Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:33:33 (1778)

2003-11-17 20:33:33# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., BÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:33]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég tel rétt að komi fram við þessa umræðu. Fyrst út af síðustu orðum hv. 5. þm. Norðaust. sem lagði út af því að peningar sem kæmu inn til landsins með þeim hætti sem áformað var, með alþjóðlegum viðskiptafélögum, væru ekki þeir peningar sem við vildum að kæmu til landsins. Um það atriði vil ég segja það helst að þegar til þessa félagaforms var stofnað var ekki um það að ræða að verið væri að velja kost og hafna öðrum heldur var þetta af hálfu allra sem að þessu máli komu hugsað sem viðbót.

Í annan stað er það misskilningur hjá hv. 5. þm. Norðaust. að hér hafi verið ætlunin að stofna til einhverrar heimskautaskattaparadísar í líkingu við það sem gerist í Karíbahafinu. Það stóð aldrei til og þær tillögur sem voru formaðar á sínum tíma gengu auðvitað ekki í þá veru. Þær fyrirmyndir sem var fyrst og fremst horft til þegar hugmyndir um þessa löggjöf voru smíðaðar í samstarfi margra aðila fyrir 5--7 árum voru á þá leið að líta til landa í okkar næsta nágrenni sem höfðu með ákveðnum sérstökum skattareglum komið málum þannig fyrir að það var hagstætt að fjárfesta í tilteknum félagaformum í þeim löndum. Þar horfðu menn til Írlands sem bauð upp á ákveðið skattalegt umhverfi fyrir margar mismunandi tegundir félaga. Írar höfðu á þessum tíma náð alveg gríðarlegum árangri í að laða fjárfestingu til landsins með einmitt reglum af þessu tagi. Í annan stað horfðu menn til landa eins og Hollands og Danmerkur þar sem verið var að skapa félagaform, form eignarhaldsfélaga með lágri eða engri skattprósentu sem gerði mönnum kleift að stofna þar eignarhaldsfélög með mjög hagstæðum hætti. Það var frekar horft til landa af þessu tagi heldur en til Karíbahafsins enda sjá menn að þær athugasemdir sem komið hafa utan frá við þessa íslensku löggjöf hafa á engan hátt verið sambærilegar við athugasemdir sem gerðar hafa verið við starfsemi í þessum svokölluðu skattaparadísum.

Við undirbúning málsins var líka horft til þess að með þessari löggjöf væri ekki verið að ganga gegn þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Satt að segja fannst okkur ýmsum sem komum að þessu máli á sínum tíma fyrir hönd Verslunarráðsins að verið væri að sníða málinu ansi þröngan stakk af því að stjórnvöld vildu gæta fyllstu varkárni í þeim efnum enda, eins og kom fram í framsöguræðu viðskrh., hafa íslensk stjórnvöld mótmælt þeim athugasemdum sem hafa komið fram af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA og það mál er algjörlega óútkljáð, hefur ekki náð lengra. Þó að Eftirlitsstofnun EFTA hafi tekið málið til athugunar er það ekki í þeim farvegi að neitt álit hafi komið fram af hálfu stofnunarinnar sem felur í sér fordæmingu á þessari löggjöf.

Varðandi tilurð þessa máls er kannski rétt að horfa á það að þegar þessar hugmyndir fæddust var almennur tekjuskattur íslenskra fyrirtækja 33%, hærri en víða í löndum sem við berum okkur saman við. Á sama hátt var hér hærri eignarskattur á lögaðila en í flestum löndum sem við bárum okkur saman við og það varð auðvitað hvati til þess að menn veltu fyrir sér hvort unnt væri að skapa hér á landi aðstæður sem væru fýsilegar fyrir erlenda aðila til þess að koma inn með fjármagn.

Það er líka rétt að hafa í huga að þá, eins og nú raunar líka, átti sér stað hörð skattaleg samkeppni milli ríkja, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Sú skattalega samkeppni er staðreynd. Á sama tíma á sér líka stað samkeppni að öðru leyti, um starfsaðstæður fyrirtækja að öðru leyti, og menn þekkja að víða í löndum í kringum okkur er verið að sníða sérstakt starfsumhverfi fyrir tilteknar tegundir fyrirtækja. Dæmi um það er að finna hvarvetna í nágrannalöndunum. Ég nefni aftur Írland, og ég nefni Bretland þar sem núverandi ríkisstjórn Breta hefur farið fyrir í ákveðinni viðleitni í þessa átt. Sama má segja um ýmis fylki í Bandaríkjunum, svæði í Þýskalandi og víðar. Þessi samkeppni um fyrirtæki er staðreynd hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Á þessum tímapunkti sáu menn tvennt sem gat horft til framfara með því að koma á löggjöf af þessu tagi. Annars vegar horfðu menn á það að ýmis íslensk fyrirtæki hugleiddu mjög alvarlega á þessum tíma að flytja hluta starfsemi sinnar úr landi. Menn veltu fyrir sér hvernig við gætum breytt reglum hér til að draga úr hættunni á því að það gerðist. Hins vegar veltu menn líka fyrir sér möguleikanum á því að laða hingað fjármagn sem ekki kæmi að öðrum kosti.

Niðurstaðan úr þessari vinnu varð, eins og hæstv. viðskrh. greindi frá hér áðan, að lög um alþjóðleg viðskiptafélög voru samþykkt árið 1999 og það er eiginlega skemmst frá því að segja að það olli vonbrigðum hversu fá fyrirtæki sýndu því raunverulegan áhuga að koma hér inn. Ástæðurnar fyrir því eru ýmsar. Ég vil nefna eina sem ekki hefur komið fram í þessum umræðum og hún er sú að að ýmsu leyti voru skilyrði fyrir starfsemi þessara fyrirtækja afar þröng. Á þetta var bent í ýmsum erindum af hálfu Verslunarráðsins til stjórnvalda á þeim tíma, strax árin 1999 og 2000. Þá komu fram athugasemdir um það að að sumu leyti væru starfsskilyrðin of þröng þannig að lögin næðu ekki tilgangi sínum. Ég verð að segja að það hefur valdið mér og fleirum nokkrum vonbrigðum að viðskrn. skyldi ekki leita fremur leiða til þess að víkka út þessi starfsskilyrði til þess að gera þetta félagaform virkara í stað þess að leggja til að lögin og félagaformið yrðu afnumin.

Þrátt fyrir að ekki fleiri félög hefðu verið skráð sem alþjóðleg viðskiptafélög hér á landi er, eins og hæstv. viðskrh. sagði hér áðan, alls ekki þar með sagt að sú kynningarstarfsemi sem átti sér stað í kringum alþjóðlegu viðskiptafélögin hafi ekki skilað árangri. Það fór í gang verulegt kynningarátak á Íslandi sem fjárfestingarkosti. Það fór í gang átak sem vakti athygli erlendra fjárfesta á því að hér væru að mörgu leyti mjög hagstæð skilyrði. Menn bentu auðvitað á formið alþjóðleg viðskiptafélög en menn bentu líka á starfsumhverfið að öðru leyti. Það má segja að þetta starf hafi skilað verulegum árangri vegna aukins áhuga erlendra fjárfesta á fjárfestingum hér sem m.a. birtist í því að hér hafa verið skráð allnokkur eignarhaldsfélög sem reyndar eru ekki í dag í formi alþjóðlegra viðskiptafélaga heldur eru hér í hlutafélagaformi sem, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, skiluðu á árinu 2002 um 400 millj. í skatttekjur. Þarna er um að ræða bandarísk, kanadísk og bresk fyrirtæki sem hafa stofnað eignarhaldsfélög hér sem eru í hinu íslenska skattumhverfi, borga 18% tekjuskatt og skila verulegum tekjum inn í ríkissjóð án þess að það hafi valdið ríkissjóði sérstökum útgjöldum eða komið illa við hann að öðru leyti. Þetta eru peningar sem hafa komið til viðbótar en ekki í staðinn fyrir aðra starfsemi sem á sér stað hér á landi.

Þetta finnst mér rétt að komi fram við þessa umræðu. Varðandi þær upphæðir sem varið var til kynningar á þessu félagaformi get ég upplýst að þetta voru 44 millj. kr. í heild eins og viðskrh. greindi frá hér áðan. Þeir peningar skiptust milli Verslunarráðs og Fjárfestingarstofu. Verslunarráð var reyndar eitt um þessa kynningarstarfsemi fyrstu tvö árin en samkvæmt sérstöku samkomulagi kom Fjárfestingarstofa einnig inn í hana á síðari stigum og staðan er nú sú að í þessu umhverfi sem við erum að tala um eru þetta ekki verulega háar upphæðir, og tiltölulega litlar upphæðir í samanburði við ýmislegt annað sem gert er til þess að vekja athygli á Íslandi og kynna það á erlendri grund. Ég vildi að það kæmi fram vegna orða hv. 1. þm. Reykv. n. sem hér talaði áðan að þarna væri um að ræða samstarfsverkefni sem fleiri aðilar komu að og telja verður að hafi alls ekki verið of mikið í lagt miðað við það umfang sem fylgir starfsemi af þessu tagi. Ég get upplýst, eins og hefur reyndar komið fram, að af hálfu Verslunarráðsins var sérstakur starfsmaður í þessu, verkefnisstjóri sem sinnti þessu verkefni lengst af í hlutastarfi. Í kostnaðinum fólst líka þátttaka í ýmsum ráðstefnum, kynningarefni og samskipti að öðru leyti. Það varð hins vegar niðurstaðan að upphæðin sem fór í þetta kynningarátak lækkaði á árinu 2001 og rann út á árinu 2002 og þá var það sameiginlegur skilningur aðila að það væri markaðarins að fylgja málinu eftir. Þá var því vísað til lögmannsstofa, endurskoðunarskrifstofa, banka og annarra slíkra sem beina hagsmuni höfðu af því að veita þjónustu til aðila sem höfðu áhuga á að koma inn að þessu leyti.

Varðandi það hvort átti að fara út í þetta á sínum tíma vil ég segja að ég er sannfærður um að þetta var rétt skref á sínum tíma, hárrétt skref, átti mikinn þátt í því að auka meðvitund sérfræðinga og fagaðila hér á landi til þess að leita út. Þetta bjó til ákveðinn farveg í sambandi við þá vinnu. Ákveðnum samböndum var komið á sem síðan hafa skilað sér með ýmsum hætti, bæði beint og óbeint. Að lokum er auðvitað rétt að rifja upp eins og hæstv. viðskrh. gerði í framsöguræðu sinni að skattalegt umhverfi hér á landi hefur breyst frá því að þessum lögum var komið á. Tekjuskattur fyrirtækja er nú umtalsvert lægri en þá var. Eignarskattar fyrirtækja hafa verið lækkaðir verulega og áform eru uppi um að afnema þá þannig að þörfin fyrir sérstakt skattalegt form að þessu leyti er kannski minni en áður var. Ég vil þó hér við 1. umr. segja að ég hef ekki enn þá sannfæringu fyrir því að það sé rétt að stíga það skref sem boðað er með frv., að afnema þetta félagaform, en um það munum við væntanlega eiga töluverðar umræður í efh.- og viðskn. þegar málið kemur þangað.