millj. Vegna hvers? Vegna þess að verið er að stofna nýtt embætti, nýtt starf í iðnrn., þ.e. markaðsátak í atvinnumálum á höfuðborgarsvæðinu. Er nú (Forseti hringir.) mikil reisn yfir þessu, hæstv. iðnrh.? Ég segi nei.