Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:41:43 (1789)

2003-11-18 13:41:43# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á árum áður var oft rætt um bága stöðu sjávarútvegs á Alþingi. Sá vandi var yfirleitt leystur með gengisfellingu. Einnig var þingmönnum tíðrætt um lélegan rekstur bankakerfisins, útlánatöp og pólitískar lánveitingar. Þetta er liðin tíð. Nú er umræðan um góða afkomu fyrirtækja á markaði.

Út af fyrir sig er ekki að undra að almenningur súpi hveljur yfir 11,7 milljarða kr. hagnaði bankanna þriggja á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta eru rosalegar tölur. Ég ætla mér ekki að standa hér, sem ráðherra bankamála, og segja að ekki sé svigrúm til lækkunar vaxta og þjónustugjalda. Hins vegar verða bankarnir að njóta sannmælis. Ef ekki hefði komið til 6,4 milljarða kr. gengishagnaður af hlutabréfum á fyrstu níu mánuðum ársins væri hagnaður bankanna mun minni. Gengishagnaður af skuldabréfum og gjaldeyrisviðskiptum er einnig umtalsverður.

Það verður að setja hagnað bankanna í samhengi við stærð þeirra. Heildareignir bankanna eru hvorki meira né minna en 1.300 milljarðar kr. og í sívaxandi mæli í útlöndum. Í árslok 1995 voru eignir bankakerfisins aðeins um 200 milljarðar kr. Eignir bankanna hafa því meira en sexfaldast á átta árum. Ef eigendur legðu allt eigið fé bankanna í ríkistryggð bréf í stað þess að stunda áhættusaman atvinnurekstur fengju þeir meira en 5 milljarða kr. í sinn hlut árlega miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag.

Hvernig skyldi svo standa á þessum mikla gengishagnaði? Jú, fjárfestar hafa trú á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þeir telja að það sé bjart fram undan í íslensku þjóðlífi og eru tilbúnir að leggja fé sitt í íslenskan atvinnurekstur í stað þess að fjárfesta erlendis. Þannig hefur úrvalsvísitalan hækkað um 50% á þessu ári, mest vegna hækkunar útflutningsfyrirtækja sem hafa bankana sem bakhjarla í útrás sinni.

Ég tel óhætt að fullyrða að hlutafélagavæðing bankanna og síðar einkavæðing þeirra ásamt breytingum á lagaumhverfi fjármálamarkaðar sé einhver best heppnaða aðgerð stjórnvalda í langan tíma. Skilvirkur fjármálamarkaður skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Bankarnir eru betur reknir en áður og vaxtamunur hefur minnkað á undanförnum árum.

Tæknilega er bankakerfið gott og veitir góða þjónustu. Bankarnir eru að opna útibú á landsbyggðinni. Síðast en ekki síst hafa bankarnir þrír allir burði til að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum í útrás.

Hæstv. forseti. En er þá allt í sómanum í íslensku bankakerfi? Nei, það finnst mér ekki og svo verður sjálfsagt aldrei.

Í fyrsta lagi eru vextir hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Það getur ekki gengið til lengdar fyrir heimili og fyrirtæki í ríki sem stefnir að því að komast enn hærra á lista yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims.

Í öðru lagi er samkeppni á bankamarkaði, líkt og í svo mörgum öðrum atvinnugreinum, minni en æskilegt væri.

Í þriðja lagi verða bankarnir að standa sig betur við að greiðslumeta lántakendur og takmarka ábyrgð þriðja aðila.

Í fjórða lagi verða bankarnir að fara gætilegar í fjárfestingarbankastarfsemi sinni svo að þeir glati ekki trausti og trúverðugleika viðskiptavina og fjárfesta.

Í fimmta og síðasta lagi eru ýmis teikn á lofti um að útlánaskriða sé að hefjast hjá bönkunum. Minnugir útlánaaukningarinnar um aldamótin verða bankarnir að fara að öllu með gát á því hagvaxtarskeiði sem fram undan er.

Hæstv. forseti. Hlutverk okkar alþingismanna er að sjá til þess að leikreglur á fjármálamarkaði séu skýrar og að eftirlit sé til staðar til að fylgja þessum reglum. Alþingi hefur staðið sig vel í því hlutverki sínu á síðustu árum.