Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 18:43:27 (1851)

2003-11-18 18:43:27# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þessi tvö frv. sem liggja til grundvallar umræðunum.

Í fyrsta lagi vil ég segja að ég tel að við höfum verið á nokkrum villigötum í löggjöf okkar varðandi mat á umhverfisáhrifum og í þeim lagafrumvörpum sem við ræðum hér er verið að reyna að vinda ofan af því. Mér hefur verið sagt að á sínum tíma hafi frumvarpið ekki verið flutt frá ráðuneytinu í því formi að þar ætti að vera um úrskurð að ræða frá Skipulagsstofnun og kæruheimild ráðherra á úrskurð, en það hafi verið sett inn hér í ferlinu í umhvn. á sínum tíma, þannig að við höfum búið við það umhverfi hingað til að Skipulagsstofnun hefur úrskurðað og þeir úrskurðir hafa verið kæranlegir til ráðherra, sem er allt annað umhverfi en önnur lönd hafa búið við og þekkist hvergi annars staðar.

[18:45]

Ég fagna því sem hér hefur komið fram, sérstaklega í máli tveggja þingmana sem hafa tekið til máls fyrir hönd Samf., Rannveigar Guðmundsdóttur og Marðar Árnasonar. Báðir þessir hv. þm. hafa fært rök fyrir því og sagst vera sammála því að rétt sé að færa þetta vald og ábyrgð sem felst í úrskurðum frá embættismönnum til pólitísks kjörins stjórnvalds, en segja má að það sé einmitt verið er að gera í frumvörpunum.

Í þessu nýja kerfi verður matsskýrslan miklu ítarlegri, má segja, heldur en núna frá hendi framkvæmdaraðila af því að framkvæmdaraðilinn mun fá umsagnir bæði stofnana og athugasemdir sem berast frá almenningi og samtökum. Hann mun fá þessar umsagnir til sín eftir að þær hafa farið í gegnum hendurnar á Skipulagsstofnun. Framkvæmdaraðilinn á sem sagt að klára matsskýrslu endanlega eftir að hann er búinn að fá þessar umsagnir frá stofnunum og almenningi og samtökum þannig að matsskýrslan verður að lokum miklu fyllri og ítarlegri frá hendi framkvæmdaraðila en hún er í dag. Því má segja að framkvæmdaraðilinn sjálfur er að gera mikið af því sem í dag er á höndum og herðum Skipulagsstofnunar.

Í frv. erum við sem sagt að feta þá leið sem við vorum beðin um að skoða sérstaklega frá hendi þingsins, eins og fram kom í bráðabirgðaákvæði III, þ.e. hvort ekki væri hægt að færa matsferlið meira á hendur framkvæmdaraðila, og við erum að gera það.

Eftir umfjöllun í umhvn. á síðustu breytingum á þessum lögum vorum við líka beðin um að athuga hvort ekki mætti fella matsferlið betur inn í leyfisveitingarnar og það er einmitt það sem verið er að gera. Það er verið að fella matsferlið að leyfisveitingunum. Þar liggur hið pólitíska vald, má segja, þá í framhaldinu þegar þessi lög hafa verið samþykkt. Ef þau verða samþykkt eins og frv. lítur út í dag þá er aðalábyrgðin á höndum leyfisveitanda sem eru sveitarfélögin sem gefa út framkvæmdarleyfi, eins og reyndar í dag, og til þeirra sem gefa út sérleyfi. Ég held að þetta sé miklu eðlilegra en að embættismenn séu að úrskurða eins og þeir gera í dag á Skipulagsstofnun. Þessar breytingar eru unnar í samráði við Skipulagsstofnun, þ.e. Skipulagsstofnun átti fulltrúa í nefndinni sem lagði til þessar breytingar og gerði þá athugasemd sem hér hefur verið fjallað um af hv. þingmönnum, þessa einu athugasemd við skilgreininguna ,,umtalsverð umhverfisáhrif``, þ.e. hvort það eigi að vera inni í lögunum áfram eða ekki.

Hv. þingmenn hafa allir gert athugasemdir við orðalagið ,,umtalsverð umhverfisáhrif`` og það að þetta orðalag skuli falla út. En eins og kemur fram í frv. þá er það að okkar mati orðalag sem ekki er hægt að styðjast við í þessum lögum. Hins vegar er það ekki svo að öll viðmið hverfi þar með. Mér finnst hafa gætt svolítils misskilnings í umræðum að því leyti. Ég bið hv. þingmenn að skoða í frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum c-lið 8. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í niðurstöðu matsskýrslu skal geta um flokkun og viðmið umhverfisáhrifa einstakra þátta framkvæmdar á grundvelli leiðbeininga sem Skipulagsstofnun gefur út, sbr. 19. gr.``

Virðulegur forseti. Þetta er bein tilvitnun þannig að það er ekki þannig að engin viðmið verði í þessu nýja matsferli.

Það kemur líka fram í d-lið 15. gr. frv. að það eigi að tilgreina sérstaklega flokkun og viðmið umhverfisáhrifa. Skipulagsstofnun mun vinna slíkar viðmiðanir og þær verða settar í reglugerð. Þessar viðmiðanir eru nákvæmlega það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var hér að segja okkur frá á ensku. Þar verða umhverfisáhrif sett í kategóríur eða í flokka, þ.e. hvort umhverfisáhrifin séu langvarandi eða hafa áhrif í stuttan tíma, eru mikil, lítil, væg o.s.frv. Þar verða því viðmiðanirnar og þessar viðmiðanir verða notaðar á einstaka umhverfisþætti. Ég átta mig því ekki alveg á þessari umræðu sem hér hefur orðið um að allar viðmiðanir gufi bara upp, allt mat á því hvort umfang eða áhrif framkvæmda séu mikil eða lítil.

Hins vegar ber líka að líta til þess að af því að við erum að fara úr úrskurðarferlinu --- það kemur ekki úrskurður frá Skipulagsstofnun --- þá kemur ekki einhver ein niðurstaða, þ.e. framkvæmdin öll hefur umtalsverð umhverfisáhrif. Í niðurstöðu eða í áliti Skipulagsstofnunar mun í framtíðinni, verði frv. að lögum, verða litið á einstaka þætti framkvæmdarinnar og hvaða áhrif þættirnir hafa á mismunandi hluta umhverfisins, þ.e. hvaða áhrif framkvæmdin hefur á gæsir, hvaða áhrif framkvæmdin hefur á vatnafar, hvaða áhrif framkvæmdin hefur á gróður o.s.frv. (Gripið fram í: Og rjúpu.) (RG: Og silung.) Ef eitthvað er tel ég því að við séum að fara út í miklu skilgreindara mat en tíðkast í dag. Mér finnst því þessi umræða að nokkru leyti hafa verið á villigötum. Þessar leiðbeiningar og þessi viðmið verða unnin og þau verða gefin út í reglugerð. Við munum setja þá vinnu í gang þannig að þau verði tilbúin í júlí þegar þessi lög eiga að taka gildi, ef þau verða samþykkt með þeim hætti sem við höfum gert ráð fyrir í þessu frv.

Nokkuð hefur verið rætt hér um það hvort vald Skipulagsstofnunar á upphafsstigi matsáætlunar vanti. Það tel ég ekki vera. Skipulagsstofnun er í samráði við framkvæmdaraðila um hvernig matsáætlun á að líta út og fær drögin að matsáætlun til auglýsingar, fær svo að lokum endanlega matsskýrslu inn. Samráðið færist hins vegar allt út til markaðarins, ef svo má segja, þ.e. til stofnana og almennings og samtaka. Ég get því alls ekki sagt að ég fallist á þá skoðun þingmanna að þáttur Skipulagsstofnunar veikist. Það get ég alls ekki samþykkt. Hins vegar fer vinnan við matsáætlunina og við það að útbúa matsskýrsluna miklu meira fram hjá framkvæmdaraðilanum en er í dag því að nú fer þessi vinna meira og minna fram á Skipulagsstofnun af því að matsskýrslan fer inn þangað og svo fær Skipulagstofnun umsagnir. Þetta verður allt fært til framkvæmdaraðilans í hinu nýja kerfi.

Varðandi það sem kom fram um hvort þessar ákvarðanir ættu almennt ekki að vera skýrar og gegnsæjar þá er ég algjörlega sammála því. Eins og þetta frv. er útbúið þá á ferlið að vera mjög gagnsætt. Framkvæmdaraðilinn sem útbýr matsskýrslu á að færa rök fyrir því þegar hann útbýr sína matsskýrslu af hverju hann tekur tillit til einhvers í umsögnum og af hverju ekki þannig að það á að vera alveg gagnsætt. Síðan þegar Skipulagsstofnun gefur álit sitt þá færir hún auðvitað rök fyrir því. Þegar leyfisveitandinn gefur út leyfi þá þarf hann að kynna sér bæði matsskýrsluna og álit Skipulagsstofnunar og leyfisveitandinn þarf að færa rök fyrir því af hverju hann tekur upp einhver skilyrði í sínu leyfi og af hverju ekki önnur. Menn eiga að því að geta fært rök fyrir ákvörðum sínum. Ég tel að hér sé um gagnsætt ferli að ræða.

Hér hefur líka verið rætt nokkuð um málskotsréttinn og að verið sé að þrengja hann. Málskotsrétturinn hefur verið og er mjög víður í núverandi lögum. Í frv. er gert ráð fyrir því að almenningur hafi alla möguleika á að koma með athugasemdir í öllu ferlinu eins og hingað til hefur verið. Hins vegar varðandi kæruferlið þá er gert ráð fyrir því að umhverfisverndarsamtök eða önnur hagsmunasamtök eftir ákveðnum reglum séu kæruaðilarnar --- framkvæmdaraðilinn getur líka verið kæruaðili --- en það sé sem sagt ekki eins og nú er almenningur. Að þessu leyti erum við að færa okkur nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Við erum sem sagt að færa málskotsréttinn að því sem þar gildir. (MÁ: Eru það rök í málinu?) Ég tel að almenningur hafi ágætistök á því að beita sér í þessum málum, m.a. á grundvelli umhverfisverndarsamtaka. Ég tel því að þessum málum sé ágætlega fyrir komið eins og þetta er sett upp í frv. og að aðilar geti haft sitt að segja í þessu ferli eins og eðlilegt er.

Hér er búið að ræða um nýjustu tilskipunina sem kom fram núna fyrir mjög stuttu síðan, í maí, þannig að við erum spurð: Af hverju er hún ekki í frv.? Það eru ýmis atriði sem við þurfum að skoða gagnvart þeirri tilskipun. Við erum ekki tilbúin með þau. En við létum skoða sérstaklega þetta með málskotsréttinn. Við teljum að eins og frv. er útbúið þá sé það alveg í samræmi við þessa nýjustu tilskipun þannig að við höfum ekki áhyggjur af því.

Hér hefur líka verið sagt að við séum að draga tennurnar úr stofnunum og almenningi og umhverfisverndarsamtökum með þessu frv. (Gripið fram í.) Ég get alls ekki fallist á það. Við erum að færa þetta ferli að eðlilegra umhverfi, vil ég meina. Fyrir mig sem umhverfisráðherra hefur verið mjög ankannalegt að vinna í núverandi umhverfi. Ég get nefnt sem dæmi þegar ég gerði sjálfa mig vanhæfa að úrskurða um Þjórsárver. Mér þótti það mjög vont að geta ekki úrskurðað um Norðlingaölduveitu. Það er mjög ankannalegt fyrir umhverfisráðherra hvers tíma að hafa þetta úrskurðarvald og geta átt von á hvaða framkvæmd sem er inn í kæru en geta ekkert rætt þær framkvæmdir opinberlega þar með meira og minna. Það er ekki eðlileg staða. Þetta verður mun eðlilegra í hinu nýja kerfi. Það er alls ekki þannig að frv. sé sett fram hér til þess að veikja verðandi umhverfisráðherra gagnvart því að geta úrskurðað í svona umhverfismati.

Ég sé að tími minn er búinn, virðulegur forseti, en væntanlega fæ ég tækifæri til þess að koma einhverju að í andsvörum.