Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:26:34 (1879)

2003-11-18 20:26:34# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:26]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vel farið yfir frv. sem við erum að fjalla um, frv. til laga um breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar sem ég átti orðastað við hæstv. fjmrh. í óundirbúnum fyrirspurnum í gær vegna þessa máls og á þeim forsendum sem mér finnst vera mikilvægar, sem sé hvers vegna ekki hafi verið haft samráð við heildarsamtök opinberra starfsmanna, þá vil ég aðeins koma frekar inn á efni frv.

Eins og hæstv. fjmrh. svaraði þá er hann ekki skyldugur til að bera frv. undir opinbera starfsmenn eða aðra heldur eingöngu ríkisstjórnina þar sem hann fékk auðvitað heimild til að leggja frv. fram. Þetta er auðvitað rétt. En það er spurning hversu skynsamlegt það er af hæstv. ráðherra að setja málið í þennan farveg því eins og hér hefur komið fram er þetta ein heild, þ.e. réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, launakjörin og ekki síst, eins og ég sagði áðan, skyldurnar. Þetta fer allt saman. Eins er með lífeyrisréttindin og öryggi í starfi. Þetta er allt einn pakki. Þegar opinberir starfsmenn hafa staðið í kjarabaráttu eða kjarasamningum hafa mörg rök verið færð fyrir því að ekki sé hægt að samræma að fullu laun opinberra starfsmanna og laun á hinum frjálsa og almenna markaði þar sem opinberir starfsmenn hefðu ákveðin réttindi og starfsöryggi umfram starfsmenn á hinum almenna markaði. Þess vegna hafa opinberir starfsmenn sætt sig við eða orðið að lúta því að fá lægri laun. Þetta hefur alltaf verið hluti af heildarmyndinni.

Þar sem svo er og þar sem í dag er verið að vinna í góðu samráði og samvinnu, að ég taldi, að endurskoðun á samningsréttarlögunum og fram undan eru kjarasamningar þá tel ég að allir hafi í raun búist við því að hæstv. ráðherra mundi vinna að málinu sem heild. En því miður er ekki svo. Því hlýt ég að líta svo á að hæstv. fjmrh. þurfi að skoða frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 með tilliti til þessa því fram hljóta að koma auknar launakröfur hjá öllum opinberum starfsmönnum ef þetta frv. verður afgreitt núna. Það segir sig sjálft þar sem þetta er ein heild. Og þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að rekstrarkostnaður stofnana verði hærri en gert er ráð fyrir í frv. núna.

[20:30]

Það skal enginn ganga út frá því sem vísu að þessi breyting muni ekki hafa áhrif á launakröfur opinberra starfsmanna. Það er töluverður launamunur í dag eins og fram hefur komið og þegar horft er til menntunar og ábyrgðar opinberra starfsmanna og á hinum frjálsa markaði er það launamunur sem verður horft til.

Ef þetta frv. verður að lögum er ekki hægt að sjá annað en að það geti komið til uppsagna án þess að starfsmenn hafi í raun brotið af sér í starfi, eða valdi ekki skilgreindu starfi sem þeir hafi verið ráðnir í, það þurfi ekki að aðvara þá, gefa þeim áminningu og þar af leiðandi hafa starfsmennirnir ekki andmælarétt. Það skulu eingöngu málefnaleg sjónarmið ráða.

Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort sparnaður í rekstri viðkomandi stofnunar, opinberrar stofnunar, sé málefnalegt sjónarmið. Þegar forstöðumaður hefur þetta mikla vald á sínum herðum, að geta ráðið og sagt upp fólki, og komið er fram undir haustdaga og hann sér fram á að rekstur stofnunarinnar fari fram úr fjárlagaheimild, getur hann sagt upp tilskildum fjölda starfsmanna, en mjög margar stofnanir eru þannig settar að 70--80% af rekstrarkostnaði eru laun. Þetta er í raun og veru það eina sem forstöðumenn geta þá gripið til, að segja upp starfsmönnum. Þó svo að þeir dragi úr rekstri og þjónustu, við skulum ekki gleyma að opinberar stofnanir eru þjónustustofnanir, eru starfsmennirnir enn þá til staðar og það hefur þá lítil áhrif á rekstrarútgjöld stofnunarinnar nema hvað þjónustan verður minni. Þetta þekkjum við vel á heilbrigðisstofnunum þar sem verið er að loka deildum, minnka þjónustu og svo er verið að færa til starfsfólk með tilliti til þess. En í dag er ekki heimild til þess að segja upp starfsfólki bara sisvona og ráða það svo vonandi aftur eftir áramótin. Er sparnaður í rekstri nógu málefnalegt sjónarmið til þess að vera með hringlanda í starfsmannahaldi?

Ég vil líka að það komi hér fram að þar sem opinberar stofnanir eru þjónustustofnanir, þá er þetta ekki eingöngu starfsöryggi starfsmannanna, þetta er líka öryggi allra þeirra sem njóta þjónustu hjá viðkomandi stofnun, hvort sem það er heilbrigðisstofnun, Tryggingastofnun, skatturinn eða hver sem er, að hafa þessa festu í starfsmannahaldinu. Það er líka öryggi. Og að hafa aðgang að starfsmönnum og samfellu í þjónustu er líka öryggi, því ég tel að innan hinnar opinberu þjónustu séum við einmitt með hæfa starfsmenn í flestum stöðum og við munum örugglega ekki halda þeim ef starfsöryggi verður ekki til staðar. Það er alveg hreint ljóst.

Herra forseti, ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa þetta mikið lengra frá minni hálfu, það hefur verið vísað hér í greinargerð eða meginsjónarmið BSRB, BHM og KÍ við frv. ríkisstjórnarinnar. Það hefur einnig verið vísað til góðrar greinar eftir Jens Andrésson, formanns SFR og varaformanns BSRB. Í þessum gögnum koma fram meginsjónarmið. Ég vil ítreka það að í dag er það engri stofnun til trafala að fara eftir þeim reglum sem nú gilda og ákvæðum stjórnsýslulaga og það er alveg hreint með endemum ef það á að taka þann rétt af opinberum starfsmönnum að vera ekki undir ákvæðum stjórnsýslulaga eins og hér er lagt til.