Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:56:59 (1795)

2003-11-18 13:56:59# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að almenningur sypi kveljur vegna góðrar afkomu bankanna. Um það skal ég ekkert segja. Hitt veit ég að fólk og heimilin í landinu undrast það að þau skuli ekki njóta betri kjara í bankakerfinu en raun ber vitni í ljósi hinnar góðu afkomu og spyr: Hvers vegna eru þjónustugjöld hærri hér en annars staðar? Spyr enn fremur: Hvers vegna er vaxtamunur meiri hér en í nágrannalöndum? Í þriðja lagi: Hvernig stendur á því að við búum við hið séríslenska ábyrgðarmannakerfi í bankakerfinu, sem er auðvitað ábyrgð stjórnvalda þar sem amma, afi, pabbi, mamma, öll fjölskyldan er dregin inn í fjárskuldbindingar einstaklinga? Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og við samfylkingarmenn höfum flutt tillögu ár eftir ár þar sem við gerum bragarbót þar á en stjórnarmeirihlutinn hefur brugðist.

Í fjórða lagi spyr fólk hvernig á því standi að verðtrygging lána sé bundin við Ísland eitt þegar um lán til einstaklinga er að ræða til lengri tíma. Nú liggur það ljóst fyrir að íslenska bankakerfið er í höndum einkaaðila, og ekkert um það að segja, og vonir voru bundnar við það að með því ykist bein og virk samkeppni. Eftir henni er kallað svo flóknara er það mál ekki.

Við ræðum það líka hér og í hinum íslenska fjármálaheimi að við lifum nú í alþjóðlegu umhverfi og það er að sönnu alveg hárrétt og við viljum skapa okkar fjármálastofnunum tækifæri til útrásar sem margar fjármálastofnanir hafa einmitt nýtt. Því hlýtur almenningur að spyrja og ég sömuleiðis hvernig á því standi að þeir geta boðið betri kjör annars staðar en á Íslandi. Eftir því er kallað og eftir svörum í þeim efnum sömuleiðis.

Ég vil að lyktum spyrja hæstv. ráðherra um það sem til hennar friðar heyrir, hvenær hún ætli að gera hið lagalega umhverfi bankanna með svipuðum hætti hér á landi og annars staðar og þá vísa ég sérstaklega til ábyrgðarmannakerfismálsins og sömuleiðis til verðtryggingarþáttarins.