Uppfinningar starfsmanna

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:55:21 (1783)

2003-11-17 20:55:21# 130. lþ. 28.8 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um uppfinningar starfsmanna. Á undanförnum áratugum hefur öðru hverju verið spurt hvort ekki væri æskilegt að setja hér á landi löggjöf um uppfinningar starfsmanna eins og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Slíkt getur eytt nokkurri réttaróvissu um túlkun á 1. gr. laga um einkaleyfi og kann hugsanlega að leiða til fjölgunar einkaleyfa hér á landi. Þá er talið sanngjarnt að opinber framlög til vísinda og rannsókna skili sér að einhverju leyti til baka.

Lagafrv. þetta sem samið er með hliðsjón af framansögðu er byggt á starfi nefndar undir forustu Árna Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns með fulltrúum iðnrn., menntmrn. og hagsmunaaðilum, þ.e. Samtaka um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, Háskóla Íslands, Samtaka iðnaðarins og Bandalags háskólamanna. Leitað hefur verið eftir umsögnum ýmissa aðila um frv. og hafa vissar breytingar verið gerðar í kjölfarið.

Ég vil vekja athygli á því að í frv. er ítarlega lýst danskri löggjöf um uppfinningar starfsmanna. Þar er einnig að finna lýsingu á löggjöf annarra Norðurlandaþjóða svo og ýmissa annarra landa. Kennir þar margra grasa þótt hallast hafi verið að því að leita fyrirmynda í löggjöf þeirra þjóða sem standa okkur næst.

Í stuttu máli er markmiðið með frv. sem svipar efnislega mjög til löggjafar í Danmörku en einnig löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum að setja réttarreglur um uppfinningar starfsmanna sem taki bæði tillit til hagsmuna atvinnurekanda og starfsmanns. Þeir þurfa þá ekki að semja sín á milli um öll atriði, t.d. um rétt starfsmanns til uppfinninga sem hann kemur fram með og framsalsrétt atvinnurekandans til uppfinningarinnar gegn sanngjörnu endurgjaldi, en slíkt endurgjald er talið geta örvað starfsmenn til að koma fram með einkaleyfishæfar uppfinningar. Eru settar almennar viðmiðanir um ákvörðun á sanngjörnu endurgjaldi sem er ófrávíkjanleg regla. En almennt eru lögin frávíkjanleg með samningum við einstaka starfsmenn eða jafnvel kjarasamningum.

Að því er varðar athugasemdir við einstakar greinar frv. vil ég taka fram að í 1. gr. er fjallað um skilgreiningar. Þar segir m.a. að uppfinningar merki aðeins þær uppfinningar sem unnt er að fá einkaleyfi fyrir hér á landi. Um skilgreiningu á hugtakinu ,,uppfinning`` er vísað í einkaleyfarétt en utan þess hugtaks falla m.a. uppgötvanir, með öðrum orðum öflun þekkingar á því sem alltaf hefur verið til staðar í náttúrunni. Þar eð krafa er gerð um einkaleyfishæfi uppfinningar fellur t.d. hönnun ekki undir frv. og heldur ekki réttur varðandi plöntuafbrigðin, svonefndur yrkisréttur. Tölvuforrit og viðskiptaaðferðir sem slíkar eru ekki uppfinningar í skilningi einkaleyfalaga en kunna hins vegar að öðlast einkaleyfishæfi ef uppfinning hefur tæknilega eiginleika og beita má henni sem tæki til lausnar á tæknilegu vandamáli þar sem áþreifanleg breyting kemur fram.

Nánar er greint frá því í athugasemdum við 1. gr. hvað átt sé við með orðinu ,,starfsmaður``. Þar segir að orðið ,,starfsmaður`` merki hvern þann sem ráðinn er til starfa hjá hinu opinbera eða einkaaðila. Átt er við almenna launþega, m.a. þá sem ráðnir eru með stuttum uppsagnarfresti, t.d. nema á meistara- eða doktorsstigi. Hins vegar taka lögin ekki sem slík til verktaka, t.d. ráðgjafa. Dómstólar hafa síðasta orðið um það hvernig túlka beri hugtakið ,,starfsmaður``. Það hvort uppfinningamaður teljist starfsmaður eða verktaki ræðst af almennum reglum vinnuréttar og skaðabótaréttar.

Að svo miklu leyti sem lögin snerta opinbera aðila er ekki gert ráð fyrir kæruleið til æðra stjórnvalds, m.a. um sanngjarnt endurgjald, heldur geta aðilar leitað til dómstóla um einkaréttarlega hagsmuni sína, svo og gerðardóms ef þeir semja um slíkt. Einnig er unnt að bera mál upp við umboðsmann Alþingis.

Aðalregla 2. gr. er sú að ákvæði laganna séu frávíkjanleg nema ótvírætt sé kveðið á um annað.

Ófrávíkjanleg eru ákvæði 3. mgr. 6. gr. um að starfsmaðurinn geti ekki fyrir fram afsalað sér rétti til að sækja um einkaleyfi fyrir uppfinningu á biðtíma, ákvæði 7. gr. um rétt starfsmanns á sanngjörnu endurgjaldi vegna framsals til atvinnurekanda á uppfinningu hans og loks ákvæði 2. mgr. 8. gr. um rétt starfsmanns til að ráðstafa uppfinningu sem verður til meira en ári eftir starfslok.

[21:00]

Þótt atvinnurekandi og starfsmaður hafi samið með tilteknum hætti hafa dómstólar heimild til þess að víkja til hliðar einstökum samningsákvæðum eða jafnvel samningum í heild á grundvelli ákvæða samningalaga um ósanngjarna samningsskilmála.

Í 3. gr. kemur fram sú meginregla að starfsmaður eigi rétt til uppfinninga sem hann kemur fram með að svo miklu leyti sem annað leiði eigi af fyrirhuguðum lögum um uppfinningar starfsmanna eða öðrum lögum. Meðal takmarkana geta verið ákvæði 4. gr. um framsal réttar til atvinnurekanda en einnig geta takmarkanir falist í samningum enda yrðu lögin almennt frávíkjanleg. Aðeins einstaklingar geta talist uppfinningamenn, ekki lögaðilar.

Í 4. gr. er fjallað um framsal réttar yfir uppfinningu til atvinnurekanda. Segir í 1. mgr. að atvinnurekandinn geti krafist framsals á rétti starfsmanns yfir uppfinningu sem er þáttur í starfi hans enda sé hagnýting hennar á starfssviði atvinnurekandans. Þótt hagnýting uppfinningarinnar sé ekki á starfssviði atvinnurekandans hefur hann þó einnig framsalsrétt ef uppfinningin tengist einhverju tilteknu verkefni sem atvinnurekandinn hefur falið starfsmanni. Uppfinningin er með öðrum orðum starfsuppfinning, ef svo má að orði komast. Einkauppfinningar sem nánar er fjallað um í athugasemdunum falla hins vegar ekki undir lögin. Greinin er frávíkjanleg, þ.e. atvinnurekandinn getur fallið frá framsalsrétti sínum. Er jafnvel unnt að semja um slíkt í kjarasamningi.

Vakin er athygli á því í athugasemdum við 4. gr. að í lögum um einkaleyfi segir í 1. gr. að nafn uppfinningamanns skuli tilgreint í umsókn.

Samkvæmt 5. gr. skal starfsmaður sem kemur fram með uppfinningu tilkynna atvinnurekanda um uppfinningu sína án ástæðulauss dráttar og gefa þannig upplýsingar um hana að atvinnurekandinn geti metið mikilvægi hennar. Tilkynningin þarf að vera sannanleg enda miðast frestir við hana.

Vilji starfsmaður sjálfur hagnýta uppfinningu sína í atvinnuskyni eða hafi fram að færa tillögu um annars konar hagnýtingu hennar en í höndum atvinnurekandans getur hann komið slíkri ósk að í tilkynningu til atvinnurekandans.

Í 6. gr. er fjallað um biðtíma atvinnurekanda, þagnarskyldu starfsmanns og einkaleyfisumsókn starfsmanns á biðtíma.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. hefur atvinnurekandinn þrjá mánuði frá móttöku tilkynningar starfsmanns um uppfinningu til að taka ákvörðun um það hvort hann vilji fá uppfinninguna framselda til sín. Frestinn mundi atvinnurekandinn nota til að meta uppfinninguna. Um matið færi eftir atvikum fram tæknileg, lögfræðileg og markaðsleg athugun á möguleikunum á því að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni. Þegar atvinnurekandi hefur lýst því yfir að hann vilji fá uppfinninguna til sín öðlast starfsmaðurinn rétt til sanngjarns endurgjalds fyrir uppfinninguna og þarf að undirrita nauðsynleg framsalsskjöl.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. eru starfsmanni settar hömlur um meðferð uppfinningar sinnar meðan á biðtíma stendur. Hann má ekki upplýsa aðra um uppfinninguna eða ráðstafa henni þannig að unnt sé að birta upplýsingar um hana eða nota hana í þágu annarra nema atvinnurekandinn hafi lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á uppfinningunni. Ástæðan er sú að upplýsingar um uppfinninguna eða ráðstöfun hennar geta leitt til þess að möguleiki á öflun einkaleyfis sé fyrir bí en af því getur hlotist fjárhagstjón, jafnvel verulegt fjárhagstjón, sem tjónvaldur ber ábyrgð á ef um ásetnings- eða gáleysisbrot er að ræða.

Kjósi uppfinningamaður á þriggja mánaða biðtímanum að upplýsa um uppfinninguna, t.d. í rituðu máli, getur hann tekið það mál upp við atvinnurekandann. Hér má hafa í huga það sjónarmið að eðlilegt er talið að styrkir og önnur framlög hins opinbera skili sér að einhverju leyti til baka.

Ekki þótti nægileg ástæða til að setja refsiákvæði í lög þessi. Í þessu sambandi skal tekið fram að í dönsku lögunum um opinberar rannsóknastofnanir, sem gilda m.a. um háskóla, eru engin refsiákvæði, aðeins í almennu dönsku lögunum. Hér á landi þykir aðhald á grundvelli skaðabótasjónarmiða geta verið nægilegt.

Í 3. mgr. 6. gr. er það ófrávíkjanlega ákvæði að starfsmaður eigi rétt á að sækja um einkaleyfi fyrir uppfinningu sinni á biðtíma en hann skal þó tilkynna atvinnurekandanum það áður. Sæki starfsmaður um einkaleyfi á biðtímanum gerir hann það á eigin áhættu enda ekki víst á þeirri stundu að atvinnurekandinn taki ákvörðun um að krefjast framsalsréttar yfir uppfinningunni.

Í 7. gr. er fjallað um sanngjarnt endurgjald til handa starfsmanni vegna framsals hans á uppfinningu til atvinnurekanda. Þessi grein geymir einhver mikilvægustu ákvæði fyrirhugaðra laga. Skv. 1. mgr. 7. gr. á starfsmaðurinn rétt á sanngjörnu endurgjaldi, jafnvel þótt um annað hafi verið samið, nema verðmæti uppfinningarinnar fari ekki fram úr því sem ætla má með sanngirni að starfsmanninum beri að inna af hendi með tilliti til heildarkjara hans. Reglan um sanngjarnt endurgjald skv. 7. gr. er ófrávíkjanleg. Atvinnurekandinn hefur sönnunarbyrði fyrir því að starfsmaður eigi ekki að fá greitt sérstaklega vegna uppfinningarinnar, þ.e. umfram heildarkjör.

Í 2. mgr. 7. gr. eru talin upp nokkur atriði sem taka skal sérstaklega tillit til við ákvörðun endurgjaldsins. Um er að ræða verðmæti uppfinningarinnar, mikilvægi hennar fyrir starfsemi atvinnurekandans, ráðningarkjör starfsmanns og hlutdeild starfsmannsins í uppfinningunni.

Ekki er kveðið á um það í 2. mgr. 7. gr. í hvaða formi endurgjald skuli vera, t.d. eingreiðsla þannig að atvinnurekandinn beri áhættuna eða gjald á hverja framleidda einingu. Ef atvinnurekandi stöðvar framleiðslu eða lætur hjá líða að endurnýja einkaleyfi þannig að það falli niður og hver sem er geti hafið framleiðslu getur slíkt aðgerðaleysi leitt til þess að atvinnurekandi verði skaðabótaskyldur. Í einhverjum tilvikum er þó hugsanlegt að uppfinning sé varðveitt sem viðskiptaleyndarmál en starfsmaður á þó rétt til sanngjarns endurgjalds.

Ekki þykir ástæða til að kveða frekar á um það í lögum en fram kemur í 7. gr. hvernig ákvarða skuli sanngjarnt endurgjald. Þannig er ekki kveðið á um ákveðna hlutaskiptingu en nefnd dæmi um slíkt í athugasemdum. Þykir vera of ósveigjanlegt með tilliti til margbreytilegra aðstæðna að kveða á um ákveðna hlutaskiptingu. Taka má fram að slíkt er ekki gert í dönsku löggjöfinni.

Gert er ráð fyrir því í 3. mgr. 7. gr. að krafa um ákvörðun endurgjalds fyrnist á tíu árum sem er hin almenna fyrningarregla laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Ekki er talið rétt að miða við fjögur ár eins og um launakröfur o.fl. Er þá haft í huga að fyrningarfrestur launakrafna hefst um svipað leyti og vinna er innt af hendi en langur tími getur hins vegar liðið þar til verðmæti uppfinningar og þar með grundvöllur sanngjarns endurgjalds kemur í ljós. Telst tíu ára fresturinn frá þeim tíma er atvinnurekandinn hefur gefið til kynna að hann vilji öðlast uppfinninguna.

Í 4. mgr. 7. gr. er kveðið á um möguleika á endurskoðun endurgjalds ef aðstæður hafa breyst verulega eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Aldrei skal þó endurgreiða fé sem starfsmaður hefur tekið við samkvæmt fyrri ákvörðun um endurgjald.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi og starfsmaður, jafnvel stéttarfélag starfsmanna í kjarasamningum, reyni að ná samkomulagi um sanngjarnt endurgjald. Náist ekki samkomulag er leitað til dómstóla. Gæti þar reynt á ákvæði samningalaga um ósanngjarna samningsskilmála. Einnig geta aðilar samið um að gerðardómur útkljái málið.

Ekki þótti rétt að kveða á um úrskurðarnefnd eins og í Noregi og Svíþjóð varðandi það hvað teldist sanngjarnt endurgjald enda er það einkaréttarmál. Nefna má að mjög lítið hefur reynt á nefndina í Noregi. Var talið eðlilegra að aðilar reyndu að semja sín á milli en leituðu ella beint til dómstóla. Hér má nefna til samanburðar að í lögum um einkaleyfi er gert ráð fyrir því að Héraðsdómur Reykjavíkur fjalli um nauðungarleyfi vegna einkaleyfa og endurgjald í því sambandi.

Ákvæði í lögum um rétt starfsmanna til sanngjarns endurgjalds vegna uppfinninga þeirra í starfi eru talin geta örvað þá til að koma fram með uppfinningar en á því er ekki talin vanþörf hér á landi fremur en annars staðar.

Í 8. gr. er að finna ákvæði sem tengjast réttarstöðu atvinnurekanda og starfsmanns með tilliti til starfsloka. Vil ég vísa til athugasemda um það efni.

Í 9. gr. er gildistökuákvæði. Gert er ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma þannig að aðilar geti kynnt sér ný lög og jafnvel tekið tillit til þeirra við kjarasamningagerð á næstunni.

Fjárlagaskrifstofa fjmrn. telur að frv. hafi ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.