Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:25:13 (1803)

2003-11-18 14:25:13# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti 1. minni hluta fjárln.

Það frv. til fjáraukalaga sem hér er til umræðu er hið annað á árinu. Á vorþingi voru samþykkt fjáraukalög sem fólu í sér 4,7 milljarða kr. útgjaldaaukningu. Í öðru frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sem hér liggur fyrir, er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 8 milljarða kr. Nú við 2. umr. koma enn fram tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um að auka útgjöldin um 4,1 milljarð kr. Með samþykkt fyrirliggjandi frv. og brtt. við það hafa fjárheimildir ársins því verið auknar um 16,8 milljarða kr., eða 6,5% af fjárlögum ársins.

Herra forseti. Það er ekki víst að allir átti sig á því hvaða tala þetta er, 16,8 milljarðar kr., sem hér er verið að gera tillögu um að aukin verði frá samþykktum fjárlögum ársins. Við getum sett hana í annað samhengi til að átta okkur betur á því hvaða tölur þetta eru. Þetta segir okkur að verið sé að gera tillögu um að útgjöld ríkisins aukist frá fjárlögum um 1,4 milljarða kr. á mánuði, um 323 millj. kr. á viku, um 46 millj. kr. á hverjum einasta degi ársins, um 2 millj. kr. á hverri klukkustund ársins. Það þýðir að á meðan við erum hér að ræða þetta fjáraukalagafrv. munu útgjöld ríkisins væntanlega aukast um 4--6 millj. kr.

Herra forseti. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar hefur á undanförnum árum bent á fjölmörg atriði varðandi fjáraukalög sem ekki hafa staðist ákvæði fjárreiðulaga og því miður gefur það frv. sem hér liggur fyrir enn einn ganginn tilefni til sams konar athugasemda.

Frv. ásamt brtt. sýnir enn og aftur hve lítið aðhald er í fjármálastjórn ríkisins. Þrátt fyrir að unnið sé með rammafjárlög halda rammarnir ekki nema fram að framlagningu fjárlagafrv. hvers árs. Þegar kemur að fjáraukalögum eru allir rammar horfnir. Þá virðast allir ráðherrar hafa sín eigin fjárlög og afleiðingin er einfaldlega sú að hæstv. fjmrh. stendur oft og tíðum frammi fyrir orðnum hlut og getur lítt rökstutt umframkeyrslu einstakra ráðuneyta og stofnana. Það virðist ríkja aðhaldsleysi í fjármálum ríkisins og agaleysi meðal þeirra sem taka ákvarðanir um útgjöld.

Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp ummæli hæstv. fjmrh. og formanns fjárln. við 1. umr. um frv. til fjáraukalaga þessa árs. Þar hélt hæstv. fjmrh. því fram að ríkisstjórnin gæti tekið ákvarðanir um að greiða kostnað sem til félli vegna þeirrar staðreyndar að hún hefur þingmeirihluta á Alþingi og treystir á að hún fái greiðsluheimildir eftir á. Þessi ummæli endurspegla það viðhorf framkvæmdarvaldsins að hér sé ekki í raun þingbundin ríkisstjórn heldur stjórnbundið þing. Þá kom fram hjá hæstv. fjmrh. í sömu umræðu að í þessu fjáraukalagafrv. væri verið að sækja um fjárheimildir þrátt fyrir að þær greiðslur komi ekki endilega til útborgunar á yfirstandandi ári. Þetta er sérkennilegt viðhorf til fjáraukalaga.

Herra forseti. Það er fróðlegt að skoða þessi ummæli hæstv. fjmrh. í ljósi þess sem hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárln., sagði í sömu umræðu. Þar lýsti hv. þm. þeirri skoðun sinni að innihald fjáraukalaga ætti að vera hóflegt og ekki um að ræða aðrar fjárheimildir en þær ,,sem vart þola bið``. Taldi hv. þm. mikilvægt að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma umgengist heimildir til fjáraukalaga í lögum um fjárreiður ríkisins með hófsemd. Þeir hafa því mismunandi sýn á tilgang fjáraukalaga, hæstv. fjmrh. og formaður fjárln., hv. þm. Magnús Stefánsson. Í þessum ummælum endurspeglast í raun sú togstreita sem er á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins varðandi fjárlaga- og fjáraukalagagerð. Þessi togstreita hefur nú tekið á sig nýja mynd með bréfasendingu fjmrn. til annarra ráðuneyta með tilskipun um að banna einstökum stofnunum ríkisins að hafa frumkvæði að því að funda með fjárln. um fjárhagsstöðu sína.

[14:30]

Herra forseti. Þetta kom örlítið til umræðu á þingfundi í gær. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson taldi þessar bréfaskriftir ekki vera nýjar af nálinni og hér væri enginn vandi á ferðinni. Hann fullyrti að sama samþykkt og ríkisstjórnin gerði á haustdögum hefði verið gerð fyrir fjórum árum. Herra forseti. Má vera að rétt sé að ríkisstjórnarsamþykktin sé ekki ný. Hins vegar höfum við í fjárln. aldrei áður heyrt af slíkum bréfaskriftum þannig að hafi bréfaskriftir sem þessar farið fram áður hefur það farið fram hjá okkur sem í nefndinni höfum setið undanfarin ár. Þess vegna, herra forseti, hefur þetta mál allt aðra mynd en áður þegar slíkar formlegar bréfaskriftir hafa átt sér stað og miðað við fréttir sem berast utan úr samfélaginu virðast önnur ráðuneyti hafa brugðist við þessum bréfum fjmrn. með því að senda svipaðar tilskipanir til undirstofnana sinna.

Herra forseti. Það kom fram í umræðunni í gær að svo langt hefur verið gengið að forsrn. hefur látið sér sæma að senda Alþingi svipaða tilskipun. Því miður, herra forseti, hefur ekki borist svar við því frá hæstv. forseta þingsins hvort Alþingi hafi brugðist við bréfaskriftum forsrn. og þá á hvern hátt, hvort Alþingi hafi jafnvel gengið í lið með framkvæmdarvaldinu og sent bréfið áfram til undirstofnana sinna. Við skulum vona að svo hafi ekki verið.

Herra forseti. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í apríl árið 2001 um fjárlagaferlið kemur m.a. fram sú skoðun að fjárheimild veitt eftir á, eins og mörg dæmi eru um í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, feli í sér raunverulegt framsal fjárveitingavaldsins til ríkisstjórnarinnar enda þótt formlega sé fjárveitingavaldið áfram hjá Alþingi. Í sömu skýrslu er einnig fjallað um reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta sem fjmrn. gaf út í byrjun árs 2001. Þar er rætt um ábyrgð fjmrn. og annarra ráðuneyta um framkvæmd fjárlaga, og segir m.a. að fjmrn. skuli hafa eftirlit með því hvernig önnur ráðuneyti hagi eftirliti með fjárreiðum stofnana sem undir þau heyra. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Ráðuneyti skal reglubundið bera saman áætlun fjárlaga við útgjöld, ekki sjaldnar en annan hvern mánuð. Komi í ljós eftir könnun ráðuneytis á útgjöldum stofnunar, eða að fengnum upplýsingum forstöðumanns, að útgjöld stofnunar eru meira en 4% umfram áætlun hennar skal ráðuneyti hafa frumkvæði að því að leita skýringa og beita sér fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að færa útgjöld að heimildum.``

Herra forseti. Að kröfu 1. minni hluta fjárln. voru öll ráðuneyti beðin um upplýsingar um raunstöðu stofnana þann 31. ágúst árið 2003 og áætlaða stöðu í árslok 2003. Fjmrn. sendi yfirlit yfir stöðu allra fjárlagaliða miðað við lok ágúst 2003 og kom þar fram að rekstrargjöld stofnana voru 2,8 milljörðum kr. umfram fjárheimildir. Engar upplýsingar voru veittar um áætlaða stöðu í árslok 2003 eins og óskað var eftir og hefur nú verið ítrekað. Verði ekki orðið við þessari sjálfsögðu beiðni er það yfirlit sem borist hefur í raun ónothæft sem nauðsynlegur upplýsingagrunnur fyrir fjárln. Þessi tregða við upplýsingagjöf virðist því miður fara vaxandi ár frá ári og því eðlilegt að hún sé skoðuð í samhengi við þá togstreitu sem á sér stað milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Í svari fjmrn. kemur einnig fram að ráðuneytið hafi nú þegar ítrekað með sérstöku bréfi við önnur ráðuneyti að þau kalli eftir skýringum og aðgerðum hjá stofnunum í þeim tilfellum sem þörf er á. Fyrsti minni hluti fjárln. leggur mikla áherslu á að þessi svör verði kynnt fjárln. fyrir 2. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004.

Fjárln. hefur því miður ekki þá yfirsýn yfir ríkisfjármálin sem nauðsynleg er. Má í því sambandi minna á að í nál. meiri hluta fjárl. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999 kom fram að gerð yrði krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir lægju fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi bærist reglulega.

Nú er komið undir lok ársins 2003 og ekki hefur þessari gömlu kröfu enn verið fylgt eftir. Herra forseti. Það segir meira en margt annað um hver þróunin hefur verið í samskiptum fjárln. og framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að þetta gerist þrátt fyrir að enn sitji hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson í sæti varaformanns fjárln. sem var einnig árið 1999 og fór sá hv. þm. mikinn í ræðustól hér á Alþingi um nauðsyn þessarar óskar og að henni yrði fylgt eftir. Herra forseti. Það er því nauðsynlegt að spyrja: Hefur hv. þm. verið taminn á þessum tíma? Öðruvísi, herra forseti, mér a.m.k. áður brá.

Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2001 um fjárlagaferlið er því haldið fram að skipulag fjárlagagerðar, þ.e. rammafjárlagagerð, hafi almennt gefist vel og eflt mjög stefnumótunarhlutverk ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er bent á að þetta skipulag nái ekki til afgreiðslu Alþingis á fjárlögum. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

,,Sú heildarsýn og sá agi sem felst í skipulaginu fer því forgörðum eftir að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fyrir þing. Stór hluti þeirrar útgjaldaaukningar sem jafnan verður í meðförum þingsins á rætur að rekja til tillagna frá ríkisstjórn.``

Þetta agaleysi heldur síðan áfram eftir samþykkt fjárlaga. Þrátt fyrir að kerfið sé vel skipulagt og agað til að halda utan um útgjöld ríkisins nær það ekki til ákvarðana sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar taka. Það frv. sem hér er til umfjöllunar sannar að ekkert hefur breyst frá því að Ríkisendurskoðun gerði skýrsluna. Ríkisstjórnin sjálf hefur ekki þann aga sem skipulagið krefst og eftir höfðinu dansa limirnir.

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram telur 1. minni hluti fjárln. verulega bresti vera í fjármálastjórn ríkisins. Þetta má einnig lesa út úr áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárlagaferlið. Margar stofnanir eyða umfram heimildir ár eftir ár án þess að gripið sé til aðgerða. Þegar skoðuð eru fjáraukalög síðustu þriggja ára verður ekki betur séð en að sumar stofnanir séu áskrifendur að fjáraukalögum, þ.e. þær hafa fengið aukafjárveitingar á hverju ári frá árinu 2001 og enn eru gerðar tillögur um fjárveitingar þetta árið. Má þar sem dæmi nefna embætti forseta Íslands, aðalskrifstofu forsrn., viðhald menningarstofnana, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala -- háskólasjúkrahús og Veðurstofu Íslands. Þá hafa safnliðir hjá menntmrn. vegna háskóla og framhaldsskóla verið árlega í fjáraukalögum.

Herra forseti. Það væri auðvitað hægt að nefna mun fleiri dæmi um það að stofnanir virðist vera áskrifendur að fjáraukalögum. Við skulum nefna nokkur dæmi úr þeim ráðuneytum sem þær stofnanir sem ég nefndi áðan heyra ekki undir. Í landbrn. hefur öll þessi ár Landgræðsla ríkisins komið við sögu. Í sjútvrn. hefur liðurinn Ýmis verkefni alltaf komið við sögu. Í dóms- og kirkjumrn. hefur þjóðkirkjan alltaf komið við sögu og það er eðlilegt þegar slíkur liður er nefndur að velta fyrir sér skýringum. Auðvitað er hluti af þessu eðlilegur, þ.e. ef verið er að dæma um laun o.s.frv. að það komi í fjáraukalögum, en að stofnanir skuli ár eftir ár vera þarna nefndar er ekki hægt að skýra með þeirri skýringu einni saman.

Í félmrn. svo dæmi sé tekið af handahófi er Ábyrgðarsjóður launa á hverju einasta ári með mismunandi háar upphæðir, en ætíð háar. Í samgrn. er aðalskrifstofa ráðuneytisins einnig öll þessi þrjú ár, í iðnrn. iðnaðarrannsóknir og stóriðja, í viðskrn. Löggildingarstofa og þannig mætti áfram halda því dæmin eru því miður allt of mörg.

Herra forseti. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvað veldur þegar slíkur fjöldi stofnana virðist vera áskrifandi að fjáraukalögum. Skyldu þó ekki aðrar stofnanir ýmsar búa við svipuð skilyrði? Og hvaða reglur gilda þá um það hvaða stofnanir koma inn á fjáraukalög og hverjar ekki? Við hvað er miðað? Er hugsanlega gert upp á milli stofnana? Hvernig er það þá gert? Gildir jafnræði á milli stofnana ríkisins þegar horft er til fjáraukalaga? Því miður, herra forseti, er ýmislegt sem bendir til að svo sé ekki.

Herra forseti. Fyrsti minni hluti fjárln. hefur ítrekað bent á þennan vanda sem hér hefur verið um fjallað. Í nýlegu viðtali við framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins kemur fram að mikil frávik ár eftir ár á milli fjárlaga og ríkisreiknings veki upp spurningar um stjórn ríkisfjármála. Í viðtalinu segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það getur ekki staðist að það sé allt með felldu þegar viðbótarfjárheimildir eru viðvarandi sem svo stór hluti heildarfjárveitinga. Þá reynast fjárlögin ansi marklítil.``

Herra forseti. Þetta eru auðvitað mjög alvarleg orð og þegar þau eru mælt af framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins ber auðvitað að hlusta af þeirri einföldu ástæðu að þau samtök hafa eðlilega áhyggjur af framvindu efnahagsmála og það er ekki síst nú í árslok 2003 sem eðlilegt er að menn velti fyrir sér þróun efnahagsmála. Við erum að sigla inn í skeið þar sem mikilvægt er að allt sé notað sem tiltækt er til þess að verjast afleiðingum yfirvofandi þenslu og það er eðlilegt að samtök eins og Samtök atvinnulífsins hafi áhyggjur af því ef fjárlög ár eftir ár eru marklaust plagg af þeirri einföldu ástæðu að þau eru notuð við spádóma um framvindu efnahagsmála. Því miður, herra forseti, held ég að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafi of mikið til síns máls.

Til að fjárln. hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er verður að tryggja að við afgreiðslu fjáraukalaga liggi ávallt fyrir áætluð fjárhagsstaða stofnana við lok þess árs sem til umfjöllunar er í fjáraukalögum hverju sinni. Þetta á ekki síður við um afgreiðslu fjárlaga því það eru óvönduð vinnubrögð að samþykkja fjárveitingar til rekstrar stofnana á næsta ári án þess að taka tillit til stöðu þeirra um áramót. Taka þarf á vanda stofnana strax og hann kemur fram því tilgangslaust er að flytja skuldir yfir áramót ef ekki liggja fyrir raunhæfar áætlanir um að stofnanirnar geti ráðið við vandann. Sama gildir um inneignir einstakra stofnana því ekki er sjálfgefið að þær flytjist milli ára án athugunar. Nauðsynlegt er að við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga liggi fyrir áætluð útkoma stofnana miðað við fjárheimildir þannig að því sé ekki frestað að taka á vandamálum og þess beðið að í óefni sé komið.

Í áðurnefndri reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta kemur fram að markmið reglugerðarinnar er að stuðla að skilvirkum rekstri ráðuneyta og stofnana þannig að hann verði innan fjárheimilda. Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um ófyrirséða greiðsluskyldu ráðuneyta og stofnana. Þar segir m.a.: ,,Falli greiðsluskylda á ríkissjóð samkvæmt þessari grein leitar fjármálaráðherra heimildar Alþingis til greiðslu útgjaldanna í samræmi við nánari fyrirmæli 33. gr., 34. gr. og 44. gr. laga nr. 88/1997.`` Í 33. gr. laganna, þ.e. fjárreiðulaganna, er kveðið á um að fjmrh. sé skylt að gera fjárln. grein fyrir ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frv. til fjáraukalaga. Herra forseti. Ljóst er að eftir þessum lagaákvæðum hefur ekki verið farið því fjárln. hefur yfirleitt ekki verið gerð grein fyrir ófyrirséðum greiðslum.

Herra forseti. Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002 er sérstaklega fjallað um þessi vandamál. Þar kemur fram að 109 af 510 fjárlagaliðum, eða um 20%, fóru fram úr þeim 4% mörkum sem ákveðin eru í reglugerðinni um framkvæmd fjárlaga. Þetta eru svipaðar tölur og á árinu 2001 en þá fóru 105 af 511 fjárlagaliðum fram yfir 4% mörkin. Ástandið hefur því ekki batnað að þessu leyti milli ára. Þessum stofnunum hefur hvorki verið gert að draga úr kostnaði né þeim tryggðar auknar fjárheimildir og hefur ákvæðum reglugerðar um framkvæmd fjárlaga því ekki verið framfylgt að þessu leyti.

[14:45]

Í raun má segja að þrenn fjárlög ákvarði heimildir á næsta ári. Í fyrsta lagi fjárlög fyrir árið 2004, fjáraukalög fyrir árið 2003 og síðan lokafjárlög fyrir árið 2003 þar sem m.a. eru tíundaðar færslur á fjárheimildum á milli ára. Millifærslur fjárheimilda á milli ára eru komnar langt út fyrir það sem eðlilegt má teljast. Vissulega er eðlilegt að stofnanir geti flýtt eða frestað verkefnum og flutt fjárheimildir á milli ára með tilliti til þess, en þegar farið er að nota þessar millifærslur til að fresta því að takast á við vanda einstakra stofnana svo árum skiptir er nauðsynlegt að takmarka þessa heimild framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Ýmis dæmi virðast sérkennileg og er eðlilegt að óska eftir skýringum á þeim. Ég tek eitt lítið dæmi af handahófi sem ekki snertir á nokkurn hátt verkefni þess fjárlagaliðar. Hér er um að ræða ofanflóðasjóð. Staða ofanflóðasjóðs í árslok 2002 var þannig að hann átti eigið fé upp á einn milljarð króna. Í fjárlögum fyrir árið 2003 voru útgjöld áætluð 198 millj. kr. Fram kemur í fjáraukalagafrv. að samningsbundnar framkvæmdir á árinu 2003 hafi verði upp á 752 millj. kr. Nú er gerð tillaga um 555 millj. kr. fjárveitingu.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að þessar tölur verði útskýrðar við þessa umræðu. Og ef ekki, a.m.k. síðar í fjárln.

Herra forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um fjárhagsvandann í heilbrigðiskerfinu. Enda þótt rekstur heilbrigðisstofnana hafi verið núllstilltur fyrir fáum árum virðist allt komið í sama farið aftur. Alþingi hefur í engu verið gerð grein fyrir hvað fór úrskeiðis, hvorki af hálfu fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra. Í árslok 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og nam samanlagður vandi þeirra 1,6 milljörðum kr. Enn seig á ógæfuhliðina á árinu 2002. Sambærilegar tölur fyrir árið 2002 sýna 20 stofnanir með halla upp á 1,8 milljarða kr. Rekstrarvandi Landspítala -- háskólasjúkrahúss nam 798 millj. kr. í árslok 2002 og á þessu ári þarf að bæta við tæpum 2 milljörðum kr., þar af eru 1,6 milljarðar kr. vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Frá árinu 2001 hefur þessi stofnun fengið 4,5 milljarða kr. á fjáraukalögum. Þá má benda á að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið rúmar 364 milljónir kr. á fjáraukalögum á sama tíma.

Herra forseti. Ekki er langt um liðið síðan Samtök atvinnulífsins tóku saman tölur um heilbrigðiskerfið. Það væri fróðlegt að heyra frá fulltrúum meiri hluta fjárln. hvort meiri hlutinn vefengi þær tölur sem fram hafa verið lagðar. Þær eru auðvitað stóralvarlegar ef réttar eru. Ég vil minnast örlítið á umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um heilbrigðiskerfið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það er gagnrýnt að ár eftir ár skuli niðurstaða ríkisreiknings vera víðs fjarri þeim ramma sem fjárlög ákveða einungis 1--13 mánuðum áður.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Um helmingur heilbrigðisstofnana fór á fimm ára tímabili að meðaltali 21,2% fram úr fjárlögum.``

Og að lokum segir, með leyfi forseta:

,,Að mati SA eiga raunhæfar áætlanir og ákvarðanir um verkefni og forgang að liggja til grundvallar fjárlögum. Heilbrigðismálin eru veikasti hlekkurinn í fjármálastjórn ríkisins og þar verður að finna betri leiðir en nú tíðkast til að treysta framkvæmd fjárlaga í sessi.``

Herra forseti. Þetta er auðvitað athyglisverð orð en fleiri hafa bent á að eitthvað þurfi að gera í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki langt síðan að Ríkisendurskoðun skilaði ársskýrslu fyrir árið 2002, skýrslu sem var til umræðu í þessum sölum fyrir stuttu. Í þeirri skýrslu kemur fram sú skoðun Ríkisendurskoðunar að meginvandi heilbrigðiskerfisins á Íslandi sé sá að stjórnvöld skorti stefnu í heilbrigðismálum.

Það er afar athyglisvert, herra forseti, þegar ýmsir ágætir hv. þm. koma upp í þennan stól eða tala í fjölmiðlum um að Samf. hafi á landsfundi sínum nálgast stefnu þeirra. Það hefur verið stimplað af Ríkisendurskoðun að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki stefnu í heilbrigðismálum. Þess vegna er þetta að hluta til rétt hjá hv. þingmönnum. Á landsfundi Samf. var ákveðið að fara yfir málaflokkinn og móta stefnu. Það er því ekkert óeðlilegt að hv. þingmenn telji að Samf. hafi verið að nálgast stefnu þeirra með því að ákveða að fara að skoða kerfið og móta stefnu. Það er málið, að við teljum nauðsynlegt að endurskoða stefnu okkar. Ég held að það væri nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnarflokka sem setið hafa við völd allt of lengi að átta sig á því að líklega fer þar hver að verða seinastur að móta stefnu (LB: Að kanínan dugi ekki.) áður en valdatíma þeirra lýkur.

Herra forseti. Það er ljóst að kanínan mun ekki duga ríkisstjórninni nema hugsanlega til áramóta. (Gripið fram í.) Hæstv. heilbrrh. er reyndar horfinn úr salnum. Hann var hér en er hugsanlega að leita að hatti sínum og vona ég að hann finni eitthvað í þeim ágæta hatti.

Herra forseti. Fleiri málaflokkar en heilbrigðismál hafa verið í miklum vanda. Mörgum menntastofnunum hefur nánast verið haldið í herkví undanfarin ár af menntamálaráðuneytinu og lítið verið gert til að leysa þeirra vanda. Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002 kemur fram að 13 framhaldsskólar fóru meira en 4% fram úr fjárheimildum á því ári en þeir voru 11 árið á undan. Útgjöld þessara skóla umfram fjárheimildir voru samtals 661 millj. kr. á árinu 2002. Á móti vegur að safnliðurinn Framhaldsskólar, almennt var með jákvæða stöðu að fjárhæð 206 millj. kr. Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er gert ráð fyrir 180 millj. kr. til að mæta rekstrarhalla framhaldsskólanna. Ljóst er að þessar ráðstafanir duga engan veginn til að vinna á rekstrarvanda skólanna. Fyrsti minni hluti hefur óskað eftir því við menntamálaráðuneytið að það upplýsi um skiptingu þessa fjár á milli einstakra skóla en þær upplýsingar hafa enn ekki borist.

Herra forseti. Um þetta gildir hið sama og ég hef áður minnst á í ræðu minni. Sífellt virðist erfiðara að fá upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu um það sem óskað er eftir í fjárln.

Að mati 1. minni hluta sýna ýmsar tillögur þessa frumvarps að rekstrargrundvöllur margra stofnana, eins og hann birtist í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004, er brostinn og ljóst að verulegar breytingar þarf að gera á því frumvarpi. Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að fyrir 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 verði lagðar fram upplýsingar sem sýna ótvírætt að rekstur stofnana á árinu 2004 sé tryggður. Annað er blekkingarleikur sem leikinn hefur verið of lengi og getur haft alvarlegar afleiðingar bæði fyrir rekstur einstakra stofnana sem og efnahagslífið í heild. Marklítil fjárlög í fallegum umbúðum hafa einkennt þá ríkisstjórn sem nú situr. Til að þeim leik linni þarf að stórefla eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Herra forseti. Ég hef farið yfir nál. 1. minni hluta fjárln. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi í fjárln., er samþykkur þessu nál. en auk mín undirrita nál. hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar og Jón Gunnarsson.