Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:29:15 (1813)

2003-11-18 15:29:15# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar rætt er um ríkisfjármál Íslands. Það vill nú þannig til að engin þjóð í heiminum ver hærra hlutfalli þjóðartekna sinna til heilbrigðismála en Íslendingar. Allir flokkar hafa allan tímann, í áratugi, og margar kynslóðir staðið saman um þessa samhjálp. Aldrei verið um það pólitísk deila. Ísland sker sig úr öðrum þjóðum Evrópu að því leyti að hlutur einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni er lægri hér en í öllum öðrum Evrópuríkjum.

Hér er hlutur einstaklinga um 1,4%, á sama tíma og í öllum Evrópuríkjum eru einstaklingar að borga yfir 2% af landsframleiðslu. Þetta er staðreynd sem menn eiga að kunna.

Þó að það megi margt um ríkisfjármál Íslands segja, hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvers konar fjarstæðu menn láta út úr sér. Svo kemur hér einn hv. þm., herra forseti, og segir að á Íslandi sé tvöfalt heilbrigðiskerfi, annað fyrir hina ríku, hitt fyrir hina fátæku. Hvernig í veröldinni má það vera --- hvaða nauð er það sem rekur hv. þm. til að segja aðra eins fjarstæðu?