Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:18:22 (1878)

2003-11-18 20:18:22# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:18]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Við í Frjálsl. teljum að frv. sem er til umræðu sé vanhugsað. Samkvæmt athugasemd við frv. er meginmarkmið þess að færa starfsumhverfi nær því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum.

Áður en lengra er haldið er rétt að þeir sem leggja þetta frumvarp fram fari að átta sig á því að ríkið er ríkið og einkaaðilar eru einkaaðilar og aldrei er hægt að ætlast til þess að ríki og einkaaðilar fari eftir nákvæmlega sömu reglum. Í eðli sínu getur ríkisvaldið aldrei orðið eins og einkaaðili. Ríkisvaldið getur ekki verið að undanskilja sig frá meginreglum stjórnsýsluréttarins í athöfnum sínum þegar ríkið kemur fram sem vinnuveitandi gagnvart starfsmönnum sínum. Meginreglur stjórnsýsluréttar hljóta ætíð að eiga við allar athafnir ríkisins og þess vegna er umdeilanlegt hvort ríkisvaldið geti undanskilið sig með lögum frá meginreglum stjórnsýsluréttar, sérstaklega í svo mikilvægu máli sem við erum að ræða hér. Hvar endar það ef stjórnvöld ætla að undanskilja hina og þessa athöfn ríkisins frá stjórnsýslulögum? Nú á að undanskilja uppsögn frá stjórnsýslulögum. Hvað verður undanskilið á morgun? Verður það einhver önnur athöfn ríkisins?

Uppsögn verður alltaf að að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Það er e.t.v. óþarfi að taka það fram eins og gert var í ræðu hæstv. fjmrh. Það er umdeilanlegt hvort uppsögn sé stjórnvaldsákvörðun, en engu að síður er starfsmaður að missa réttindi. Með þessu frumvarpi er ríkið að reyna að undanskilja sig frá því að þurfa að hlíta þessum stjórnsýslureglum og það í raun óskiljanlegt.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég efast um að hægt sé að undanskilja eina frekar en aðra ákvörðun ríkisins algjörlega undan almennum stjórnsýslureglum.

Almennt er staðan á einkamarkaðnum sú að ef einhver er rekinn með ómálefnalegum hætti þá þarf sá sem verður fyrir órétti að sanna að svo hafi verið. Tökum dæmi af manni sem missir vinnuna á einkamarkaðnum vegna kynhneigðar sinnar. Þá þarf viðkomandi einstaklingur sem beittur er órétti að sanna að honum hafi verið sagt upp á ómálefnalegan hátt. Nú þarf forstöðumaður hjá ríkinu að tilgreina ástæðu fyrir brottrekstri og rökstyðja hann. Hvað er að því? Er það ekki í lagi? Hvers vegna þarf að breyta því með þessu frv.? Ef frv. sem hér er til umræðu verður að lögum má jafnvel ætla að forstöðumaður þurfi hvorki að tilgreina neina málefnalega ástæðu fyrir brottrekstri né rökstyðja brottreksturinn.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvers vegna vilja menn endilega víkja sér undan stjórnsýslulögunum? Ég átta mig ekki á því hvaða rök liggja hér að baki. Hvers vegna á að undanskilja brottrekstur frá stjórnsýslulögunum? Hvað er það í stjórnsýslulögunum sem hæstv. fjmrh. vill forðast? Er það sú krafa í stjórnsýslulögunum að rökstyðja beri uppsögn? Er það jafnræðisreglan sem hann er hræddur við, þ.e. að gæta skuli samræmis og jafnræðis við hvernig sambærileg brot starfsmanna eru meðhöndluð? Er það það sem menn óttast? Hver er ástæðan? Vill hæstv. fjmrh. e.t.v. koma sér undan rannsóknarreglunni, þ.e. að gengið sé fyllilega úr skugga um að nægilegar upplýsingar um brot einstaklings í starfi liggi fyrir áður en ákvörðun um brottvikningu starfsmanns er tekinn? Er hann e.t.v. að víkja sér undan meðalhófsreglunni? Hver er ástæðan?

Ég tel, eins og áður segir, að þó svo að umdeilanlegt sé hvort hægt sé að undanskilja brottvikingu starfsmanns frá meginreglu stjórnsýslureglna þá væri engu að síður fróðlegt að fá að heyra hvað knýr hæstv. fjmrh. til verka.

Nú er ljóst að fostöðumenn stofnana þurfa að fara í hvívetna eftir stjórnsýslulögum í öðrum ákvörðunum sínum og þess vegna ætti þeim að vera leikur einn fara eftir þessum sömu lögum í samskiptum við starfsmenn sína. Ég sé ekkert sem mælir á móti því.

Eitt er víst að það er hægt að segja ríkisstarfsmanni upp nú með ýmsum málefnalegum hætti og það þarf ekki einungis að vera vegna brots í starfi. Á heimasíðu fjmrn. má finna upptalningu á ýmsum málefnalegum ástæðum fyrir uppsögn. Þar eru nefndar rekstrarlegar ástæður, t.d. ef það á að fækka starfsmönnum eða breyttar aðstæður krefjast annarrar hæfni en viðkomandi starfsmaður býr yfir. Önnur ástæða er ef reynsla á reynslutíma er ekki nægilega góð. Fleiri ástæður eru nefndar, t.d. ef starfsmaður hefur verið ráðinn sem bílstjóri missir bílpróf. Þá má segja honum upp.

Herra forseti. Ég efast um að einhverjar hagkvæmnisástæður liggi til grundvallar þessum breytingum á lögum um réttindi og starfsskyldur starfsmanna ríkisins. Það væri þá algjörlega ný hugsun hjá ríkisstjórninni. En dæmin sanna að þegar hún hefur samið um starfskjör og starfslok þeirra sem hún hefur séð ástæðu til að semja sérstaklega við þá er ekki verið að spá í hvað hlutirnir kosta skattgreiðendur. Hver man ekki eftir margra tugmilljóna starfslokasamningi fráfarandi forstjóra Landssímans? Hvað kostuðu starfslokasamningar fráfarandi forstjóra Byggðastofnunar? Var það ekki eitthvað á annað hundrað millj. kr. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. leiðrétti mig ef ég fer með rangar tölur. Væri ekki nær að reyna að girða fyrir slíka samninga? Hv. þm. Pétur H. Blöndal ætti nú að leggja okkur lið í að girða fyrir slíka samninga og koma í veg fyrir þá því það misbýður réttlætiskennd fólks að verið sé að veita svo háar upphæðir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Virðulegi forseti. Í bréfi BSRB og BHM sem mér barst í dag kemur fram að það megi ráða að verið sé að reyna að auka húsbóndavald ráðherra yfir starfsmönnum ríkisins, ef svo má að orði komast. Ég ætla ekki að lesa þann kafla upp. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það fyrr í umræðunni. En ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því hvort sú sé raunin. Er verið að efla húsbóndavald hæstv. ráðherra?

Eins og hér kom fram áður er hægt að segja mönnum upp á rekstrarlegum forsendum. Ég skil ekki hvers vegna menn eru að koma með þessa breytingu á lögunum núna.

Að lokum legg ég til að hæstv. fjmrh. dragi þetta mál til baka og fari frekar í heildarendurskoðun á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og vinni það í samráði við stéttarfélög starfsmanna ríkisins.