Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:53:33 (1782)

2003-11-17 20:53:33# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki að það hljómi eins og við hv. 5. þm. Norðaust. séum sammála um alla hluti. (Gripið fram í: Jú, jú.) Af því að hann nefndi dæmi frá Svíþjóð er kannski rétt að vekja athygli hv. þm. á því að auðugustu Svíarnir búa ekki í Svíþjóð. Þeir búa annars staðar. (SJS: Einstaklingarnir.) Þeir hafa talið ástæðu til að fara annað.

Varðandi skattlagningu fyrirtækja þá er hún mikilvægur kostur í sambandi við það hvar fyrirtæki er staðsett. Ég vil ekki draga úr þeim þætti. Hins vegar tók ég undir orð þingmannsins þegar kom að því að auðvitað skipta aðrir þættir máli.

Þegar við Íslendingar reynum að kynna okkur á erlendum vettvangi er stundum erfitt fyrir okkur að ná athygli. Við erum afskaplega lítið land í þessu samhengi. Hér er lítið hagkerfi. Við erum til þess að gera langt frá helstu mörkuðum okkar. Landafræðin, ferðakostnaður og annað, er ákveðin hindrun. Reynsla þeirra sem hafa verið að kynna Ísland sem fjárfestingarkost erlendis er því sú að það getur verið erfiðara fyrir okkur að ná athygli fjárfestanna heldur en fyrir ýmsa aðra.

Í því samhengi getur skipt verulegu máli að hafa eitthvað sérstakt fram að færa, eitthvað sérstakt, eitthvað sem vekur athygli fjárfestanna, eitthvað sem gerir það að verkum að þeir kjósa frekar að koma hingað en fara eitthvert annað.