Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 21:11:29 (1894)

2003-11-18 21:11:29# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[21:11]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég bar upp spurningar í ræðu minni í kvöld. Mér fundust svörin hjá hæstv. ráðherra klén. Ég spurði m.a. hvað það væri í stjórnsýslulögum sem menn væru að forðast. Mér fundust svörin ekki skýr og finnst tímabært að hæstv. ráðherra greini okkur frá því. Það kemur ekki fram í athugasemdum með frv.

Ég spurði hæstv. ráðherra einnig hvort verið væri að efla húsbóndavald og jafnvel að múlbinda ríkisstarfsmenn með þessum lögum. En það kemur m.a. fram í áðurnefndu bréfi sem við fengum frá starfsmannafélögum ríkisins að talið væri að með þessu ætti að efla húsbóndavald yfir ríkisstarfsmönnum. Ég vænti þess að fá svör, sérstaklega við spurningunni: Hvað er það sem er svona hættulegt í stjórnsýslulögunum og gerir það að verkum að endilega þurfi að undanskilja uppsagnir? Af svari hæstv. fjmrh. áðan mátti helst ráða að það væri af greiðasemi við starfsmenn.

Nú er það svo að félög starfsmanna vilja hafa þetta ákvæði inni, að farið verði eftir stjórnsýslulögum. Ég tel í raun að það sé mjög varhugaverð þróun fyrir ríkið að ætla að hegða sér með þessum hætti, að undanskilja þessi atriði og skerða með því réttindi starfsmanna, að undanskilja þau almennum stjórnsýslureglum í þjóðfélaginu.