Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:59:18 (1826)

2003-11-18 15:59:18# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get á ýmsan hátt tekið undir viðvörunarorð hv. þm. hvað varðar stefnuna í heilbrigðismálum. Ég hef einmitt gagnrýnt stefnuleysið sem hefur ríkt. Það er verið að byggja upp tvöfalda heilbrigðisþjónustu. Grunnheilsugæslan hefur liðið en einkavædd sérfræðiþjónusta fengið að blómstra. Litlu sjúkrahúsunum úti á landi sem geta vel veitt öfluga og góða staðbundna þjónustu og einnig létt á stóru hátæknisjúkrahúsunum með eftirmeðferð er haldið í heljargreipum. Það eru þau sem oft berjast við að halda sig innan fjárlaga. En þau fá litla umbun fyrir. Ég er alveg sammála hv. þm. um að þarna þarf heildstæða stefnu sem mér finnst hafa skort og það sem hefur verið gert er rangt.

Hv. þm. kom líka inn á lyfjamálin og hvað lyfjakostnaðurinn hefur hækkað. Um það vil ég varpa spurningu til hv. þm. Nú hefur myndast veruleg einokun eða fákeppnisstaða á lyfjamarkaði. Komnir er til sögu tveir lyfjarisar sem hafa keypt upp eða þröngvað hverju sjálfstætt starfandi apótekinu á fætur öðru út af markaðnum. Þeir sitja síðan tveir einir að kökunni. Ég hef upplýsingar um hvernig lyfjaverð hefur stórhækkað á síðustu árum, margfaldast. Verðið hefur margfaldast. Menn héldu að þeir væru að sækja hagræðingu í að þessir tveir lyfjarisar fengju að leggja undir sig markaðinn. En það hefur nú heldur betur reynst á hinn veginn. Er ekki hv. þm. sammála mér í því að taka þurfi virkilega á þeirri fákeppni eða einokunarstöðu sem þessir tveir lyfjarisar hafa á lyfjamarkað á Íslandi? Þeir eru nánast með einokun á því sviði og geta skammtað sér álagningu nánast að vild.