Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:03:38 (1829)

2003-11-18 16:03:38# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. 16,8 milljarða kr. aukafjárlög á einu ári, 6,5% af fjárlögum yfirstandandi árs. Við erum hér að tala um 16,8 milljarða kr. sem ýmist er búið að ráðstafa eða taka ákvörðun um að ráðstafa án heimildar Alþingis. Hér er á ferðinni einhvers konar vitnisburður, en um hvað? Hefur eitthvað komið upp á í ríkisbúskapnum?

Vissulega hafa komið til ófyrirséð atvik og lagabreytingar þannig að grípa þurfi til sérstakra fjárhagsráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins, eins og það er orðað í lögunum um fjárreiður ríkisins frá 1997. Það skýrir hins vegar aðeins hluta af þeim aukafjárveitingabeiðnum sem nú liggja fyrir. Margar stofnanir fara árlega fram úr fjárheimildum án þess að gripið sé til viðeigandi ráðstafana. Eru stjórnendur ríkisstofnana ekki starfi sínu vaxnir? Eða kann ríkisstjórnin ekki að gera fjárlög sem eru nær raunveruleikanum en fjáraukalög undanfarinna ára bera vott um?

Ég held reyndar að hvorugt þessara atriða sé hin rétta skýring á þeim svimandi upphæðum sem hér birtast okkur. Ég held að skýringin sé sú að ríkisstjórnin leiti á hverju ári eftir hagstæðri niðurstöðu fjárlaga og hliðri til fjárhæðum, bæði tekju- og gjaldamegin, til að ákveðin falleg niðurstaða fáist. Þar með er hún vísvitandi að setja fram óraunhæf fjárlög sem hún veit að munu ekki standast. Þessu er síðan veifað framan í þjóðina, kallaðir til blaðamenn og básúnaður góður árangur í ríkisbúskapnum --- aðhald, hagræðing, sparnaður --- og því treyst sem því miður er oft raunin að kastljósið beinist ekki að hinni endanlegu rekstrarniðurstöðu sem birtist í ríkisreikningi, að ekki sé nú talað um lokafjárlög sem ekki er farið að birta enn fyrir síðustu þrjú árin.

Þannig má segja að síðustu formlegu upplýsingarnar um fjárhagsstöðu stofnana hafi verið lagðar fyrir Alþingi með lokafjárlögum árið 1999. Ríkisstjórnin treystir því að skuldinni sé skellt á stjórnendur stofnana ríkisins hverju sinni, jafnvel þótt vitað sé að forsendur fjárveitinga til þeirra séu í besta falli hæpnar, ef ekki augljóslega rangar. Og í ýmsum tilfellum fá stjórnendur stofnana ekkert að vita eftir hvaða forsendum er farið þegar fjárveitingar til þeirra eru ákveðnar.

Og nú virðist sem reynt sé markvisst að halda upplýsingum um forsendur fjárlagagerðarinnar frá fjárln. Alþingis, samanber frægar bréfasendingar fjmrn. til annarra ráðuneyta þar sem til þess er mælst að þau fari fram á það við undirstofnanir sínar að þær panti ekki áheyrn hjá fjárln. til að fylgja fjárhagsbeiðnum sínum úr hlaði. Til að fullkomna tök framkvæmdarvaldsins á fjárveitingum eru hinir svokölluðu safnliðir stöðugt að hækka.

Þetta veldur tvenns konar vanda. Annars vegar er ekki hægt að gera sér grein fyrir stöðu einstakra stofnana því ekki fylgir með sundurliðun á því hvað hverri stofnun er ætlað af viðkomandi safnlið. Hins vegar gefur þetta ráðuneytunum möguleika á því að deila og drottna eftir geðþótta hverju sinni.

Sem dæmi má nefna fjárveitingu sem ætluð var til þess að bæta úr rekstrarvanda framhaldsskólanna. Gátu skólamennirnir sem vörpuðu andanum léttar, þegar loksins hillti undir að bót yrði ráðin á vanda þeirra, gengið að reglum vísum, samþykktum af Alþingi um hvernig fjármunum yrði útdeilt? Nei, ekki aldeilis. Þessi fjárveiting upp á rúman hálfan milljarð kr. fór á safnlið og engar upplýsingar gefnar um hvernig ráðuneytið hygðist skipta þessu á milli skóla. Hvar liggur fjárveitingavaldið í slíkum tilfellum?

Virðulegi forseti. Þetta ráðslag er grafalvarlegt þar sem er ekki aðeins verið að fara frjálslega með lagabókstafinn um gerð fjárlaga og fjáraukalaga heldur hefur þessi aðferðafræði víðtækari áhrif. Á undanförnum árum hafa fjárlög verið sett fram með rúman tekjuafgang. Mikilvægt er að fjárlagafrv. sé trúverðugt þar sem það er eitt af hagstjórnartækjum þjóðfélagsins og felur í sér upplýsingar um hvaða áhrif ríkisstjórnin ætlar sér að hafa á efnahagslífið, t.d. með framkvæmdum. Fjárlög hvers árs hafa því áhrif á ákvarðanir margra í þjóðfélaginu, vaxtastefnu og peningamálastefnu.

Því miður hafa fjárlög undanfarinna ára verið hluti af blekkingarleik sem afhjúpaður er með fjáraukalögum og ekki síst lokafjárlögum. En þá er svo langt um liðið að áhrif þeirra eru óveruleg. Eina raunhæfa leiðin til að meta trúverðugleika fjárlagafrv. er að samtímis framlagningu frv. til fjárlaga hvers árs verði lagt fram fjáraukalagafrv. og frv. til lokafjárlaga ársins á undan. Þannig fengist heildstæð mynd af stöðu ríkissjóðs og einstakra stofnana.

Virðulegi forseti. Í fjárlögum er verið að fara með fjármuni almennings og þau eiga að gefa ljósa mynd af því hvernig með þá er farið. Þeim mun hærri sem aukafjárlög eru, þeim mun lélegri hefur undanfarin fjárlagagerð verið. Þegar rýnt er í aukafjárlögin kemur berlega í ljós að umtalsverður hluti af því sem þar er fellur ekki undir skilgreiningu laga á aukafjárlögum en er ýmist fyrirsjáanlegt, og hefði átt að vera á fjárlögum þessa árs, eða hins vegar þess eðlis að það ætti að bíða fjárlaga næsta árs. Þessi aukafjárlög eru því vitnisburður um illa unnin fjárlög á ábyrgð stjórnarflokkanna sem stjórna leiktjaldasmíðinni og halda í því skyni upplýsingum frá fjárlaganefndarmönnum og Alþingi.