Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:03:40 (1856)

2003-11-18 19:03:40# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi málskotsréttinn þá sagði hæstv. umhvrh. í máli sínu áðan að farin væri svipuð leið og gert er í nágrannalöndum okkar. Ég vil minna hæstv. umhvrh. á að það er verið að undirbúa fullgildingu Árósasamningsins á Norðurlöndunum, þ.e. Danmörk er búin að taka hann upp og Svíþjóð er að vinna mikið starf til að geta fullgilt samninginn. Það á að gera, eftir því sem ég hef best getað kynnt mér, á afar faglegan og metnaðarfullan hátt. Ég geri ráð fyrir að Svíar eigi eftir að víkka málskotsréttinn hjá sér.

Hitt veit ég líka, að í Noregi hafa menn túlkað lögin afar vítt. Það hafa þeir gert meðvitað, sérstaklega eftir að Árósasamningurinn var gerður, til að þrengja ekki möguleika einstaklinga á að leita réttar síns í þessum efnum þó ekki séu hefðbundnir lögvarðir hagsmunir til staðar.

Varðandi hitt sem hæstv. umhvrh. sagði um vanhæfi sitt í Þjórsárveramálinu þá langar mig að segja að ég taldi hæstv. ráðherra aldrei vanhæfa í því máli. Ef hún var vanhæf í Þjórsárveramálinu af því að hún hafði andað út úr sér einhverjum orðum sem hægt hefði verið að túlka svo að henni þætti vænt um Þjórsárver þá var hún alveg jafnvanhæf í Kárahnjúkamálinu. Hún var búin að lýsa því yfir að hún styddi stefnu Framsfl. í virkjanamálum. Ef hún var vanhæf í Þjórsárveramálinu þá var hún vanhæf í Kárahnjúkamálinu. Ég blæs á að þetta vanhæfi skipti einhverju máli í því sambandi sem það er sett fram.