Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:09:54 (1860)

2003-11-18 19:09:54# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Við þingmenn í salnum og hæstv. umhvrh. eigum eftir að spjalla aðeins um málið áfram en eitt vil ég samt að komist á hreint, þ.e. í kringum þessa tilskipun. Hæstv. ráðherra upplýsir nú að hún hafi látið skoða málskotsréttinn með tilliti til tilskipunarinnar frá því í maí 2003. Þar með kemur í ljós að umhvrn. var kunnugt um tilvist þessarar tilskipunar og umhverfisráðherranum líka. Hvers vegna er ekkert um það í greinargerð með frv.?

Hvernig stendur á því að við erum ekki upplýst um það í greinargerð með frumvarpinu, annars vegar að þessi tilskipun er til og hins vegar að þetta hafi verið sérstaklega skoðað í umhvrn. þar sem menn reyndu að verja rétt sinn til að þrengja málskotsréttinn fram hjá þessari tilskipun? Það þarf ekki að skoða þessa tilskipun lengi, þó að ég treysti mér ekki til að reiða kjarna hennar fram, til að sjá að hún vísar í opnunarátt. Hún miðast við Árósasamninginn, er búin til beinlínis í framhaldi af honum og hún miðar í opnunarátt. Ég sé það hér að sérstök undanþága er gefin þeim ríkjum sem eingöngu hafa ákvæði um lögvarða hagsmuni. Þeim er greinilega gefinn einhver frestur en enginn kostur á að skjótast undan merkjum í þeim efnum.

Hvers vegna fer umhvrn. og ver þessa þrengingu sína gagnvart tilskipuninni? Það er ein spurning. Og önnur: Af hverju í ósköpunum var ekki sagt frá því í greinargerð með þessu frv. sem lengi hefur verið í smíðum? Það verður að vísu að taka fram að greinargerðin virðist á síðustu stigum hafa verið unnin afar flausturslega. Í henni eru málvillur. Það eru í henni undarlegheit í málfari og vantar í hana mikilvægan rökstuðning sem við þingmenn höfum óskað eftir að umhvrh. komi með og kemur væntanlega með á eftir, þann sem hún hefur gleymt í ræðum sínum hingað til.