Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:11:21 (1773)

2003-11-17 20:11:21# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hæstv. ráðherra komi hér og leiði þessa löggjöf um hin alþjóðlegu viðskiptafélög til endanlegrar greftrunar. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð en minni á það sem ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson sögðum í umræðum fyrir nokkrum missirum.

Það er tvennt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra. Það kemur fram að 14 fyrirtækjum, einungis 14 fyrirtækjum var veitt starfsleyfi. Þar af voru þrjú svipt starfsleyfum. Þetta er giska hátt hlutfall og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað var þess valdandi að þessi þrjú voru svipt starfsleyfi?

Í annan stað kom fram að 44 millj. kr. hefði verið varið til þess að kynna hin alþjóðlegu viðskiptafélög. Hversu mikið af þeirri upphæð fór til Verslunarráðsins? Er það rangt munað hjá mér að um skeið hafi Verslunarráðið haft sérstakan starfsmann á launum við þetta sem var borgaður af ráðuneytinu eða var sá starfsmaður innan ráðuneytisins?