Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:51:00 (1836)

2003-11-18 16:51:00# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um heilbrigðismálin er rétt að halda því til haga sem þar er á ferðinni og láta menn ekki hlaupa út um víðan völl og hlaupa frá raunveruleikanum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilbrigðisþjónustuna og stöðu sérfræðilækna fyrir 1998--2001 segir, um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, með leyfi forseta:

,,Í lögum um heilbrigðisþjónustu er mælt svo fyrir að öll heilbrigðisþjónusta skuli vera undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra og veitt af heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. Á stofnunum þessum skulu auk almennra lækna starfa sérfræðingar sem veiti sérfræðilæknisþjónustu. Alkunna er að þjónusta sérfræðilækna er almennt ekki í boði á heilsugæslustöðvum heldur er þjónusta þeirra utan sjúkrahúsa að mestu veitt á stofum þeirra sjálfra. Meginstoðir heilbrigðisþjónustunnar í dag eru því í rauninni þrjár, heilsugæsla, sjúkrastofnanir og starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Á árinu 2001 komu t.d. 291 þúsund sjúklingar til 342 sérfræðilækna í tæplega 460 þúsund skipti. Þessa umfangsmiklu starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðilækna endurspegla lög um heilbrigðisþjónustu ekki. Þess má jafnframt geta að í heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var með þál. frá Alþingi í maí 2001, er ekki fjallað um starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Samkvæmt ofansögðu er umtalsverður hluti af heilbrigðisþjónustunni nú veittur utan heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa án þess að til staðar sé lagarammi um hana sem er í takt við raunveruleikann.``

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun fer yfirleitt hógværum orðum um hlutina. En hún segir hreint og beint þarna að stjórnvöld, ríkisvaldið, láti heilbrigðisþjónustuna þróast þvert á ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Þá lenda menn í þem pyttum sem þeir eru núna að lenda í.