Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:29:30 (1867)

2003-11-18 19:29:30# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umtalsverð umhverfisáhrif eru eins og hér kom fram hjá hv. þm. almennur frasi, segir ósköp lítið, það er ekki skilgreining sem menn átta sig neitt á. Það er miklu líklegra að menn átti sig á þeim viðmiðunum sem við munum setja í leiðbeiningarnar sem koma frá Skipulagsstofnun í reglugerð. Ég átta mig alls ekki á því hvernig menn geta fest sig svona í því að vilja hafa í lögunum einhverja skilgreiningu sem ekkert hald er í. Og af hverju ætti þessi skilgreining að vera þarna inni? Við erum að fara út úr úrskurðarferlinu, þannig að það er enginn heildarúrskurður sem kemur frá Skipulagsstofnun í framtíðinni. Af hverju ætti þetta að standa í lögunum? Er ekki miklu eðlilegra að hafa viðmið í hverjum málaflokki fyrir sig, á hverjum þætti umhverfisáhrifanna fyrir sig, eins og kemur fram í 8. gr., þar er þessu lýst ágætlega þrátt fyrir að hv. þm. segi að svo sé ekki. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Umhverfisáhrif yrðu þannig flokkuð eftir gæðum, umfangi, lengd og tegund og innan hvers flokks væru sett fram ákveðin viðmið, svo sem jákvæð, neikvæð, lítil, veruleg og varanleg áhrif. `` --- Þ.e. umhverfisáhrif.

Við erum því að fara inn í miklu skilgreindara ferli um það hvernig á að meta áhrifin en áður. Þannig að ég átta mig bara alls ekki á því að hv. þm. skuli ekki sjá þetta og vilji hengja sig í þá almennu skilgreiningu ,,umtalsverð umhverfisáhrif``, sem segir nákvæmlega ekki neitt eiginlega, er almennur frasi eins og hv. þm. sagði hérna áðan.