Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:55:12 (1873)

2003-11-18 19:55:12# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem vekur strax athygli í sambandi við þetta mál, sem hér hefur þegar verið tæpt á, er hvernig það er undirbúið og að því staðið af hálfu flytjandans, hæstv. fjmrh. Það er satt best að segja ótrúlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki, jafnreyndur og sjóaður og hann er orðinn, vanda þau vinnubrögð betur en svo að kalla í forustumenn heildarsamtaka opinberra starfsmanna svona korter í tólf, rétt áður en hann hendir málinu inn í þingið. Hann hafði reyndar uppi hetjuleg orð, aðspurður um þetta atriði á dögunum, að hann þyrfti ekki leyfis að biðja til að flytja mál af þessu tagi. Þetta er ekki hetjuskapur sem skilar miklu. Hæstv. ráðherra ætti að vera upp úr þessu vaxinn. Í raun er þetta ólíkt hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde sem yfirleitt er frekar flinkur maður og jafnvel lunkinn stundum í samskiptum. En þarna hefur hann skriplað á skötunni.

Það var eiginlega vandræðalegt að heyra hæstv. ráðherra færa fram sem málsvörn að menn yrðu náttúrlega að hafa í huga að þó að þessi réttindi yrðu reytt af opinberum starfsmönnum yrðu forstöðumenn áfram að hafa málefnalegar ástæður í heiðri þegar þeir rækju starfsfólk. Þurfti sem sagt að taka það fram, hæstv. fjmrh.? Var samviskan eitthvað að angra hann? Ég hélt að ekki þyrfti sérstaklega að þakka fyrir það þó til þess væri ætlast að málefnaleg sjónarmið væru höfð að leiðarljósi í sambandi við ráðningu eða brottvikningu starfsmanna. Eitthvað gerði það að verkum að hæstv. fjmrh. lagði lykkju á leið sína til þess að taka þetta fram, að þó að áminningarskyldan og þar með andmælarétturinn yrðu felld úr lögum og það gert mögulegt að segja mönnum upp, reka menn eins og það heitir á mannamáli, fyrirvaralaust vegna fyrsta brots eða fyrstu yfirsjónar þá ætti áfram að hafa málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Þá á ekki að vera hreinn geðþótti. Það var það sem hæstv. fjmrh. var í raun að segja.

Það undarlega er auðvitað að þegar þetta mál er skoðað og borið saman við inntak þess, lagagreinar bornar saman við rökstuðning í greinargerð, þá stendur að lokum ekki steinn yfir steini. Það er kostulegt að heyra því haldið fram að þetta sé gert til að auka sveigjanleika --- gamla, góða klisjan að auka sveigjanleika. Það er ævinlega að auka sveigjanleika þegar á að reyta réttindi af starfsfólki. Það hefur alltaf verið í tungutaki frjálshyggjunnar frá fyrstu tíð, frá því Margrét Thatcher fann upp margra þessara frasa og lagði til orrustu við verkalýðshreyfinguna á Bretlandseyjum. Auka sveigjanleika heitir það að skerða réttindi starfsmanna.

Einnig segir að þessar breytingar eigi að stuðla að því að ríkið eigi ávallt á að skipa hæfustu starfsmönnum sem kostur er á hverju sinni. Er þetta aðferð til þess, hæstv. fjmrh.? Er þetta aðferðafræðin sem hæstv. fjmrh. telur svo gulltryggða að það þurfi ekki einu sinni að rökstyðja hana, að í gegnum svona nálgun fáist hæfustu starfsmennirnir hverju sinni í störf. Nei, skyldi það ekki geta verið akkúrat öfugt, að hluti af því að laða til starfa hjá hinu opinbera hæft starfsfólk sé að þar sé atvinnuöryggi, ráðningarfesta og sæmilega tryggt starfsumhverfi? Hefur það ekki verið notað sem rök fyrir því að réttlæta gjarnan lakari launakjör, t.d. mun lægri föst laun margra stétta opinberra starfsmanna borið saman við sambærilega menntað fólk úti á almennum vinnumarkaði, að það nyti meira starfsöryggis og gjarnan bætt við að lífeyrisréttindin séu hagstæðari eða betur tryggð? Þarna rekur sig auðvitað hvað á annars horn.

Í þriðja lagi, herra forseti, finnst mér horft fram hjá því í þessari nálgun hæstv. fjmrh. að starfsumhverfi opinberra starfsmanna er ein heild. Þetta er ein heild, launakjörin, réttindin og skyldurnar. Það er ekki hægt að vaða inn í einn þátt málsins og breyta honum einhliða án samráðs og láta eins og það komi ekkert við annað. Þetta er allt samhangandi. Það vantar ekki að menn muni eftir því, þegar þeir fara fram á það við menn að sætta sig við lakari kjör, lakari laun, að þeir njóti ýmiss annars í staðinn sem sé hluti af heildarumgjörðinni sem skapi starfskjör og starfsskilyrði opinberra starfsmanna.

[20:00]

Á það er einmitt minnt í sameiginlegri greinargerð frá heildarsamtökum opinberra starfsmanna að ekki megi alveg gleyma hinni hliðinni sem eru þau sérstöku skilyrði margs konar sem marka starf opinberra starfsmanna, þær skyldur sem þeir hafa á herðum en aðrir hafa ekki, ýmislegt sem varðar stöðu þeirra sem opinberra starfsmanna, upplýsingar sem í þeirra tilviki er litið á sem opinberar upplýsingar sem úti á almenna vinnumarkaðnum eru einkamál o.s.frv.

Ég tel líka, herra forseti, að afar óvenjulegt sé að sjá texta af því tagi sem er í 3. gr. frv., að taka út undan ákvæðum stjórnsýslulaga heilan kafla sem varðar mjög miklu í samskiptum atvinnurekenda, eða í þessu tilviki ríkisins, forstöðumanna sem hafa með starfsmannamálin að gera og síðan starfsmannanna. Ætti það ekki að kalla á betri rökstuðning en hér er fram færður og hvort eðlilegt sé að rífa þetta út undan stjórnsýslulögunum? Eru stjórnsýslulögin svona gölluð? Hvað er að í sambandi við það að opinberir starfsmenn njóti réttar eins og aðrir borgarar í landinu á grundvelli stjórnsýslulaga? Hver er sá réttur sem aðallega er verið að tryggja mönnum? Jú, það er að þeir geti komið sjónarmiðum sínum að, þeir geti varið sig, þeir hafi andmælarétt og annað í þeim dúr. Er ekki nokkuð langt gengið að rífa það af tugum þúsunda opinberra starfsmanna sem aðrir eiga þá væntanlega að hafa? Því í hinni opinberu stjórnsýslu munu aðrir áfram njóta þess að þau lög eru í gildi en þessi hópur þegnanna á ekki að njóta þess. Af hverju? Jú, til að hægt sé að reka þá fyrirvaralaust og án andmælaréttar. Því það er ekki bara áminningarskyldan sem er að falla niður, það er ekki bara sú aðvörun sem í því er fólgin. Það er líka andmælarétturinn sem þar með tapast, að menn hafa ekki tryggingu fyrir því að koma sjónarmiðum sínum að.

Einnig hefur verið á það bent að menn verða að setja þessa hluti í samhengi við þær breytingar sem hafa orðið hvað varðar ráðningarskilmála yfirmanna, forstöðumanna sem fara með starfsmannamálin. Þeir eru núna skipaðir til fimm ára í senn og eiga síðan möguleika á framlengingu. Þeir eru undir náð og miskunn síns ráðherra settir með það. Og er ekki staða þeirra kannski dálítið erfið í samskiptum við starfsmennina ef þrýstingur kemur ofan frá um að hreinsa nú til og það er að styttast í að þeir þurfi undir ráðherra sinn, sinn arfakóng og herra að sækja spurninguna um framlengingu í starfi? Ég held að þurfi að skoða þetta allt saman í samhengi, herra forseti.

Meginröksemd frv. er sú að jafna eigi þessi réttindi og gera þau líkari því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum eða eins og segir: ,,að færa starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nær því sem almennt gerist á vinnumarkaði.`` Þetta er fyrir utan sveigjanleikann og þessa merkilegu formúlu að hafa alltaf hæfustu menn í starfi með því að skerða talsvert starfsöryggi þeirra, laða þá til sín með því að óöryggið sé aukið í þessum efnum.

Það á sem sagt að jafna þetta. En þá er alveg ljóst að hér er notuð sú formúla að jafna niður á við. Draga á úr atvinnuöryggi opinberra starfsmanna, jafna þetta eða samræma niður á við. Það er a.m.k. alveg ljóst, er það ekki, hæstv. fjmrh.? Það er þó stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að þessi réttindi séu of rík, því ef það væri ekki mundi ríkisstjórnin auðvitað reyna að leggja sitt af mörkum til þess að aðrir fengju þá þau réttindi að svo miklu leyti sem þeir hafa þau ekki í reynd, í praxís. Því auðvitað er það víða þannig að mönnum er gefið færi á því að bæta sig og þó ein mistök eða yfirsjón hafi átt sér stað í starfi þá eru menn ekki reknir fyrirvaralaust eins og hundar af þeim sökum hjá góðum stjórnendum og vinnuveitendum.

Er það þá það sem þarf að gera á vinnumarkaði á Íslandi, þ.e. að jafna öll svona réttindi niður á við, eru þau of mikil? Plagar það íslenska vinnumarkaðinn að réttindi starfsmanna hér, launamanna í landinu, séu almennt mikil t.d. borið saman við nágrannalöndin? Nei, svarið er nei. Það er alveg ljóst að það hefur lengi einkennt íslenskan vinnumarkað að staða launamanna hér hefur verið veikari en t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Ég veit ekki betur en viðleitni hafi verið í gangi á undanförnum árum eða kannski er orðið dálítið síðan, þ.e. áratugum, að auka atvinnuöryggi ýmissa hópa sem menn hafa orðið sammála um, líka ríkisstjórnir, að væri óviðunandi. Hvernig var þetta með fiskvinnslufólk? Hvað var verið að gera með samstilltum aðgerðum aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins á sínum tíma sem Atvinnuleysistryggingasjóður kom inn í? Jú, verið var að reyna að tryggja því fólki lágmarksmannréttindi, að því væri ekki hent heim út af launaskrá fyrirvaralaust, bara vegna ógæfta eða hráefnisleysis.

Innleiddar hafa verið hér evrópskar tilskipanir. Sett hafa verið ákvæði um hópuppsagnir og slíkt sem hafa miðað að því að bæta þau réttindi hjá ýmsum hópum. En svo kemur þessi metnaðarfulla ríkisstjórn eða hitt þó heldur og telur það alveg sérstakt nauðsynjaverk að leggja í leiðangur við að reyna að jafna þessi réttindi niður á við, samræma þau niður á við.

Ég leyfi mér alveg að efa það, herra forseti, að það sé endilega svo að staða opinberra starfsmanna hafi verið svo miklu betri en hjá fjölmörgum öðrum fjölmennum hópum. Fyrir það fyrsta er það nú þannig að sveitarfélögin hafa auðvitað tekið mið af þessum lögum, þannig að starfsmenn sveitarfélaganna njóta almennt þessa réttar en hann er þá bundinn í kjarasamningnum. Og nú verður staða þeirra að þessu leyti tryggari að sveitarfélögin geta ekki einhliða sagt slíku upp af því það er samningsbundið.

Ég held að margir skynsamir stjórnendur átti sig alveg á því að þetta er ekki endilega aðferðin til að laða til sín hæft og gott starfsfólk. Það er stundum þannig að það er eins og þeir frjálshyggjumenn haldi að endalaust framboð sé af hæfu starfsfólki, það bíði bara úti í þjóðfélaginu eftir að koma í vinnu hjá þeim og þess vegna sé ekkert annað að gera til að kippa þessu í lag en að reka bara og reka og ráða hina hæfu sem séu þarna einhvers staðar, nú væntanlega þá atvinnulausir. Er það líklegt að hæfasta fólkið bíði í röðum atvinnulaust eftir því að koma í störf skussanna þegar búið er að reka þá? Gengur það upp? Nei, auðvitað ekki. Það er samkeppni um hæfa starfsfólkið. Yfirleitt getur það valið úr störfum og það er ekki þannig að rjóminn af starfsfólki sé á lausu. Ætli það sé ekki því miður í aðalatriðum iðulega öfugt.

Ríkið hefur oft þurft að búa við það á ýmsum tímum að vera í harðri samkeppni um að ná til sín hæfu starfsfólki, m.a. vegna þess að því hefur oft verið haldið harkalega niðri í launum. Að vísu hafa orðið þar ýmsar miklar breytingar á, talsverðar breytingar á og flótti hefur stöðvast úr stéttum sem voru óðum að tæmast á ákveðnum árabilum, ýmist vegna þess að menn fóru í önnur störf eða menn fóru til útlanda. Heilmikill árangur hefur náðst held ég að óhætt sé að segja í því að bæta þannig starfskjör ýmissa stétta t.d. innan heilbrigðisgeirans og við skulum segja líka kennara og slíkra, að sá mikli flótti sem þar var brostinn á hefur a.m.k. stöðvast. Ekki er ég að halda því fram að menn séu ofsælir af sínum kjörum þar, nema síður sé. En ég held að ágætt sé fyrir herramennina, hæstv. ráðherra, að minnast þeirra tíma. Það er ekki alltaf þannig að fólk standi í biðröðum eftir því að fá að vinna hjá ríkinu. Ríkið þarf þá að hafa eitthvað að bjóða, er það ekki hæstv. fjmrh.? --- Eru þetta mjög merkilegir pappírar sem ráðherrann er að blaða í? Ég ætla að vona að hann geti gert hvort tveggja, lesið og hlustað.

Ríkið þarf þá að hafa eitthvað að bjóða. Og hvað hefur það haft að bjóða? Meðal annars það að menn væru svona sæmilega tryggðir með atvinnu sína ef þeir ynnu hjá ríkinu. Er það þá endilega það skynsamlegasta sem menn gera að breyta því, að henda því? Nei, ég er ekki viss um það.

Virðulegur forseti. Það er alveg sama hvar ég kem að þessu máli, mér finnst þetta vera óskaplega fljótræðislega og lítið hugsað af hálfu hæstv. fjmrh. Ég held þetta sé frumhlaup, einhver mistök, og hæstv. ráðherra þurfi að hugsa sinn gang og er ég þá ekki að hafa uppi neinar getgátur um hversu farsæl þessi aðgerð væri fyrir ráðherrann sjálfan persónulega í störfum hans næstu mánuðina eða missirin gagnvart samskiptum við heildarsamtök opinberra starfsmanna, en einhverjir kynnu nú að hafa áhyggjur af því að þetta væri ekki mjög gáfulegt fyrir eitt stykki hæstv. ráðherra sem er að leggja inn í aðdraganda kjarasamninga. Ég sé því ekki almennilega ljósið í þessu, herra forseti, hvað hæstv. ráðherra gengur til og hvernig hann hugsar þetta. Kannski eru vegir hæstv. fjmrh., Geirs H. Haardes, órannsakanlegir eins og sagt er um fleiri fyrirbæri og þá verður bara að hafa það.

En betur þætti mér að mega trúa því að hér hafi eitthvert fljótræði átt sér stað. Ég held t.d. að það geti varla verið að það sé af einbeittum vilja og ásetningi sem hæstv. ráðherra fer fram með mál af þessu tagi sem varðar svona mikilvæg grundvallarréttindi opinberra starfsmanna án þess að kynna það fyrst og ræða við forustumenn þeirra. Það eru eiginlega ótæk vinnubrögð, gjörsamlega ótæk vinnubrögð. Og alls ekkert í samræmi við neinar góðar hefðir eða venjur í þeim efnum nema hæstv. ráðherra langi í stríð, hann sé orðinn leiður í starfinu og vanti tilbreytingu í fjmrn., þannig að hann langi beinlínis í einhvern ,,fæting.`` Hvað á maður að láta sér detta í hug þegar maður reynir að velta því fyrir sér hvað þarna gæti verið á ferðinni?

Kannski sér hæstv. ráðherra að sér og ég ætla að vona að þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar gefi sér góðan tíma að skoða það. Það er vonandi alls ekki þannig að hæstv. ráðherra detti í hug að þetta fái einhverja flýtimeðferð í gegnum þingið, það væri nú til að bíta höfuðið af skömminni. Ef hæstv. ráðherra á gleðileg jól og farsælt nýtt ár eins og sagt er, góðan gamlársdag, þá kemur hann kannski hingað í góðu skapi í janúar og fellst á að kalla þetta frv. til baka eða reyna láta það gleymast í nefnd, það væri prýðileg lausn.