Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:00:49 (1841)

2003-11-18 17:00:49# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að hæstv. heilbrrh. skuli vera hér og fylgjast með umræðum, enda snúast fjárlögin og fjáraukalögin ekki síst um framlög til heilbrigðisþjónustunnar.

Fyrr í dag gerði ég í nefndaráliti mínu og ræðu grein fyrir ýmsum þáttum í fjáraukalögunum og fjáraukalagafrv., vinnu og forsendum í kringum það. Það sem hæstv. heilbrrh. er hér að vitna til er það sem ég las upp og fékk heimild til hjá hæstv. forseta til að vitna beint í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stöðu heilbrigðisþjónustunnar þannig að þetta voru ekki mín orð heldur orð í skýrslu Ríkisendurskoðunar, samningur Tryggingastofnunar vegna sérfræðilækna árin 1998--2001 þar sem segir til um skipulag heilbrigðisþjónustunnar.

Ég vitnaði, virðulegi forseti, orðrétt til þeirra umsagna sem Ríkisendurskoðun hafði þar um skipulag heilbrigðisþjónustunnar þar sem vikið er að því einmitt að hún hafi þróast í þá átt að hlutur sérfræðilækna hafi orðið stór og allverulegur og án þess að um hana væri lagalegur rammi. Það er fjarri því að ég hafi þarna verið að leggja út af þeim texta með öðrum hætti, heldur vakti ég bara athygli á þeim ábendingum Ríkisendurskoðunar að heilbrigðisþjónustan hefði þróast með þessum hætti án þess að lög geri raunar ráð fyrir öðru.

Ég held að einmitt í ljósi þeirrar umsagnar og annarra þátta í þróun heilbrigðiskerfisins hafi einmitt sú nefnd verið skipuð sem hæstv. heilbrrh. skipaði til þess að gera heildarendurskoðun á skipan heilbrigðismála í landinu og ég vona að sú nefnd skili sem fyrst áliti.