Fjáraukalög 2003

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 13:35:15 (1901)

2003-11-19 13:35:15# 130. lþ. 30.1 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er verið að ganga til atkvæðagreiðslu um breytingar á frv. til fjáraukalaga og sundurliðað fjáraukalagafrv. eins og hefðbundið er við 2. umr. Meginhluti frv. og þeirra breytinga sem hér eru lagðar til eru komnar til annars vegar vegna vöntunar á fjármagni til einstakra útgjaldaliða. Það var í sjálfu sér fyrirsjáanlegt við gerð fjárlaganna á síðasta ári. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs bentu ítarlega á þetta og fluttu brtt. við það frv. sem þá var afgreitt sem fjárlög fyrir þetta ár. Því er ljóst að bæði meiri hlutinn og framkvæmdarvaldið ber alla ábyrgð á framlagningu þessara fjáraukalaga.

Margar tillögur í frv. og eins brtt. eftir 2. umr. eru eðlilegar eða nauðsynlegar og veita nauðsynlegar úrbætur á einstökum fjárlagaliðum. Væri því hægt að styðja þær í sjálfu sér sem slíkar. En ég vil benda á, virðulegi forseti, að 3. umr. um fjáraukalagafrv. á eftir að fara fram. Ljóst er að einstaka liðir standa enn út af og eru óafgreiddir enn þá. Ég vil þar nefna skiptingu og endanlega fjárútvegun fyrir heilbrigðisstofnanir, daggjaldastofnanir, framhaldsskóla og ýmislegt fleira sem ekki er búið að ganga frá endanlega af hálfu fjárln. fyrir þingið.

Ég vil og minna á erfiða stöðu sveitarfélaganna. Ég tel brýnt að fjárln. taki fyrir 3. umr. til greina möguleika á því að auka framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þannig að hægt sé að styrkja þau sveitarfélög sem verst standa núna, en á undanförnum árum hafa einmitt verið afgreiddar við fjáraukalög sérstakar fjárveitingar, fólksfækkunarframlög eða annað slíkt, til að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Þegar á heildina er litið er þetta fjáraukalagafrv. og breytingartillögur þær sem hér eru lagðar fram fullkomlega unnar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi sem styður ríkisstjórnina og eru á ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Því sitja þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hjá við þessa atkvæðagreiðslu málsins í heild.