Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:58:53 (1840)

2003-11-18 16:58:53# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Örstutt innlegg í þessa umræðu. Ég ætlaði mér ekki að halda langa ræðu en hins vegar sé ég mig knúinn til þess að taka til máls eftir ræðu hv. 8. þm. Norðvest., Jóns Bjarnasonar, eða andsvar, eða hvað það nú var, því að mér er útilokað að fá botn í það sem hv. þm. var að tala um. Ég gat ekki betur heyrt en hann væri að bera það upp á forustu heilbrigðismála að hún færi ekki eftir lögum. Það er alvarlegur áburður og ég verð að spyrja hv. þm. um hvað hann á við. Á hann við að það eigi að banna starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðinga í landinu? Er það það sem hv. þm. á við?

Það er nýbúið að samþykkja lög frá Alþingi um samninganefnd heilbrigðisráðuneytis og Tryggingastofnunar sem fer með samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga og setur markmið með þeim samningum um hve margar einingar er samið við sérfræðingana. Þetta er nákvæmlega eftir lögum sem er nýbúið að samþykkja frá Alþingi, ef hv. þm. veit það ekki þá ætla ég að rifja það upp fyrir honum. Ég vísa því gersamlega á bug að forusta heilbrigðismála fari ekki eftir lögum um heilbrigðismál. Það er alvarlegur áburður að koma með slíkar staðhæfingar í ræðustól á hv. Alþingi.