Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:07:15 (1811)

2003-11-18 15:07:15# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að við metum ekki afkomu heilbrigðisstofnana út frá slíkum samanburði. Ég benti hins vegar á hinn þáttinn, þ.e. skortinn á því að fjalla um raunveruleikann í fjárlögum. Ég er sammála því mati Samtaka atvinnulífsins að ekki er eðlilegt að ár eftir ár eftir ár séu sömu stofnanir á fjáraukalögum. Það eru vissulega skýringar á því á einstökum árum og dæmi sem hv. þm. nefndi t.d. launamál. Auðvitað eru þær skýringar einstaka sinnum. En það getur ekki staðist að sömu stofnanir, sami hópur stofnana, eigi að vera á fjáraukalögum ár eftir ár. Þá er eitthvað að. Og því miður, frú forseti, held ég að það sé í áætlunargerðinni eða einbeittum vilja til þess að horfa ekki á raunveruleikann. Það er auðvitað mjög alvarlegt.

Þess vegna held ég, frú forseti, að við eigum að taka ábendingar Samtaka atvinnulífsins alvarlega vegna þess að þetta er alvarleg umræða af þeirri einföldu ástæðu eins og ég nefndi í ræðu minni að það eru ýmsir sem taka mið bæði af fjáraukalagafrv. og fjárlögum þegar þeir eru að meta ýmsar hagstærðir og þróun þeirra inn í framtíðina. Þetta er ekki síður mikilvægt nú þegar við erum að sigla inn í þróunarskeið í efnahagsmálum. Það er því ljóst, frú forseti, og ég trúi ekki öðru en að ýmsir hv. þm. séu sammála því sem ég er að segja og ég trúi því að við munum ræða þetta alvarlega áfram í fjárln. og að sú vinna sem þar er hafin um breytt vinnubrögð muni m.a. taka mið af þessari niðurstöðu Samtaka atvinnulífsins.