Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:48:03 (1885)

2003-11-18 20:48:03# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í því frv. sem við ræðum hérna er einmitt verið að aðlaga starf opinberra starfsmanna að almenna markaðnum, reyna að finna sameiginlegan flöt á því þannig að opinber fyrirtæki geti verið jafnsveigjanleg, eða eins sveigjanleg og hægt er, og fyrirtæki á almennum markaði. Þetta er markmiðið.

Ég sagði aldrei að opinberir starfsmenn stæðu ekki sína plikt, aldrei nokkurn tímann, mér dettur það bara ekki í hug. Ég þekki fjöldann allan af opinberum starfsmönnum sem vinna mjög fórnfúst og gott starf. Og það er náttúrlega galli við opinbera stjórnsýslu að það er mjög erfitt að verðlauna þessa frábæru starfsmenn sem þar starfa. Það er mjög erfitt vegna einmitt mjög bindandi laga að laga til í rekstrinum en þessari lagasetningu er einmitt ætlað að lagfæra þetta.

Varðandi atvinnuöryggið þá er náttúrlega eitt á hreinu að ríkissjóður sem atvinnurekandi fer ekki á hausinn en það gera önnur fyrirtæki, og það er það sem ég var að benda á að þar væri jú dálítill munur á. Hinn almenni markaður býr við það að menn geta unnið hjá fyrirtæki sem fer á hausinn þó að starfsmennirnir sjálfir hafi ekkert saknæmt gert.

Svo sagði hv. þm. að það væru skattsvik, hann vissi um að það væru skattsvik. Ég ætla nú að vona að það sé ekki almennt og ég reikna með því að flestir launþegar í þessu þjóðfélagi borgi sína skatta og skyldur. (SJS: Ég nefndi aldrei orðið skattsvik.)