Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:06:18 (1844)

2003-11-18 17:06:18# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði heilsugæsluna að umræðuefni og það vill nú svo til að aðgerðir eru í gangi til að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Við tökum í notkun nýja heilsugæslustöð í Kópavogi núna um eða eftir áramótin. Ljóst er, og hefur verið auglýst eftir húsnæði, að ný heilsugæslustöð mun fara af stað á næsta ári í Voga- og Heimahverfi sem árum saman hefur verið beðið eftir. Það er því unnið markvisst á þessu sviði. Við höfum tekið upp samninga við heimilislækna og tekið upp fleiri rekstrarform í heilsugæslunni og kjör heilsugæslulækna hafa verið stórbætt og meiri ásókn er í námsstöður í heilsugæslu en nokkru sinni fyrr, þannig að það er ekki svo eins og vill oft verða í lýsingum af ástandinu að ekkert sé verið að gera og þessi mál reki öll saman á reiðanum, það er alls ekki svo. Miklar breytingar og framfarir eru fram undan í heilsugæslunni og betri mönnun er í heilsugæslunni í Reykjavík en verið hefur um árabil. Það eru vandamál uppi á einstökum stöðum úti á landi núna og þarf að vinna í því að laða þangað lækna en það er langt frá því að allt sé í kaldakoli hér og við höfum færi á því að bæta ástandið mjög á næstu missirum.