Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:38:28 (1872)

2003-11-18 19:38:28# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta sinn sem þeir stjórnarflokkar sem nú sitja að völdum breyta þeim lögum sem gilda um samningsumgjörð og réttindi og skyldur stéttarfélaga, hvort sem er á almenna markaðnum gegnum lög um stéttarfélög og vinnudeilur eins og gert var 1996 eða þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, einnig á því ári. Þá kom fram hjá stjórnarandstöðunni eða minni hluta efh.- og viðskn. að frv. væri samið einhliða af embættismönnum ríkisvaldsins en stéttarfélag sem málið varðar fengi hvorki að koma að samningu frv. né var því gefinn kostur á að koma með ábendingu þegar frv. var í vinnslu.

Mér sýnist, herra forseti, að það sé verið að leika nákvæmlega sama leikinn nú varðandi það frv. sem hér er á dagskrá. Slík vinnubrögð eru auðvitað gagnrýnisverð og varla mjög skynsamlegt nú í aðdraganda kjarasamninga að setja samskipti ríkisvalds og opinberra starfsmanna og stéttarfélag þeirra í algjört uppnám.

Í grein eftir formann SFR og varaformann BSRB sem birtist sl. laugardag kemur fram, með leyfi forseta:

,,BSRB, BHM og KÍ hafa mótmælt harðlega þessu frumvarpi. Heildarsamtök opinberra starfsmanna líta svo á að allar breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli gerðar í fullu samráði við samtökin. Frumvarp fjármálaráðherra er hins vegar samið og lagt fram án alls samráðs.

Að afnema með þessum hætti áminningar- og andmælaréttinn er því einhliða árás á kjör fólksins þar sem starfsöryggi þess verður ekkert.``

Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu hjá stjórnvöldum, ef þeim er ekki bara alveg sama um afstöðu stéttarfélaga og heildarsamtaka opinberra starfsmanna, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að leita eðlilegs samráðs við opinbera starfsmenn um þessa breytingu sem varðar starfsöryggi þeirra. Með frv. sem við hér fjöllum um er lagt til að felld verði niður sú skylda forstöðumanns að áminna starfsmann formlega vegna brots á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem af starfinu leiðir og að gera slíka áminningu að skilyrði þess að hægt sé að segja starfsmanni upp störfum.

Í greinargerð með frv. eru rökin sem sett eru fram fyrir þessari breytingu þau að verið sé að færa starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nær því sem gerist á vinnuamarkaði. Margsinnis hefur verið kallað eftir samræmingu á réttindum og skyldum á almennum vinnumarkaði og á opinbera markaðnum en af einhverjum ástæðum leitast ríkisstjórnin ávallt við að samræma réttindin niður á við en ekki jafna upp á við, þ.e. réttindin á almenna vinnumarkaðnum að því sem best gerist hjá hinu opinbera og síðan öfugt. Mun ég víkja að því síðar í máli mínu.

Ég held að það sé brýnt, herra forseti, að hv. þingmenn geri sér grein fyrir rökunum á bak við þetta ákvæði sem hér á að fella úr gildi og meti jafnt kosti þess og galla áður en ákvörðun er tekin, en kannski umfram allt að setja málið í þann farveg sem það á heima og þar sem á að útkljá það áður en það er lagt fyrir þingið, þ.e. í samráði og samskiptum fjmrn. við opinbera starfsmenn, en ekki setja málið fram með einhliða valdboði án alls eðlilegs samráðs við þau stéttarfélög sem við þessa breytingu eiga að búa. Við erum að fjalla um starfsöryggi fólks og réttaröryggi þess í samskiptum við ríkisvaldið.

Í 3. gr. frv. er lagt til að ákvæði stjórnsýslulaga frá 1993 taki ekki til ákvarðana sem gilda eiga um lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Er ég sannfærð um að þetta ákvæði frv. muni verða ítarlega rætt í efh.- og viðskn. svo sérkennilegt sem það er. Þar með er tekinn réttur af ríkisstarfsmönnum eins og réttindi sem felast í stjórnsýslulögunum. Hingað til hafa málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaganna gilt samhliða ákvæðum starfsmannalaganna, t.d. í dómsmálum sem fjallað hafa um réttarstöðu ríkisstarfsmanna í tengslum við uppsagnir eða áminningar. Það virðist, samkvæmt þessu ákvæði, sem ekki þurfi þá lengur að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaganna þegar ákvarðanir eru teknar um uppsagnir og þarf því ekki að gæta lágmarksréttinda samkvæmt þeim lögum en þar erum við að tala um andmælarétt, meðalhófs- og jafnræðisreglu og rökstuðning gagnvart þeim sem sagt er upp störfum.

Í hólf okkar þingmanna kom í dag, dagsett 18. nóvember, erindi sem inniheldur meginsjónarmið BSRB, BHM og KÍ um frv. ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar kemur einmitt fram nokkuð sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:

,,Stjórnsýslulögin hafa reynst mikil réttarbót og þau bætt úr brýnni þörf á skilvirkum málsmeðferðarreglum í stjórnsýslu hér á landi. Ákvæði þeirra um íþyngjandi stjórnvalds\-ákvarðanir hafa reynst mikilvægt öryggisatriði fyrir borgara.``

Ég held að þetta séu orð að sönnu sem hér eru dregin fram í þessum meginsjónarmiðum stéttarfélaganna sem við þetta ákvæði eiga að búa. Ef við reynum að gera okkur enn frekari grein fyrir kostum og göllum á þessari breytingu er afleiðing hennar sú að réttarstaða ýmissa starfsstétta verður ólík eftir því hvort menn starfa hjá ríkinu eða öðrum opinberum aðilum. Ráðningarréttindi starfsmanna flestra sveitarfélaga hafa verið útkljáð í kjarasamningum og ýmis réttindi sem opinberir starfsmenn hjá ríkinu hafa áunnið sér verið tekin upp í kjarasamninga stéttarfélaga við sveitarfélögin.

Þá má líka benda á það sem kemur fram í áðurnefndri grein Jens Andréssonar, varaformanns BSRB og formanns SFR, þar sem hann vitnar í að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu margar skyldur og kvaðir lagðar á ríkisstarfsmenn sem ekki eru á almenna vinnumarkaðnum. Jens nefnir þar, með leyfi forseta:

[19:45]

,,Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru margar skyldur og kvaðir lagðar á ríkisstarfsmenn sem ekki eru á almenna vinnumarkaðinum. Má þar t.d. nefna að upplýsingar um störf opinberra starfsmanna verða almennt ekki talin til einkamálefna þeirra í skilningi upplýsingalaga, t.d. er sennilegt að almenningi sé heimill aðgangur að gögnum í málum þar sem opinberum starfsmanni er sagt upp störfum. Þá á almenningur rétt á upplýsingum um laun og launakjör opinberra starfsmanna. Þagnarskylda hvílir á opinberum starfsmönnum. Þeir undirgangast yfirvinnuskyldu. Harðari refsingum er beitt ef um brot í starfi er að ræða. Þeim er skylt að hlíta breytingum í starfi. Þá eru hæfnisskilyrði til að fá starf mun strangari en á almenna vinnumarkaðinum svo nokkur dæmi séu tekin.

Það eru miklu ríkari skyldur lagðar á ríkisstarfsmenn en gengur og gerist á almenna vinnumarkaðinum. Því er eðlilegt að einnig séu gerðar ríkari kröfur til ríkisins sem vinnuveitanda. Starfsöryggi ríkisstarfsmanna þarf því að vera gott þannig að ekki sé hægt að segja þeim upp að tilefnislausu.``

Í greinargerðinni, í athugasemdum um 3. gr., segir að sú leið sem mörkuð sé í frv. sé í samræmi við þá stefnumörkun að auka valdsvið og ábyrgð forstöðumanna á rekstri ríkisstofnana. Og í athugasemdum um 1. gr. segir að þetta sé í samræmi við þá stefnu að umhverfi ríkisstarfsmanna verði í takt við hinn almenna vinnumarkað.

Ég vil, virðulegi forseti, vitna í það sem kemur fram í því plaggi sem ég las úr áðan um meginsjónarmið BSRB, BHM og KÍ, með leyfi forseta:

,,Heildarsamtök opinberra starfsmanna, BSRB, BHM og KÍ, telja vafasamt að einblína í þessu sambandi á réttindi og skyldur starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Með starfsmannalögunum var valdið til að ráða og segja upp starfsfólki fært í hendur forstöðumanna ríkisstofnana. Forstöðumenn ríkisstofnana eru embættismenn í skilningi starfsmannalaganna og samkvæmt 23. gr. laganna gildir sú meginregla um þá að þeir skuli skipaðir tímabundið í embætti í 5 ár í senn en heimilt er viðkomandi stjórnvaldi að framlengja þá ráðningu að skipunartímanum loknum og þá til 5 ára í senn. Forstöðumennirnir hafa þannig allt aðra stöðu varðandi ráðningarkjör sín heldur en stjórnendur fyrirtækja á almennum markaði, sem reyndar eru í mjög mörgum tilvikum sjálfir eigendur fyrirtækjanna sem þeir stjórna.``

Síðar í þessu erindi segir, með leyfi forseta:

,,Sérreglur um embættismenn varðandi lausn um stundarsakir gilda hins vegar áfram, þó með þeirri breytingu að andmælaréttur þeirra takmarkast við meðferð máls þeirra fyrir nefnd samkvæmt 27. gr. laganna þannig að réttaröryggi forstöðumanna verður til að mynda meira en þeirra starfsmanna sem forstöðumenn geta samkvæmt frumvarpinu sagt upp án nokkurrar tryggingar um réttláta málsmeðferð.

Af þessu má vera ljóst að frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingu á þeim reglum sem gilt hafa um langan aldur um starfsöryggi starfsmanna ríkisins. Með því að fella ákvæði 21. gr. úr lögunum eru ríkisstarfsmenn hvað atvinnuöryggi sitt varðar settir undir geðþóttavald stjórnenda þeirra stofnana sem þeir starfa hjá. Þegar svo það bætist við, að stjórnendurnir eru háðir ákvörðunum ráðherra um sitt eigið atvinnuöryggi blasir við sú hætta að ráðherrar geti haft bein áhrif á atvinnuöryggi ríkisstarfsmanna. Þessi aðstaða fer þvert gegn yfirlýstum markmiðum með lagasetningunni árið 1996 en þá var ákveðið að færa valdið í þessum efnum frá ráðuneytunum.``

Vissulega, herra forseti, geta þau rök átt við í mörgum tilvikum sem teflt er fram í greinargerðinni og fram komu í máli ráðherra, að með því fyrirkomulagi sem gilt hefur um formlega áminningu og andmælarétt séu settar verulegar skorður við stjórnunarrétti vinnuveitenda á kostnað sveigjanleika og skilvirkni. Sama gildir um það markmið sem talað er um í greinargerðinni, að verið sé að færa þetta til samræmis við almenna vinnumarkaðinn. En menn verða þá að hafa í huga stöðu margra atvinnuveitenda á almenna vinnumarkaðnum og forstöðumanna ríkisstofnana eins og vísað var til í sameiginlegu áliti BSRB, BHM og KÍ sem ég vitnaði til áðan.

Það er ástæða til, herra forseti, að fara líka yfir, þegar við fjöllum um þetta mál, samræmingu á réttindum opinberra starfsmanna og á almenna vinnumarkaðnum, ekki síst félagsmanna í ASÍ sem vinna hjá hinu opinbera. Benda má á að í lögum frá 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var gerð sú breyting á réttarstöðu starfsmanna í almennum stéttarfélögum í störfum hjá ríkinu að þeir voru gerðir að ríkisstarfsmönnum, þ.e. lögin ná til þeirra eins og annarra starfsmanna ríkisins. Þessu fylgdu viðbótarskyldur fyrir þessa starfsmenn, svo sem trúnaðarskylda, skylda til að vinna yfirvinnu og skylda til að biðja um leyfi til að gegna launuðu starfi í þjónustu annars aðila samhliða starfi hjá ríkinu. Í tengslum við þessa lagabreytingu var rætt um þann megintilgang laganna að bæta réttarstöðu starfsmanna sem væru ekki félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna. Þessir starfsmenn mundu jafnframt öðlast þau réttindi sem lögin fela í sér og ríkið sem atvinnurekandi mundi virða ákvæði stjórnsýslulaga um að gæta jafnræðis gagnvart starfsmönnum sínum.

Nú er það svo að fjallað er um réttindi starfsmanna sveitarfélaganna og skyldur, breytingar á starfsumgjörð þeirra, í kjarasamningum en ekki kveðið á um það í lögum. Það er auðvitað umhugsunarefni hvort ekki þurfi að breyta þeirri starfsumgjörð sem opinberir starfsmenn þurfa að búa við, að þurfa sífellt að sæta því að farið sé fyrir Alþingi, án samráðs við þá, með allar breytingar á starfsumgjörð þeirra.

Ég vil líka, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður þeirri samræmingu sem gera átti í tengslum við kjarasamninga ASÍ frá því í desember 2001? Í tengslum við það kom eftirfarandi yfirlýsing frá fjmrh., með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli fulltrúa ASÍ og fjármálaráðuneytisins vegna tiltekinna vandamála sem tengjast mismunandi kjörum starfsmanna í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna og aðildarfélaga ASÍ. Af hálfu ráðuneytisins er fullur vilji til þess að halda þessum viðræðum áfram og freista þess að ná ásættanlegri niðurstöðu. Í ljósi fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er mikilvægt að ná frambúðarlausn í þessum málum í samráði við Alþýðusamband Íslands.``

Þetta var í desember árið 2001 og liðin nærfellt tvö ár. Það væri gott ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa við þessa umræðu, nú þegar við erum að sigla inn í nýja kjarasamninga, hvað hefur verið gert að því er varðar þá samræmingu sem lofað var í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga í desember árið 2001.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þau atriði sem við erum hér að fjalla um, þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hefðu átt að fara í það vinnuferli sem þessi mál eru í, þ.e. að samræma réttindi á vinnumarkaði og skoða þau í heild sinni. Þessi breyting ætti að vera hluti af þeirri samræmingu sem ráðist var í varðandi réttindi og skyldur opinbera markaðarins og almenna vinnumarkaðarins. Ég tel þessi vinnubrögð mjög óskynsamleg af hálfu ráðherra. Hann setur ekki málið í það eðlilega starfsferli sem það ætti að vera í.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra að lokum um gildistökuákvæði þessa frv., þ.e. 4. gr. Hér segir að lög þessi öðlist þegar gildi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað í ráðuneyti hans hvort ekki gæti verið um afturvirkni að ræða. Hvaða ákvæði geyma ráðningarsamningar opinberra starfsmanna í sér? Þarf ekki að miða þetta ákvæði, ef það á annað borð tekur gildi, við þær ráðningar opinberra starfsmanna sem taka gildi eftir að þessi lög hafa tekið gildi? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið skoðað með þeim augum. Ég tel að hæstv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar verði að skoða það sérstaklega.

Herra forseti. Meginniðurstaða mín varðandi þetta mál, burt séð frá efnisatriðum málsins, er að skynsamlegast væri að vísa málinu frá og láta reyna á það í eðlilegum samskiptafarvegi ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna fremur en að málinu sé fleygt inn í þingið með þeim hætti sem hér er gert.