Uppfinningar starfsmanna

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 21:13:23 (1785)

2003-11-17 21:13:23# 130. lþ. 28.8 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[21:13]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir við frv.

Varðandi þessi skil og það að lögin skuli ekki taka gildi fyrr en þetta seint miðað við frv. er það í sjálfu sér atriði sem hægt er að fara yfir frekar í hv. nefnd. Það er hins vegar alveg ljóst að lögin taka einungis til þeirra uppfinninga sem eiga sér stað eftir gildistöku. Aðdragandinn er hugsaður til samningsgerðar við starfsmenn vegna þess að það þarf að liggja fyrir fyrir fram, áður en til þess hugsanlega kemur að uppfinning eigi sér stað og aðstæður skapist sem frv. kveður á um að á þau reyni, ef þannig má að orði komast.

Það er eftir vel athugað mál sem það er lagt til að hafa þetta með þessu formi. Eins og ávallt er allt til umfjöllunar í hv. nefnd og ég veit ekki betur en hv. þingmaður sitji í nefndinni. Ég skal segja það hér að ég er dálítið stolt yfir því að vera komin fram með þetta frv. og held að það hafi löngu verið orðin þörf á því. Hins vegar má alltaf deila um það hvernig nákvæmlega eigi að fara í málið. Við förum svo sem heldur ekki nákvæmlega eins í það og aðrar þjóðir sem við þó höfum stuðst mjög við við frumvarpsgerðina.