Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 18:23:05 (1850)

2003-11-18 18:23:05# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er fjallað um nýtt frv. hæstv. umhvrh. um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum og reyndar breytingu á skipulags- og byggingarlögum einnig sem er afleidd breyting af því sem breytingarnar á lögunum um mat á umhverfisáhrifum leiða af sér.

Það hefur verið farið yfir það af tveimur félögum mínum úr umhvn. í allítarlegu máli hvað hér er á ferðinni og mun ég nú reyna að endurtaka ekki mikið af því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Mörður Árnason hafa þegar sagt en tek undir það sem kom fram í máli þeirra. Það er mjög alvarlegt þegar horft er til þeirrar sögu sem við eigum að baki og þeirra deilna sem hafa staðið um framkvæmdir á hálendi Íslands á síðustu missirum og árum og það er skelfilegt að maður skuli upplifa það að hæstv. umhvrh. komi hér fram með breytingar sem eiga að forða stjórnvöldum frá átökum af því tagi sem hafa verið hér uppi. Þau hafa verið ansi hatrömm og mér sýnist sem margar þær breytingar sem hér eru lagðar til séu beinar afleiðingar af þeim átökum sem fram hafa farið.

Þess vegna má til sanns vegar færa að hér sé verið að gera tilraun til að draga tennurnar úr þeim einstaklingum, félögum og samtökum sem hafa barist fyrir náttúruvernd á Íslandi á síðustu árum. Ef markmið stjórnvalda eru að reyna að lama og slæva vald náttúruverndarsamtaka og einstaklinga sem berjast fyrir náttúruvernd er það í sjálfu sér afar alvarlegt og það verður auðvitað skoðað mjög grannt í hv. umhvn. hvort slíkt geti verið upp á teningnum. Eins og ég segi, virðulegi forseti, eru ótrúlega margar vísbendingar um að slíkt geti verið hér á ferð.

Það kemur fram í grg. með frv. að það sé samið í nefnd sem hæstv. umhvrh. skipaði. Það kemur jafnframt fram í grg. að eftir að nefndin lauk störfum hafi verið gerðar breytingar á frv. Hins vegar kemur ekki fram hvaða breytingar það voru þannig að það er atriði sem verður að leita eftir upplýsingum um í umhvn. Hverjar voru hinar eiginlegu tillögur nefndarinnar og að hvaða leyti hefur verið vikið frá þeim við endanlega gerð þessa frv.? Það hefur komið hér fram að a.m.k. tveir nefndarmenn skiluðu séráliti eða áliti með fyrirvara út úr þessu nefndarstarfi. Það voru Elín Smáradóttir og Hilmar Malmquist og verða þeir fyrirvarar skoðaðir afar grannt í starfi umhvn.

Það hefur sýnt sig á síðustu árum, í þeim framkvæmdum sem deilt hefur verið um, að náttúruverndarlögin hafa ekki nægt okkur sem vörn fyrir náttúru Íslands. Yfir þau hefur verið keyrt aftur og aftur af stjórnvöldum og hunsuð þau ákvæði sem þar ættu að geta tryggt að ekki sé farið út í framkvæmdir sem spilla landi.

Ég minni hér á 1. gr. náttúruverndarlaganna sem maður hefði haldið að ætti að tryggja okkur nokkrar varnir í þeim efnum en í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

,,Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.

Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.

Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.``

Þetta er fyrsta greinin í náttúruverndarlögunum. Þessi grein hefur ekki haldið í fyrirhyggjulausri framkvæmdagleði þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er alveg ljóst að með þeim breytingum sem hér er verið að gera á lögum um mat á umhverfisáhrifum er verið að veikja enn frekar möguleika okkar á að standa vörð um náttúru Íslands, standa vörð um þau markmið sem sett eru í 1. gr. náttúruverndarlaga. Til marks um þetta sem ég nú segi er breytingin á 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem liggur fyrir hér í þessari tillögu en þar er greinilega verið að veikja möguleika okkar á að hafa áhrif til þess að framkvæmdir spilli ekki landi.

Mig langar til að fara yfir markmiðssetningu laganna eins og hún er í dag. Hún er í a-lið 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og þar segir, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er:

a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar.``

Eins og hv. þm. Mörður Árnason sagði eru þessi umtalsverðu umhverfisáhrif sem hér er um getið rauður þráður í gegnum lögin um mat á umhverfisáhrifum. Þetta orðalag og þessi skilgreining er tekin út í frv. sem mér finnst vera til marks um það að hér eigi að slæva og deyfa möguleika okkar á að hafa áhrif á náttúru landsins að því leytinu til að hún fái notið verndar. Ég sé því ekki annað en að hér sé á ferðinni tilraun til einhvers konar aðfarar að þeirri vernd sem þó hefur verið hægt að stunda á grundvelli þeirra laga sem við hingað til höfum starfað við.

Ég skil það auðvitað vel, virðulegi forseti, að hæstv. umhvrh. finnist erfitt að hafa á baki sér þá reynslu sem hún hefur eftir Kárahnjúka þar sem hún sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar sem gekk út á það að vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa væri ekki hyggilegt að fara í þá framkvæmd en af pólitískum ástæðum varð þeim úrskurði snúið við af hæstv. umhvrh. Auðvitað er hæstv. umhvrh. sár og eflaust reið yfir því að þurfa að sitja með þá reynslu á bakinu.

[18:30]

Mér sýnist að hér séu einhvers konar tilraunir til þess að forða komandi umhverfisráðherrum frá slíku því nú á umhvrh. að vera einráður í þessum efnum og geta kveðið upp úrskurði sína án þess að þurfa að lúta einhverjum kvörðum eða viðmiðunum sem hefur þó verið reynt að setja í lög, því við reyndum mjög meðvitað að vinna að því við síðustu breytingu á þessum lögum að það væri að hluta til vörn í baráttunni fyrir náttúru landsins. Og það var sameiginlegur skilningur umhvn., fannst mér, þegar verið var að vinna þessi lög að slíkar mælistikur yrðu að vera til staðar þó að það væru matskennd hugtök eins og ,,umtalsverð umhverfis\-áhrif`` vegna þess að við værum að reyna að stemma stigu við framkvæmdum sem eyðilegðu umhverfi okkar. Ég sé ekki að nokkur stoð verði lengur að þessu leyti til eins og ég les þær breytingar sem hér liggja nú fyrir.

Ég spyr t.d.: Hvernig eigum við að geta treyst þessari ríkisstjórn sem nú situr, sem hefur sýnt það að hún virðir að vettugi og fer ansi frjálslega með ákvæði í alþjóðlegum samningum sem við höfum þó undirgengist. Ég nefni til sögunnar samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika og Bernarsamninginn, hvorir tveggja eru samningar sem komu hér til umfjöllunar í umdeildum bráðabirgðalögum sem sett voru í sumar vegna laxeldis. Þar var ekki verið að horfa til slíkra samninga sem þó eiga að skuldbinda okkur að lögum um það að standa vörð um náttúru Íslands. Ég sé ekki annað en að hér sé verið að fara inn á sömu braut, þ.e. að heimila eða leyfa í lagatexta stjórnvöldum að hunsa þau ákvæði sem hafa þó verið sett og við höfum undirgengist er varða skuldbindingar okkar í náttúruverndarmálum, eða eins og hv. þm. Mörður Árnason orðaði það, hér er verið að loka og þrengja á meðan verið er að opna og víkka möguleika t.d. einstaklinga á því að koma að þessum málum í nágrannalöndum okkar.

Í því sambandi langar mig til að gera að sérstöku umtalsefni þessar breytingar á matsskýrslunni og drögum að matsáætlun eða matsskýrslum. Ég sé ekki betur en að skv. 9. gr. frv. eigi allir að láta sér nægja að gefa umsagnir um drög að matsáætlun, því það virðist eingöngu vera Skipulagsstofnun sem á að fá heimild til þess að skoða matsskýrsluna þegar hún er komin í endanlegt form. Ég spyr: Getur verið að það sé ætlun hæstv. umhvrh. að láta öllum það að vinna bara með drög að matsáætluninni og það verði þá þannig að endanleg matsáætlun verði aldrei auglýst til umsagnar fyrir nokkurn mann? Ég verð að lýsa því yfir hér, virðulegi forseti, að mér finnst þetta fáránlegt. Mér finnst það algerlega fáránlegt og vil fá að vita hvernig stendur á því að öllum á að vera gert það nægjanlegt að skoða drög framkvæmdaraðila að matsáætlun.

Ég lýsi því yfir að það hlýtur að verða að leyfa og heimila öllum skoðun á hinni endanlegu matsskýrslu en ekki að það verði eingöngu Skipulagsstofnun sem skuli fjalla um hana. En í f-lið 9. gr. frv. segir að Skipulagsstofnun skuli senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir sem henni berast, þ.e. þá varðandi drögin að matsskýrslunni, og þegar umsagnir og athugasemdir hafi borist frá framkvæmdaraðila skuli hann vinna endanlega skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og framkvæmdaraðili skuli gera grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Þannig að ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að það verði bara Skipulagsstofnun sem fær hina endanlegu matsskýrslu til umsagnar. Hún verði aldrei auglýst öðruvísi en í áliti stofnunarinnar. Ég verð því að segja, virðulegi forseti, að mér finnst þetta til mikils vansa ef þetta er rétt skilið hjá mér.

Varðandi breytingartillögurnar á málsskotsréttinum þá verður að fá skýringar hæstv. ráðherra á því hvað er að gerast hér. Hvernig stendur á því að hæstv. umhvrh., sem á sínum tíma ritaði eigin hendi undir Árósasamninginn og veit nákvæmlega hvað í honum stendur, lætur sér detta það í hug að hún geti farið fram á það að ... (Gripið fram í.) Afsakið, virðulegi forseti, það var víst ekki hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir sem skrifaði undir Árósasamninginn, en það sem hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir hefur þó gert er að hún hefur tekið Árósasamninginn þannig í fóstur að hún gengur út frá honum þegar hún gerir samstarfsyfirlýsingu við náttúruverndarsamtök á Íslandi. Og í Árósasamningnum er gert ráð fyrir því að fólk fái að gefa umsagnir og jafnvel að lögsækja eða senda inn formlegar kvartanir til stjórnvalda, jafnvel þótt ekki séu hefðbundnir lögvarðir hagsmunir til staðar. Hvers vegna er hæstv. umhvrh. að þrengja hér möguleika íslensks almennings og fara þar með á svig við ákvæðin í Árósasamningnum?

Hæstv. utanrrh. lýsti því reyndar yfir fyrir nokkrum dögum í þessum sal að það hafi verið mistök að íslensk stjórnvöld skyldu skrifa undir Árósasamninginn og þau hafa látið þetta þvælast fyrir sér núna í nokkur ár á lagatæknilegum forsendum að fullgilda samninginn, jafnvel þó að hæstv. utanrrh. hafi komið með þáltill. inn í þingið sem hann, eins og ég sagði, hefur lýst hér yfir að hafi verið mistök af sinni hálfu að setja hér fram. Mér finnst þetta mjög alvarlegt, virðulegi forseti, og ég treysti því að hæstv. umhvrh. hafi hér einhverjar skýringar fyrir okkur í þessum efnum, hvers vegna verið er að þrengja möguleika almennings og einstaklinga á því að koma að þessum málum með kvartanir og ég tala nú ekki um möguleika á að kæra stjórnvöld, sem oft er þörf á að gera.

Ég spyr: Hver er ástæðan fyrir þessari tölu, 50? Hvers vegna mega bara umhverfisverndarsamtök sem hafa 50 félaga eða fleiri fá þennan málskotsrétt? Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að við höfum á Íslandi náttúruverndarsamtök sem eru landshlutasamtök í sínum fjórðungum, sem eru oft fámenn, eðli málsins samkvæmt, í fámennum byggðarlögum. En þau eiga að geta haft, að mínu mati, alveg sama rétt og fjölmennari félög í fjölmennari byggðarlögum. Ég spyr því: Hvernig rökstyður hæstv. umhvrh. þessa tölu, 50 félagar eða fleiri? Ég geri alvarlega athugasemd við þetta.

Ég verð að segja að ég tel fulla ástæðu til þess að útfæra nánar í þessu frv. allar leiðbeiningar um alla náttúrufræðilega þætti. Ég sé ekki annað en að framkvæmdaraðili verði að fá öruggari eða nánari og efnismeiri leiðbeiningar í matsvinnunni um það hvernig vinna á með hina náttúrufarslegu þætti. Mér finnst að hér séu möguleikar á að sniðganga þann faglega grunn sem gengið hefur verið út frá í matsskýrslum hingað til, þ.e. náttúruverndargrunninn, hinn faglega matsgrunn þar. Ég verð því að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst að sú vitneskja sem við þó höfum nú í náttúruvísindum ekki skila sér inn í þá hugmyndafræði sem hér liggur að baki.

Sama má segja um hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin samið sér ákveðna framtíðarstefnu sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Hún hefur ekki sýnt sig eða komið fram í þeirri framkvæmdagleði sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt á síðustu árum og ég sé ekki að hér eigi varúðarsjónarmið sjálfbærrar þróunar heldur að komast að málum, heldur er þvert á móti verið að veikja möguleika okkar á því að koma náttúruverndarsjónarmiðum og sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar að í mati á umhverfisáhrifum, ef þessar breytingar ná fram að ganga eins og hér er gert ráð fyrir.

Ekki á lengur að vera hægt að kæra til staðfestingar. Okkur er það í fersku minni sem fylgdumst með baráttunni um Kárahnjúkavirkjun að þar var úrskurður Skipulagsstofnunar kærður til staðfestingar. Er umhvrh. þar með, eins og ég sagði áðan, að reyna að forða eftirkomendum sínum frá slíkri skömm sem hún sjálf lenti í með að þurfa að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar, sem var neikvæður gagnvart virkjuninni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa, og á núna að forða komandi umhverfisráðherrum frá því að lenda í því að fá á sig kæru sem er til þess að staðfesta sjónarmið náttúruverndar?

Ég verð að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að ef þessi lög eiga að fara í gegn svona óbreytt þá sýnist mér ekki vanþörf á að búa til nýjan lagabálk, lagabálk um umhverfisvernd. Mér sýnist að það sé full ástæða til þess að fara að huga að því að umhverfisvernd sé lögfest á Íslandi. Ef náttúruverndarlögin okkar nægja ekki og lög um mat á umhverfisáhrifum eiga að keyra yfir þau eins og þau séu ekki til þá þurfum við að fara að endurskoða afstöðu okkar í þessum málum, kannski með því að semja nýja lagabálka sem tryggja það hvaða skilyrði eigi að vera til staðar varðandi umhverfisvernd og náttúruvernd á Íslandi. Því mér finnst það ankannalegt, og ég á auðvitað eftir að fá tækifæri til þess að gagnrýna hæstv. umhvrh. frekar fyrir það þegar náttúruverndaráætlun hennar fær að líta dagsins ljós og kemur fyrir þingið, að þar virðist hæstv. umhvrh. sniðganga öll þau svæði sem virkjunaraðilar og orkufyrirtæki gætu mögulega sótt í á hálendi Íslands, þannig að mér sýnist hæstv. umhvrh. hafa sýnt það með þessu lagafrv. ásamt með öðrum verkum sínum að hún sé ekki málsvari náttúruverndar, hún sé mun frekar málsvari framkvæmdaraðila og ég verð að lýsa því hér yfir að mér sýnist frv. sem hér liggur fyrir staðfesta þá tilfinningu mína, sem ég reyndar hef oft orðað úr þessum stóli.

Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort leyfisveitendurnir, sem um þessi mál ættu að fjalla samkvæmt því sem hér kemur fram, hafi nægileg tæki í höndunum í formi laga og reglugerða sem tryggir að þeir fari ekki að gefa jákvæðar umsagnir með framkvæmdum sem stríði gegn náttúruvernd, sem stríði gegn náttúruverndarlögum eða sjálfsögðum ákvæðum eða hugmyndum okkar um það hvað beri að vernda í náttúrunni.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haft nægilega góðan tíma til þess að kynna mér frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögunum en mér sýnist þó af stuttri yfirferð yfir það frv. að breyta eigi þar einu veigamiklu atriði, þ.e. því að úrskurðarnefndin hefur hingað til þurft að styðjast við niðurstöðu Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum, en það virðist ekki vera neitt slíkt skilyrði eftir í því frv. sem hér er lagt fram. Ég spyr því hæstv. umhvrh.: Er það virkilega ætlun hæstv. ráðherra að heimila úrskurðarnefndinni að taka afstöðu án þess að líta á nokkurn hátt til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum? Er ekki gert ráð fyrir því að neikvæð umsögn eða umsögn sem sýnir umtalsverð áhrif geti í raun og veru orsakað það að úrskurðarnefndin mundi vilja sniðganga viðkomandi framkvæmd og heimila hana ekki? Mér sýnist eins og að jafnvel þó að framkvæmd fengi falleinkunn í kerfinu, þá sé úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála alls ekki bundin af slíkri falleinkunn þannig að það væri ágætt og gott veganesti að fá slíka yfirlýsingu eða svar við þeirri spurningu frá hæstv. ráðherra.