Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:16:04 (1877)

2003-11-18 20:16:04# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því og það sagði ég í ræðu minni, að starfskjör opinberra starfsmanna samanstanda af þessu öllu saman, launum, réttindum og skyldum og ýmsum séraðstæðum í þeirra störfum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi nú ekki. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að laun (Gripið fram í.) starfsmanna hins opinbera, ýmissa fagstétta, hafi verið jöfnuð að fullu við það sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Þvert á móti liggja fyrir glænýjar upplýsingar um að svo er ekki. Nýlega var einmitt verið að birta niðurstöður um að það muni 50--100 þús. kr. á grunnlaunum margra hópa sérfræðinga eða fagmanna eftir því hvort þeir vinna hjá hinu opinbera eða á almenna vinnumarkaðnum, þar sem hallar á opinberu starfsmennina. Ég hygg að þessi rök haldi alveg enn þá gagnvart því að ef menn vilja réttlæta meira ráðningaröryggi eða þess vegna lífeyrisréttindi þá séu þau rök enn til staðar og fullgild.

Ég held einmitt að best sé að skoða þetta heildarsamhengi og því var ég að kalla eftir. Mann undrar að hæstv. ráðherra skuli rífa þennan eina þátt út úr eins og þarna er gert.

Varðandi samráðið þá held ég að hv. þm. hafi misskilið mig þar. Ég var ekki að mæla með því að fjmrh. eða ráðherrar yfirleitt kölluðu í fólk korter fyrir tólf til að eiga við það samráð. Þvert á móti gagnrýndi ég hæstv. fjmrh. fyrir að hafa ekkert samráð haft við samtök opinberra starfsmanna fyrr en hann kallar í þau rétt áður en hann leggur málið hér fram og mönnum er stillt upp frammi fyrir þeim fréttum að búið sé að afgreiða þetta í ríkisstjórn og málið sé á leiðinni inn í þingið. Það er auðvitað ekkert samráð. Það er til málamynda. Það er nánast lítilsvirðing að standa þannig að málum. Ég segi ekki að betra sé kannski að sleppa því, en við það jaðrar vegna þess að menn eru svona rétt að gera þetta til þess að geta sagt að samtökin hafi ekki lesið um þetta í blöðunum.