Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:15:26 (1864)

2003-11-18 19:15:26# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Ég vil þrátt fyrir undanfarin orðaskipti þakka hæstv. umhvrh. fyrir að taka þátt í umræðunni og ég tek fram að öfugt við aðra hér að ég tel að hæstv. umhvrh. meini vel og vilji vel og hafi í hinum minni stjórnarákvörðunum sínum sýnt að henni þykir vænt um náttúru Íslands og virðir þau helstu sjónarmið sem nú eru uppi hjá nútímamönnum um umgengni manns við náttúru og umhverfi. Þótt hæstv. ráðherra hafi vissulega lent í kreppu með ýmis mál og orðið fyrir því að stórir hamrar hafa á henni barið í þeim málum sem upp úr standa þegar kjörtímabil hennar verða gerð upp. Það er ekki að öllu leyti hæstv. umhvrh. að kenna.

Ég vil segja um það sem kom fram í síðari ræðu hæstv. ráðherra að hún taldi að með því að flytja þetta ákvörðunarvald frá embættismönnum til ráðherra eða til stjórnvalda réttara sagt, hinna pólitísku stjórnvalda, sveitarfélags og ráðherra, þá væri allt fengið. Hæstv. ráðherra taldi að ráðherra og sveitarstjórnir yrðu sem sé að rökstyðja afstöðu sína þvert á það sem haldið hefur verið fram í umræðunni.

Þegar farið er í frv. kemur í ljós að krafan um slíkt er varla fyrir hendi. Hún kemur fram í tveimur setningum þ.e. að leyfisveitandinn skuli kynna sér annars vegar matsskýrsluna og athugasemdir við hana og álit Skipulagsstofnunar og hins vegar skuli hann taka afstöðu til hennar. Þetta er eitthvert vægasta orðalag síðari tíma um hvað pólitískt stjórnvald skuli gera því auðvitað er það þannig að auðvelt er að segja þegar ákvörðun er tekin og liggur fyrir að þá hafi maður bæði kynnt sér hvaðeina og tekið afstöðu til þess með ákvörðuninni sjálfri. En í frv. og hinum væntanlegu lögum, ef hæstv. umhvrh. verður að sínum vilja, þar eru engar frekari kröfur um rökstuðning, engar frekari leiðbeiningar um það hvernig á í raun og veru að taka þessa ákvörðun, hvernig hið pólitíska stjórnvald á að taka ákvörðunina. Þetta skiptir verulegu máli.

Hér er ekki eingöngu um það að ræða að hjálpa stjórnvöldum að taka ákvörðunina sem er nú rétt og sjálfsagt, heldur einkum og sér í lagi að búa til gagnsæi í lögin og í ferlið. Í fyrsta lagi að það sé fagurfræðilega út frá stjórnsýslusjónarmiði í lagi, en í öðru lagi vegna þess að réttur almennings byggist á þessu gagnsæi. Réttur almennings til þess að fara til dómstóla og segja og gera þá athugasemd við formlegan gang málsins að sveitarstjórnin eða ráðherrann hafi ekki tekið afstöðu til þess sem hann átti að taka afstöðu til, hafi ekki kynnt sér það sem hann átti að taka afstöðu til, sá réttur er ákaflega lítils virði með þessum tveimur setningum, ,,kynna sér`` og ,,taka afstöðu`` því það stendur bara orð gegn orði. ,,Jú, ég las þetta`` --- ,,nei, þú last þetta ekki`` --- ,,jú, ég hlustaði á þessi rök`` --- ,,nei, þú gerðir það ekki.`` Og dómstólar vísa málinu frá.

Í lögunum þarf auðvitað að vera klásúla um að menn rökstyðji afstöðu sína og þar komi fram hvernig þeir hafi kynnt sér málið og rökstyðji afstöðu sína til þeirra þátta sem felast í matsskýrslunni.

Ef deilan er um fuglalíf í mýri, þá dugir ekki fyrir sveitarstjórnina eða ráðherrann að segja bara: ég leyfi ákvörðunina, heldur verður ráðherra að taka afstöðu, rökstudda afstöðu til fuglanna í mýrinni. Ef ráðherra gerir það ekki, þá gæti almenningur, umhverfissamtök með 50 manns eða fleiri eða maður með lögvarða hagsmuni eins og þetta stendur núna og ég vil bæta við hver sem er, því það á ekki að útiloka neinn í þessu, komið og sagt: Ég kæri þessa ákvörðun og vil fá rökstuðning ráðherrans eða sveitarstjórnarinnar um þá fugla í mýrinni sem taldir eru upp í matsskýrslunni og ágreiningur er um. Það er þetta sem við eigum við.

Um umtalsverðu umhverfisáhrifin er fróðlegt að fram kemur að það er ekki rétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, ekki rétt ályktun hjá henni, að ráðherra hafi jafnsett annars vegar ákvæðin um umtalsverð umhverfisáhrif í lögunum eins og þau eru núna og hins vegar þær veiku leiðbeiningar eða þessi veiku ákvæði um leiðbeiningar Skipulagsstofnunar. Í ljós kemur að hæstv. umhvrh. leggur feikilega áherslu á að útrýma orðunum ,,umtalsverð umhverfisáhrif`` og ætlar í staðinn að hafa einhver viðmið og reglur sem fyrst koma í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og síðan á að gefa út reglugerð, sem þingið hefur eins og kunnugt er ekkert með að gera og ráðherra getur breytt hvenær sem er. Þetta er sami hæstv. umhvrh. og hefur lýst því yfir að friðuð svæði séu friðuð svo lengi sem þarf að friða þau. Þetta er kannski eitthvað svipað því að ef kæmu nýir Kárahnjúkar eða aðrir Eyjabakkar, þá geti ráðherra og ríkisstjórn breytt þeim reglum, þessum viðmiðunum eins og henni sýnist án þess að það komi þó fyrir Alþingi eins og þarf að gera við ýmislegt sem hæstv. ráðherra hefur gert og ætlar að gera hér held ég fram til jóla eða hefur látið í orði kveða.

Hæstv. ráðherra segir að þessi umræða sé á villigötum. Hún er það bara ekki. Það getur vel verið að í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar verði mat og viðmið o.s.frv. Kannski verða þau eins og þingmenn hafa bent á í dag eitthvað í þeim dúr sem við erum að sjá í náttúruverndaráætluninni og í rammaáætluninni. Það væri æskilegt vegna þess að þá gætum við með einhverjum hætti komið á jafnvel tölulegu mati sem auðvitað er aldrei nákvæmt en segir þó eitthvað þegar á bak við það eru ferlar, eru skilyrði, eru forsendur, matskenndar eða ekki, virðulegi forseti, sem hægt er að skoða og leiða að þeirri tölu, þeirri einkunn sem að lokum er gefin.

Þetta treysta mennirnir í rammaáætluninni sér til að gera. Þetta treystir náttúruverndaráætlunarfólkið sér til að gera sem er þó að vinna með ráðherranum. Hvað var ekki matskennt í því? Hvað er ekki matskennt í náttúruverndaráætlun? Eru ekki tilfinningar í náttúruverndaráætlun? Er ekki spurningar um fegurð? Spurningar um gildi einstakra svæða, einstakra þátta í lífríkinu, er það ekki matskennt? Þá ætti það samkvæmt orðum hæstv. ráðherra og því sem kemur fram í athugasemdum bara að renna út.

Að lokum þetta: Þetta getur ekki komið í staðinn fyrir þann skýra rauða þráð sem felst í orðunum ,,umtalsverð umhverfisáhrif``. Og ég neita því enn og aftur og heimta miklu betri rökstuðning fyrir því frá ráðherranum að ekki sé hægt að taka mark á þessum orðum vegna þess að þau séu matskennd. Ég veit ekki hvar fræðimennirnir og lögfræðingarnir í umhvrn. hafa nálgast fræði sín og vísindi ef þeir gera sér ekki grein fyrir því að auðvitað eru öll hugtök matskennd þangað til þau fá nokkuð fasta skilgreiningu. Þannig er það bara. Ég veit ekki hvaðan í ósköpunum menn hafa hirt upp þessa dellu sem kynnt er í kafla í grg. með frv. til laga frá hæstv. umhvrh. sem maður hefur reynt að meta sem slíkan hingað til.

Ég vil fjalla aðeins um kærurnar. Þá er það auðvitað eitt með þessa tilskipun. Hitt er þetta og því hefur hæstv. umhvrh. ekki enn þá svarað: Hvers vegna þarf að útiloka almenning einan og sér? Hvers vegna þarf almenningur að hópa sig saman í 50 manna samtök eða fleiri eða þá að eiga lögvarða hagsmuni? Gegn hverjum stefnir þetta? Hvaða dæmi eru um það í sögunni síðan lögin tóku gildi að þessi opna afstaða okkar á Íslandi, þjóð sem ekki nær 300 þúsundum og þar sem hver þekkir annan og allir geta talað saman --- hvern er verið að útiloka? Getur ekki hæstv. umhvrh. komið með dæmi um þetta eða sagt okkur hvernig á þessu stendur að hér er verið að loka? Það eru ekki rök í málinu að þetta sé einhvern veginn öðruvísi annars staðar. Það er það ekki, virðulegi forseti. Það getur ekki verið að menn fari í það að reyna að breyta lögum í mjög mikilsverðu máli sem varðar rétt almennings vegna þess að sá réttur sé ekki jafnmikill annars staðar. Erum við að ganga í Evrópusambandið? Erum við að sameinast Danmörku aftur, eða hvað er á ferðinni, virðulegur forseti, þegar hæstv. umhvrh. hagar sér svona í máli sem varðar allan almenning og skiptir meginmáli í þessu frv. og þeim lögum sem hér verða e.t.v. samþykkt í vor?