Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:11:47 (1830)

2003-11-18 16:11:47# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum til fjáraukalaga nú við 2. umr. er nánast eins og þau hafa flest verið sem fyrir mín augu hafa borið. Margar sömu stofnanir eru í áskrift að því er virðist og fara fram úr fjárlögum ár eftir ár. Eins og oft áður er fjárvöntun langmest á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi þar sem í frv. til fjáraukalaga er gerð tillaga um 977 millj. kr. og meiri hlutinn bætir við í tillögu sinni 735 millj. kr., alls fjárvöntun upp á 1.712 millj.

Árlegur fjárvöntunarvandi upp á mörg hundruð milljónir kr. mörg ár í röð hlýtur að stafa af því að fjárþörfin er illa þekkt við samningu fjárlagafrv. hvers árs. Um þetta segir í áliti 1. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Í raun má segja að þrenn fjárlög ákvarði heimildir á næsta ári. Í fyrsta lagi fjárlög fyrir árið 2004, fjáraukalög fyrir árið 2003 og síðan lokafjárlög fyrir árið 2003 þar sem m.a. eru tíundaðar færslur á fjárheimildum á milli ára. Millifærslur fjárheimilda á milli ára eru komnar langt út fyrir það sem eðlilegt má teljast. Vissulega er eðlilegt að stofnanir geti flýtt eða frestað verkefnum og flutt fjárheimildir á milli ára með tilliti til þess, en þegar farið er að nota þessar millifærslur til að fresta því að takast á við vanda einstakra stofnana svo árum skiptir er nauðsynlegt að takmarka þessa heimild framkvæmdarvaldsins.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um fjárhagsvandann í heilbrigðiskerfinu. Enda þótt rekstur heilbrigðisstofnana hafi verið núllstilltur fyrir fáum árum virðist allt komið í sama farið aftur. Alþingi hefur í engu verið gerð grein fyrir hvað fór úrskeiðis, hvorki af hálfu fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra. Í árslok 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og nam samanlagður vandi þeirra 1,6 milljörðum kr. Enn seig á ógæfuhliðina á árinu 2002. Sambærilegar tölur fyrir árið 2002 sýna 20 stofnanir með halla upp á 1,8 milljarða kr. Rekstrarvandi Landspítala -- háskólasjúkrahúss nam 798 millj. kr. í árslok 2002 og á þessu ári þarf að bæta við tæpum 2 milljörðum kr., þar af eru 1,6 milljarðar kr. vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Frá árinu 2001 hefur þessi stofnun fengið 4,5 milljarða kr. á fjáraukalögum. Þá má benda á að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið rúmar 364 milljónir kr. á fjáraukalögum á sama tíma.``

[16:15]

Sá sem hér talar hefur ekki langa reynslu af fjárlagavinnu. Mér virðist samt sem fjárlaganefndin eigi fárra kosta völ í fjárlagavinnunni annan en að lagfæra framúrkeyrsluna með viðbótarfé á jafnmikilvægum þjónustustofnunum og heilbrigðisstofnanir eru fyrir almenning. Varla förum við að draga úr þjónustu við sjúka. Þjóðin eldist, laun hækka, kostnaður við aðföng eykst og einnig vegna þess að tækninni fleygir fram og kostar meira. Þessu ætti að vera hægt að gera ráð fyrir og gera raunhæfar áætlanir í fjárlögum í stað þess að fá uppsafnaðan vanda enn og aftur í fjáraukalögum líkt og um óvænta framúrkeyrslu sé að ræða.

Við erum nú að ræða annað fjáraukalagafrv. ársins en eins og menn muna var í vor lagt fram sérstakt frumvarp upp á 4,7 milljarða kr. sem fór að mestu til átaks í vegagerð. Nú stefnir í að þetta fjáraukalagafrv. verði upp á 12,2 milljarða kr. með brtt. eða alls tæpir 17 milljarðar á þessu ári.

Í áliti 1. minni hluta segir svo um fjárlagarammann og framlagningu fjárlagafrv. hvors árs, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið ásamt breytingartillögum sýnir enn og aftur hve lítið aðhald er í fjármálastjórn ríkisins. Þrátt fyrir að unnið sé með rammafjárlög halda rammarnir ekki nema fram að framlagningu fjárlagafrumvarps hvers árs. Þegar kemur að fjáraukalögum eru allir rammar horfnir. Þá virðast allir ráðherrar hafa sín eigin fjárlög og afleiðingin er einfaldlega sú að fjármálaráðherra stendur oft og tíðum frammi fyrir orðnum hlut og getur lítið rökstutt umframkeyrslu einstakra ráðuneyta og stofnana. Aðhaldsleysi virðist ríkja í fjármálum ríkisins og agaleysi meðal þeirra sem taka ákvarðanir um útgjöld.

Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp ummæli fjármálaráðherra og formanns fjárlaganefndar við 1. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga þessa árs. Þar hélt fjármálaráðherra því fram að ríkisstjórnin gæti tekið ákvarðanir um að greiða kostnað sem til félli vegna þeirrar staðreyndar að hún hefur þingmeirihluta á Alþingi og treystir á að fá greiðsluheimildir eftir á. Þessi ummæli endurspegla það viðhorf framkvæmdarvaldsins að hér sé ekki í raun þingbundin ríkisstjórn heldur stjórnbundið þing.``

Á bls. 5 í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sem við nú ræðum, kemur fram í 1. gr. framúrkeyrslan, flokkuð eftir ráðuneytum. Þar renna 2.306 millj. kr. til heilbr.- og trmrn. og þar til viðbótar koma tillögur meiri hluta fjárln. sem mér virðast að hækka þann lið fjárlagalið um 2,6 milljarða kr. Þar munar að sjálfsögðu mest um hinn nýja hæstaréttardóm varðandi tekjutryggingu örorkulífeyrisþega sem talinn er kosta 1,5 milljarða kr. Fjáraukinn felur í sér tæplega 5 milljarða kr. hækkun á þessum lið sem fellur undir heilbr.- og trmrn.

Síðan er félmrn. með 1.454 millj. kr. í fjáraukalagafrv. og um 411 millj. kr. til viðbótar í brtt. meiri hlutans, eða alls um 1,9 milljarða kr. Með brtt. meiri hlutans virðist fjmrn. einnig stefna í að hækka fjárútlát sín upp í 2 milljarða kr.

Menntmrn. stefnir í 1,1 milljarð og umhvrn. í tæpan milljarð. Fjögur ráðuneyti eru því samtals með 10 milljarða af þeim rúmlega 12 milljörðum sem talið er að fjáraukinn muni nema við þessi önnur fjáraukalög ársins.

Virðulegi forseti. Við eigum eftir 3. umr. áður en yfir lýkur. Það er vandi að stjórna eyðslunni, virðulegi forseti.