Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:33:08 (1815)

2003-11-18 15:33:08# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Engin þjóð eyðir hærri hluta þjóðartekna sinna í heilbrigðismál en Íslendingar. Bandaríki Norður-Ameríku eyða 7% af landsframleiðslu frá hinu opinbera. Einstaklingar og tryggingafélög borga önnur 7%. Það eru samtals um 14%. Þannig að heildin í Bandaríkjunum er hærri en á Íslandi. Reyndar hafa Bandaríkjamenn í áratugi verið með mun hærri framlög til heilbrigðismála en þjóðir í Evrópu. Það stendur hins vegar að Íslendingar greiða hærra og meira í samhjálpina en nokkrir aðrir. Ég tala nú ekki um þegar við tökum tillit þess að við erum með allra tekjuhæstu þjóðum í heimi.

Það eru engin teikn á lofti og það er enginn einasti stafur fyrir því að þetta sé að breytast. Það eru ekki nokkur teikn á lofti um það. Það hafa allir staðið saman að þessu og aldrei verið deilur um það. Það er staðreynd að íslenska heilbrigðiskerfið er mjög gott. Það er hins vegar líka mjög dýrt, herra forseti. Við eigum ekki og megum ekki láta einhverja hv. þm. sem skortir pólitísk áhugamál eða eitthvað til að rífast yfir, búa til, hreinlega búa til hluti eins og þá að hér sé að þróast tvöfalt heilbrigðiskerfi, annað fyrir ríka og hitt fyrir fátæka. Þetta eru bara hugarórar sem hann getur hvergi nokkurs staðar fundið stað á Íslandi.