Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:01:22 (1797)

2003-11-18 14:01:22# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Flest útlán bankastofnana til almennings bera 8,5--9% vexti og yfirdráttarlán 11,5--12% vexti. Þar til viðbótar eru svo þjónustutekjurnar. Vextir eru hér miklu hærri en í nálægum löndum í Evrópu. Evrópureglur og lög eru í gildi hérlendis eins og við flest vitum. Það virðist samt sem áður svo að bankastarfsemi og tryggingastarfsemi hérlendis sé í allt öðru umhverfi. Bankarnir hagnast nú sem aldrei fyrr og vaxtamunur hefur ekki lækkað og er enn þá um 3%. Úttekt Neytendasamtakanna bendir einnig ótvírætt til þess að þjónustutekjur bankanna fari hækkandi. Nú virðist stefna í að Kaupþing Búnaðarbanki hagnist yfir hálfan milljarð á mánuði eftir skatta á þessu ári og arðsemi eigin fjár verði um 25% annað árið í röð. Það er því langur vegur frá því að bankarnir þurfi þá okurvexti sem þeir taka nú af almennum viðskiptamönnum sínum.

Bankarnir hafa yfirburðastöðu vegna viðskiptaupplýsinga sinna til þess að kaupa sig inn í fyrirtæki á réttum tíma eða til þess að flytja hagnað sinn úr landi.

Virðulegi forseti. Fyrr má nú njóta ávaxtanna án þess að gleypa allt sem að kjafti kemur.