Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:03:25 (1809)

2003-11-18 15:03:25# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir hreinskilnina. Hv. þm. hefur ekki mikið álit á þessari umsögn Samtaka atvinnulífsins og bendir á að það hafi vissulega ýmislegt misfarist hjá þeim í byrjun. En, herra forseti, tilvitnanir mínar voru hins vegar í endurgerðan pappír, getum við sagt, þar sem verið er að svara raunverulega þeim athugasemdum sem gerðar voru. Ljóst er að Samtök atvinnulífsins bera saman það sem samþykkt er í fjárlögum og síðan það sem kemur út úr ríkisreikningi. Og það er rétt að Samtök atvinnulífsins taka ekki inn í það sem verið er að samþykkja í fjáraukalögum o.s.frv. Það er því ekki verið að bera saman það sem menn hafa heimildir fyrir við það sem síðan er útkoman, heldur það sem lagt er fyrir í fjárlögunum.

Ég held, hv. þm., að þetta séu mjög alvarlegar athugasemdir frá Samtökum atvinnulífsins sem okkur beri að taka alvarlega vegna þess eins og ég sagði í ræðu minni að Samtök atvinnulífsins eru auðvitað samtök sem eru að velta fyrir sér þróun efnahagsmála. Það er vissulega mjög alvarlegt þegar svona mikill munur er á samþykktum fjárlögum og síðan ríkisreikningi og það sýnir að hluta til agaleysi. Það sýnir að hluta til skort á áætlunargerð. Það eru alvarlegir hlutir.

Ég held að við eigum að taka þetta mjög alvarlega. Og það er einmitt niðurstaðan hjá Samtökum atvinnulífsins þegar þeir eru búnir að fara yfir og rétta þetta af, að veikasti hlekkurinn í fjármálakerfi ríkisins séu umframkeyrslur í heilbrigðismálum.

Herra forseti. Það má ekki misskilja þetta á þann hátt að það sé vegna þess að verið sé að fara illa með fjármuni í heilbrigðismálum. Það er allt annar handleggur. Þetta er vegna þess eins og fram kom í ræðu minni að áætlanir standast ekki og verið að fela eða blekkja, ég veit ekki hvort skárra er, það er a.m.k. ekki verið að fjalla um raunveruleikann í fjárlögum undanfarin ár, því miður.