Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:49:15 (1835)

2003-11-18 16:49:15# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi misskilið mig aðeins áðan. Ég var að ræða um að grundvöllurinn í heilsuhagfræðinni sé að spyrja hver þörfin sé, vegna þess að ef eftirspurnin er þörfin eins og svo oft hefur viljað brenna við, þá stefnir þörfin í óendanlegt. Þörfin eða eftirspurnin getur verið endalaus. Það getur allt verið að. Á lengstu biðlistum Landspítala -- háskólasjúkrahúss í dag eru 225 einstaklingar sem bíða eftir fituaðgerðum sem er kannski alvarlegt mál o.s.frv. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við verðum að meta stöðuna, því engin þjóð getur lifað í þeim lúxus að ætla sér alltaf að gera allt fyrir alla, alls staðar og alltaf. Þetta verða menn að horfast í augu við. Við getum ekki ætlast til þess af yfirmönnum heilbrigðisstofnana. Við getum ekki ætlast til þess af læknum og þeim sem vinna þessi erfiðu störf. Við getum ekki ætlast til þess að þeir forgangsraði öðruvísi í heilbrigðisþjónustunni en treysta því að íslenskir stjórnmálamenn hafi þrek til að standa á bak við það. Þetta er aðalatriðið sem ég bið hv. þm. að íhuga og þingheim allan vegna þess að ég er sannfærður um að við komumst ekkert áfram í þessu erfiða verkefni nema með því að standa saman að því og gera okkur grein fyrir þessum vanda.