Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:59:07 (1796)

2003-11-18 13:59:07# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að góður hagur viðskiptabankanna er vitaskuld fagnaðarefni og það er til marks um að það er þróttur í atvinnulífinu og það er trú á hlutabréf í íslensku atvinnulífi vegna þess að þegar við skoðum þær tölur sem liggja að baki hagnaði viðskiptabankanna þá blasir það við að langstærsti hluti hagnaðarins kemur til vegna gengishagnaðar á skuldabréfum og einkanlega innlendum hlutabréfum sem endurspegla trú fjárfestanna á stöðu íslensks atvinnulífs.

Hér var sagt áðan að hagnaður þriggja viðskiptabankanna væri 11--12 milljarðar kr. Þegar við skoðum gengishagnaðinn sérstaklega í þessum árshlutauppgjörum kemur fram að gengishagnaðurinn einn er um 7 milljarðar kr. Það er þess vegna alveg ljóst mál að það er einmitt af þessum ástæðum sem við sjáum meiri og betri hag bankanna.

Það er alveg rétt að nú mun auðvitað reyna á samkeppni milli þessara banka og það er ekki rétt að það séu ekki öll skilyrði til mikillar samkeppni hér. Hér er í fyrsta lagi um að ræða þrjá mjög öfluga viðskiptabanka sem m.a. hafa haft til þess afl og styrk að hasla sér völl erlendis. Við erum líka með sparisjóðakerfið og við sjáum það einmitt núna á síðustu vikum og mánuðum að fyrirtækin í landinu og einstaklingarnir eru að velja sér viðskiptabanka í samræmi við þau viðskiptakjör sem þeim bjóðast. Mér er kunnugt um það að bæði stór og smá fyrirtæki eru að skipta um viðskiptabanka vegna þess að þau hafa möguleika til þess. Það er þessi samkeppni og það eru þessir möguleikar. Og ástæðan fyrir því að við erum að gera kröfu á viðskiptabankana um það að þeir lækki þjónustugjöld sín og minnki vaxtamuninn, sem er eðlileg krafa og ég tek undir hana, ástæðan er sú að við sjáum að viðskiptabankarnir hafa efni á því vegna þess að þeir eru að græða. Og þeir eru að græða vegna þess að íslenskt atvinnulíf hefur verið að styrkjast og trú manna á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur verið að eflast.